Laugardalsvöllur Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson gerði eina breytingu á leikmannahóp sínum frá síðasta landsliðsverkefni gegn Serbíu.
Laugardalsvöllur Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson gerði eina breytingu á leikmannahóp sínum frá síðasta landsliðsverkefni gegn Serbíu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fanney Inga Birkisdóttir kemur inn í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikina tvo gegn Póllandi og Þýskalandi í 4. riðli undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Sviss sumarið 2025

EM 2025

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Fanney Inga Birkisdóttir kemur inn í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikina tvo gegn Póllandi og Þýskalandi í 4. riðli undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Sviss sumarið 2025.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, tilkynnti 23 manna leikmannahóp sinn á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

Fanney Inga, sem er 19 ára gömul og samningsbundin Íslandsmeisturum Vals, kemur inn í hópinn fyrir Aldísi Guðlaugsdóttur, markvörð FH.

Að Fanneyju Ingu undanskilinni er leikmannahópurinn sá sami og hafði betur gegn Serbíu í leik um sæti í A-deild undankeppninnar í febrúar á þessu ári.

Fyrsti leikur íslenska liðsins í undankeppninni er gegn Póllandi á Kópavogsvelli hinn 5. apríl og sá síðari gegn Þýskalandi í Aachen hinn 9. apríl en Austurríki leikur einnig í sama riðli.

Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er langleikjahæst í íslenska hópnum með 122 landsleiki og þá er hún einnig sú markahæsta í hópnum með 10 mörk.

Næst á eftir Glódísi Perlu kemur Ingibjörg Sigurðardóttir með 59 landsleiki en þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, 37 landsleikir, og Sveindís Jane Jónsdóttir, 34 landsleikir, eru næstmarkahæstar í hópnum með 9 mörk hvor.

Hausverkur að velja hópinn

„Það er gott að þurfa ekki að gera margar breytingar á hópnum. Þetta eru allt sömu útileikmenn og í síðasta verkefni og það er gott að geta haldið áfram að vinna markvisst í þeim hlutum sem við höfum verið að vinna í, í undanförnum landsleikjagluggum.

Það fylgir því alltaf ákveðinn hausverkur að velja landsliðshópinn og sem betur fer höfum við úr mörgum leikmönnum að velja, sem er mjög jákvætt. Ég velti því alveg fyrir mér hvort ég ætti að gera einhverjar breytingar en að endingu tók ég þá ákvörðun að gera það ekki,“ sagði landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson á blaðamannafundinum í Laugardal í gær.

Tvö efstu lið riðilsins tryggja sér þátttökurétt í lokakeppninni sem fram fer dagana 2.-27. júlí sumarið 2025 í Sviss eins og áður sagði en liðin sem enda í þriðja og fjórða sæti riðilsins fara í umspil.

„Þessi verkefni gegn Póllandi og Þýskalandi leggjast vel í mig. Þetta eru sex úrslitaleikir og markmiðin okkar í þessari riðlakeppni eru mjög skýr. Vonandi getum við byrjað þessa undankeppni af krafti. Við ætlum okkur að eiga góðan leik gegn Póllandi og vinna þær.

Þýskaland er svo næsti mótherji og við ætlum okkur að ná í önnur góð úrslit þar líka. Við förum inn í alla leiki til þess að vinna þá og það er það eina sem við erum að hugsa um.“

Dregið var í riðla fyrir undankeppnina í Sviss hinn 5. mars og fylgdist landsliðsþjálfarinn spenntur með drættinum.

„Ég skal alveg viðurkenna það að það var gleðilegt að sjá í hvaða riðli við lentum. Þegar ég horfði á riðlana þá vildi ég ekki lenda í riðli með Spáni. Aðalatriðið var svo að lenda ekki með Englandi í riðli heldur og það hefði verið erfiðara, sérstaklega þar sem við hefðum líka getað endað í riðli með Englandi og Frakklandi. Ég skal alveg viðurkenna það að ég fagnaði þegar það var ljóst í hvaða riðli við lentum,“ sagði landsliðsþjálfarinn en leikmannahóp íslenska liðsins má sjá í heild sinni á mbl.is/sport.