Fyrst loðnan lét ekki sjá þig þurfti að kaupa 3.300 tonn af henni úr Barentshafi.
Fyrst loðnan lét ekki sjá þig þurfti að kaupa 3.300 tonn af henni úr Barentshafi. — Ljósmynd/Eskja
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Snorrason ber sig nokkuð vel þó eðlilega þyki honum óheppilegt að í þriðja skiptið á fimm árum hafi enginn loðnukvóti verið gefinn út. Páll er framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Eskju og segir hann það hjálpa greininni nú að…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Páll Snorrason ber sig nokkuð vel þó eðlilega þyki honum óheppilegt að í þriðja skiptið á fimm árum hafi enginn loðnukvóti verið gefinn út. Páll er framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Eskju og segir hann það hjálpa greininni nú að loðnuveiðarnar gengu mjög vel í fyrra og að margar útgerðir eigi töluverðan forða af loðnuhrognum til að mæta þörfum viðskiptavina sinna.

„Síðasta vertíð gekk ákaflega vel. Loðnan var vel á sig komin og framleiðslan skilaði mjög góðum afurðum. Árið þar á undan var vertíðin líka stór en hafa þurfti meira fyrir veiðunum. Hins vegar komu tvö loðnulaus ár í röð 2019 og 2020.“

Enn er margt á reiki um lífsferli og vöxt loðnunnar og segir Páll erfitt að fullyrða um hvað kann að hafa valdið loðnubrestinum í ár. „Það er eðlilegt að komi loðnulaus tímabil og undanfarna áratugi hefur það kannski gerst á tíu ára fresti, en það er óvenjulegt að stofninn bregðist með jafn stuttu millibili og við erum nú að upplifa,“ segir hann.

Kolmunninn til bjargar

Þó að það sé missir að loðnunni þá vega aðrar uppsjávartegundir upp á móti og segir Páll gott að þeir fimm uppsjávarstofnar sem íslenskur sjávarútvegur nýtir séu aldrei allir í lægð á sama tíma. Þar af eru tveir stofnar sem heyra undir íslenska fiskveiðikerfið; síldin og loðnan, en þrír deilistofnar: makríll, norsk-íslenska síldin og kolmunni sem hlutaðeigandi strandríki hafa ekki náð samkomulagi um hvernig rétt er að skipta.

Páll bendir á að ósamkomulag um veiðarnar kunni t.d. að hafa neikvæð áhrif á sölu á afurðum Eskju, sérstaklega mjöli og lýsi sem selt er til fóðurframleiðanda til notkunar í fiskeldi. Er ástæðan sú að margir kaupendur gera þá kröfu til seljenda að þeir geti sýnt fram á að veiðarnar hafi farið fram með sjálfbærum hætti, en á meðan tekist er á um skiptingu deilistofnanna ákveður hver þjóð aflamark eftir sínu höfði frekar en að fylgja vísindalegum ráðleggingum í hvívetna. „Reyndar hefur kolmunnastofninn verið að styrkjast að undanförnu, og það þrátt fyrir að vísindamennirnir hafi fullyrt að ofveiði eigi sér stað,“ bætir Páll við. „Sjálfbærnivottun er minni vandi þegar kemur að frystum afurðum, en okkar helsti markaður fyrir þær vörur er í Austur-Evrópu og þar er ekki gerð jafn afdráttarlaus krafa um vottanir.“

Mikill uppgangur hefur verið í kolmunnavinnslu hjá Eskju að undanförnu og reynst kærkomin búbót í loðnubrestinum. „Við höfum keypt mikið magn kolmunna af erlendum skipum það sem af er ári en í janúar fiskuðu okkar skip um 14.000 tonn af kolmunna sem veiddur var í lögsögu Færeyja. Við höfum tekið á móti um það bil 32.000 tonnum af kolmunna og loðnu af erlendum skipum og settum Íslandsmet og gott ef ekki heimsmet þegar við lönduðum í einu lagi farmi upp á 3.653 tonn, sem er stærsti farmur af afla til vinnslu sem við vitum um,“ segir Páll. „Með allt þetta hráefni hefur verið nóg að gera í vinnslunni og er það jákvætt bæði fyrir fyrirtækið og fyrir samfélagið.“

Vöruskortur getur skaðað viðskiptasamböndin

Páll segir að ekki aðeins valdi það tekjumissi þegar loðnan hverfur heldur geti aflabresturinn líka sett rótgróin viðskiptasambönd í hættu. „Það er mikilvægt að við getum framleitt eitthvert magn af loðnu fyrir viðskiptavini okkar, sérstaklega þá sem eru í Asíu, og af þeim sökum tókum við þá ákvörðun að kaupa loðnu sem norsk skip höfðu veitt í Barentshafi. Keyptum við samtals 3.300 tonn sem við flokkuðum og frystum. Vinnslan lukkaðist ágætlega en Barentshafs-loðnan reyndist smærri en við erum vön,“ útskýrir Páll og bætir við að kaupendur í Austur-Evrópu kaupi þessa vöru og er hængurinn sérstaklega eftirsóttur en flokkuð hrygna fer á markað í Asíu. „Ef við höldum þessum viðskiptasamböndum ekki við með einhverju móti þá fylla einfaldlega einhverjir aðrir í skarðið eða markaðir finna aðra staðkvæmdarvöru fyrir loðnuna.“

Er þróunin í þá átt að nýta sem mest af uppsjávartegundunum til manneldis: Loðnan er heilfryst, flokkuð, skorin og tekin úr henni hrognin; makríllinn og síldin eru flökuð og einnig framleiðir Eskja hausaðan og slógdreginn makríl. Kolmunninn fer hins vegar alfarið í mjöl- og lýsisframleiðslu. Verð hefur verið á uppleið og er eftirspurnin eftir mjöli og lýsi aðallega drifin áfram af örum vexti fiskeldis um allan heim. „Vegna áhrifa El Nino hefur framboð af lýsi frá Suður-Ameríku verið með minnsta móti undanfarin tvö ár og hefur það ýtt verði upp enn frekar. Blikur eru á lofti á mjöl- og lýsismörkuðum því þegar El Nino gætir ekki lengur mun framboðið koma til baka og verð vera undir þrýstingi til lækkunar.“

Hrognamarkaðurinn hefur verið erfiður, að sögn Páls, en Eskja selur m.a. til kaupenda í Japan, Víetnam, Indónesíu og Kína og þykja loðnuhrogn tilvalin til sushi-gerðar. Mikil framleiðsla í fyrra þýðir að Eskja hefur ekki átt í nokkrum vanda með að útvega kaupendum sínum loðnuhrogn á þessu fiskveiðári, þrátt fyrir loðnubrest. „Hrognin eru harðger og geymast mjög lengi frosin og gætu birgðirnar enst í þrjú til fjögur ár ef því er að skipta,“ segir Páll og bætir við að hann reikni með að stofninn verði sterkur á næsta ári. „Í fyrra urðum við vör við að mikið magn loðnu kom inn til hrygningar og lofar það góðu fyrir komandi vertíð.“

Uppsjávarfiskur grænasta dýrapróteinið

Greinlegt er að spennandi tækifæri felast í að nýta uppsjávartegundir í auknum mæli til manneldis en Páll segir að sýnt hafi verið fram á að uppsjávarveiðar séu einhver umhverfisvænasta matvælaframleiðsla sem völ er á, og af öllu dýrapróteini á markaðinum hafi villtar uppsjávartegundir minnsta kolefnissporið.

Ætti þetta ekki að koma á óvart enda eru tegundirnar sem um ræðir neðarlega í fæðukeðjunni og geta veiðarnar verið mjög skilvirkar mælt í aflamagni á hvern túr. Er þetta eitthvað sem margir neytendur hefðu eflaust gaman af að gefa aukinn gaum enda súrsuð síld herramannsmatur og steikt loðna sömuleiðis, og fátt sem jafnast á við að njóta vænnar klípu af loðnukavíar sem smurt hefur verið á saltkex eða smápönnuköku.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson