Seld var grálúða til Kína fyrir meira en 833 milljónir króna í janúar síðastliðnum, sem er 93% aukning frá sama mánuði í fyrra.
Seld var grálúða til Kína fyrir meira en 833 milljónir króna í janúar síðastliðnum, sem er 93% aukning frá sama mánuði í fyrra. — Morgunblaðið/Ómar
Í heild voru flutt út 3.638 tonn af eldis- og sjávarafurðum til Kína í janúar sem er næstum 100% aukning frá sama mánuði 2022, samkvæmt talnagögnum Hagstofu Íslands. Mest munar um grálúðu og makríl en alls voru flutt út 1.240 tonn af grálúðu á móti…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Í heild voru flutt út 3.638 tonn af eldis- og sjávarafurðum til Kína í janúar sem er næstum 100% aukning frá sama mánuði 2022, samkvæmt talnagögnum Hagstofu Íslands. Mest munar um grálúðu og makríl en alls voru flutt út 1.240 tonn af grálúðu á móti 514 tonnum í janúar í fyrra og 326,5 tonnum í janúar árið 2022. Magnið af grálúðu sem flutt var út í janúar síðastliðnum er tæplega fimmtungur alls magns sem flutt var til Kína allt árið í fyrra.

Í janúar skilaði grálúðan 833,7 milljónum króna (FOB) í útflutningsverðmæti á móti 432,9 milljónum í janúar 2023 og 249,6 milljónum sama mánuð árið þar á undan. Þannig jókst magn grálúðu sem seld var til Kína um 141% en útflutningsverðmætið um 93%. Sé útflutningsverðmæti deilt á útflutt magn sést að meðalverðmæti tegundarinnar á kíló var 764,5 krónur í janúar árið 2022, 842,1 króna í janúar á síðasta ári en aðeins 672,1 króna sama mánuð á þessu ári.

Sem fyrr segir varð einnig myndarleg aukning í makríl sem fluttur var út til Kína og voru tæp 992 tonn seld þangað í janúar síðastliðnum á móti rúmlega 128 tonnum í janúar á síðasta ári og er það 671% aukning. Verðmætið jókst hins vegar um 499%, en makríllinn skilaði 190,6 milljónum króna í janúar á þessu ári og 31,8 milljónum sama mánuð í fyrra.

Flutt voru út 128,5 tonn af þorskafurðum til Kína í janúar sem er tvöfalt meira magn en í sama mánuði í fyrra og virðist fást þokkalegt verð fyrir þorskafurðirnar í Kína því útflutningsverðmætið hefur aukist um 185% á sama tíma og nam það hundrað milljónum króna í janúar.

Aukning í magni

Allt síðasta ár nam útflutningur eldis- og sjávarafurða til Kína 42.238 tonnum sem er 3.573 tonna aukning frá árinu á undan. Skilaði útflutningurinn 17.754 milljónum króna árið 2023 á móti 18.033 milljónum árið 2022. Þannig jókst útflutningurinn að magni um rúm 9% en útflutningsverðmætið var 2% minna.

Bæði í fyrra og árið á undan var mest selt til Kína af loðnu, 18 þúsund tonn 2023 og 16.230 tonn 2022. Verð á loðnunni dróst þó saman milli ára um meira en 40% og skilaði loðna sem flutt var út til Kína 5.267 milljónum í útflutningsverðmæti í fyrra en 8.467 milljónum árið á undan. Engin loðna verður veidd á þessu ári og má því búast við að það hafi áhrif á útflutningstölur þessa árs.

Næstmest selda tegundin til Kína á síðasta ári var grálúðan og skilaði hún 5.375 milljónum króna í útflutningsverðmæti og voru flutt þangað tæp 6.596 tonn. Í magni er það 31% aukning frá árinu á undan en útflutningsverðmæti jókst um 29%. Á eftir fylgir makríllinn sem var næstmest selda tegundin árið 2022, skilaði 5.198 tonnum og 1.280 milljónum króna í útflutningsverðmæti á síðasta ári á móti 6.665 tonnum og 1.576 milljónum 2022.

Þreföldun í laxi

Mikill vöxtur varð í útflutningi á laxi til Kína milli áranna 2022 og 2023, heilt 241% í útflutningsverðmæti og 213% í magni. Alls voru flutt út rúmlega þúsund tonn af laxi árið 2023 og nam útflutningsverðmætið 1.783 milljónum króna.

Sérstaka athygli vekur í útflutningstölum Hagstofu Íslands verðhækkun á grásleppu, en útflutningsverðmæti á kíló sem selt var til Kína nam á síðasta ári 159,3 krónum á móti 83,5 krónum árið á undan. Skiluðu þannig rúmlega 708 tonn af grásleppu sem seld voru til Kína á síðasta ári tæplega 113 milljónum króna í útflutningsverðmæti.