Sveinbjörn Sigurðsson fæddist 13. febrúar 1935. Hann lést 12. mars 2024.

Útför hans fór fram 20. mars 2024.

Sveinbjörn Sigurðsson var eiginmaður Vénýjar föðursystur minnar og ég hef þekkt hann síðan ég man eftir mér. Þegar ég var lítill var ég löngum stundum hjá afa mínum og ömmu í Hafnarfirði og það var mikill samgangur á milli heimila þeirra og Vénýjar og Sveinbjörns. Ég lék mér mikið við frændsystkin mín, einkum þau eldri, Einar og Helgu, bæði hjá afa okkar og ömmu á Álfaskeiðinu og heima hjá þeim, fyrst á Arnarhrauni og síðan í Miðvangi. Í minningunni eru þessar dvalir í Hafnarfirði eins og sumarfrí í Múmíndal: dagarnir liðu við leik og lestur og svo var alltaf einhver í kaffi eða það var farið eitthvað í kaffi. Og ef það þurfti að keyra eitthvað þá var Sveinbjörn undir stýri. Allt bras var fremur fjarlægt í þessum heimi eins og ég sá hann: fyrir mér var hann fullur af kakómalti og mjólkurkexi og Íslendingaþáttum Tímans en ef eitthvað þurfti að framkvæma, hvort sem það var að keyra bíl eða skrúfa hillu á vegg, þá hlaut það að vera á herðum Sveinbjörns. Í þessum heimi höfðu konur skoðanir en karlar mölduðu í móinn ef þeir sögðu yfirhöfuð eitthvað. Sveinbjörn var hæglátur maður sem þurfti ekki að láta ljós sitt skína en tók samt þátt af einlægum áhuga: hann hafði eftirminnilegan hlátur sem fyrir barnið var eins og leiðarljós til að skilja upp og ofan í öllu þessu endalausa tali um ættfræði og stjórnmál. Hann var eins og hornsteinn eða akkeri, þurfti ekki að gera neitt nema vera, til að hafa afgerandi áhrif á tilveruna. En hann var líka einstaklega greiðvikinn og vildi alltaf leggja gott til, maður sem hægt var að treysta á.

Það eru forréttindi að hafa fengið að alast upp innan um gott fólk eins og Sveinbjörn. Hann var mér mikilvæg fyrirmynd um mannkosti og ég er ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst honum.

Orri Vésteinsson.

Komið er að því að kveðja ferðafélaga okkar í gönguhópnum Ganglerum, hann Sveinbjörn.

Við höfum ferðast saman bæði á Íslandi og erlendis í bráðum 35 ár og eigum margar góðar minningar úr ferðum okkar.

Sveinbjörn var góður og traustur félagi, mjög jákvæður og skemmtilegur. Á göngu var hann ávallt í fremstu röð, léttur á fæti og hljóp hann iðulega upp um holt og hæðir til þess að fá betri yfirsýn yfir landsvæðið.

Sem yfirgrillari í ferðum okkar sá hann til þess að lambalærin væru mátulega grilluð, fylgdist grannt með og notaði þykkan álpappír sem hann útvegaði frá Álverinu.

Þau Véný ferðuðust oft með heimasmíðaðan tjaldvagn sem hægt var að komast með vítt og breitt um landið og sáu hópnum fyrir tjaldi með ferðaklósetti, þegar ferðast var í óbyggðum.

Við félagarnir í Ganglerum skiptumst á að vera fararstjórar. Véný og Sveinbjörn voru m.a. fararstjórar í ferð inn í Héðinsfjörð og inn í Viðfjörð og Hellisfjörð. Þau sáu einnig um eftirminnilega ferð inn í Svarfaðardal, en í þeirri ferð buðu þau hópnum í glæsilegar veitingar í íbúð sinni á heimaslóðum Sveinbjarnar í Ólafsfirði.

Kvöldvökurnar í ferðum okkar voru ávallt skemmtilegar. Við sungum mikið saman, Sveinbjörn sagði skemmtilegar sögur og Véný hirðskáldið okkar fór með vísur sem hún samdi.

Elsku Véný og fjölskylda, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

F.h. gönguhópsins Ganglera,

Erla María og Steindór.