Hjón „Þrátt fyrir að Priscilla sé byggð á raunverulegri manneskju er eins og sagan hafi verið skrifuð fyrir Sofiu Coppola,“ segir rýnir um nýjustu kvikmynd Coppola sem fjallar um Priscillu Beaulieu.
Hjón „Þrátt fyrir að Priscilla sé byggð á raunverulegri manneskju er eins og sagan hafi verið skrifuð fyrir Sofiu Coppola,“ segir rýnir um nýjustu kvikmynd Coppola sem fjallar um Priscillu Beaulieu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smárabíó og Bíó Paradís Priscilla ★★★★· Leikstjórn: Sofia Coppola. Handrit: Sofia Coppola. Aðalleikarar: Cailee Spaeny og Jacob Elordi. 2023. Bandaríkin. 113 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Kvikmyndir Sofiu Coppola búa yfir sterkum stíleinkennum sem gerir það að verkum að áhorfendur eru aldrei í vafa um hver sé höfundur verksins sem fyrir augu ber. Augljósasta efnislega einkenni Coppola er kvenleiki og hvernig kvenlíkaminn birtist. Kvenpersónum er stillt upp eins og dauðu kjöti. Dæmi um það er fyrsta skotið í Týnt í þýðingu (2003) en Coppola byrjar myndina á skoti af rassinum á Charlotte (Scarlett Johansson) í gegnsæjum nærbuxum. Priscilla, nýjasta mynd Sofiu Coppola, hefst á mjög svipuðu skoti nema í þetta sinn er sjónum beint að tánum á Priscillu. Strax í upphafi myndar bútar Coppola þannig aðalpersónuna í hluta og hlutgerir hana um leið, en flestar kvikmyndir hennar fjalla um hvernig er að vera kona í feðraveldi og Priscilla er þar ekki undanskilin.

Priscilla fylgir Priscillu Beaulieu (Cailee Spaeny) frá því að hún kynnist Elvis Presley (Jacob Elordi) í Þýskalandi þegar hún er aðeins 14 ára, en Presley er þegar orðinn fræg rokkstjarna, þangað til hún skilur við hann eftir sex ára skrautlegt hjónaband. Ólíkt myndinni Elvis (2022) eftir Baz Luhrmann, sem stillir Elvis Presley (Austin Butler) upp sem fórnarlambi tónlistariðnaðarins, er sjónum í staðinn beint að Priscillu og við kynnumst aðeins Elvis í gegnum hana, þ.e. hvernig hann kemur fram við hana. Raunverulegt umfjöllunarefni er því hvernig Priscilla neyðist til að sleppa því að lifa eigin lífi til að geta verið með Elvis. Í einu atriðinu segir Elvis meira að segja við Priscillu að hún verði að velja á milli sín og frama, en hún hafði hugsað sér að sækja um vinnu í lítilli búð. Hann bíður ekki eftir svari enda er hann búinn að ákveða fyrir hana þar sem hann telur sig eiga hana. Þetta verður greinilegt í atriði þar sem hún er að máta föt fyrir framan Elvis og félaga hans en hann lætur hana vita hvaða kjólar fara henni vel og aðeins þeir eru keyptir. Atriðið endar svo á því að hann segir henni að lita hárið á sér svart og mála sig meira og hún gegnir því. Enn og aftur sýnir Coppola hvernig líkama kvenna er stjórnað og hann eignaður feðraveldinu. Þetta er líka áberandi í Mariu Antoinette (2006) þar sem hún sýnir hvernig Maria hefur enga stjórn á líkama sínum, hún má ekki einu sinni klæða sig sjálf og neyðist til að afklæðast og standa löngum stundum nakin fyrir framan hóp af ókunnugu fólki. Að því leyti virðist líf Priscillu og Mariu ekki hafa verið svo ólíkt; þær gegndu sama hlutverkinu, þ.e. að vera þægar postulínsdúkkur. Vert er að nefna að í myndbandi á youtube-síðu framleiðslufyrirtækisins A24 greinir Priscilla sjálf senurnar í myndinni og útskýrir meðal annars fyrrnefnt atriði. Hún segist hafa notið þess að Elvis ákvæði hvernig hún liti út og fílað þessa stjórnsemi hjá honum.

Myndheildin er mjög mikilvæg og úthugsuð í kvikmyndum Coppola. Henni er ætlað að tjá tilfinningalegt ástand persónanna. Áhorfendur fá aðeins að kynnast þeim á yfirborðinu, þeir fá aldrei að sjá inn í hugarheim þeirra og samræðurnar sem þær eiga eru mjög yfirborðskenndar. Ef sjónum er beint að myndheildinni komast áhorfendur nær því að skilja líðan persónanna. Í einu atriði situr Priscilla til dæmis ein í stofunni í Graceland með hvíta púðluhundinn sinn og lætur sér leiðast. Hún er uppstríluð þrátt fyrir að vera heima hjá sér og lítur út fyrir að vera hluti af húsgögnunum, myndheildin gleypir Priscillu rétt eins og Elvis/feðraveldið gerir. Kjóllinn er orðinn þrengri og hárið og förðunin þyngri, sem endurspeglar líðan hennar, en út frá búningnum má ímynda sér að hún sé að kafna úr einmanaleika. Tökuvinkillinn getur hjálpað við að koma tilfinningaástandi persónunnar betur til skila en fyrrnefnda atriðið í stofunni er einmitt mjög vítt. Þannig nær Coppola að fanga allt rýmið og sýna hvernig Priscilla virkar eins og hvert annað húsgagn en líka hversu smá hún er í samanburði við rýmið, hún hlýtur að vera einmana.

Í myndum Coppola er oft eina gildi stúlkna meydómurinn og þegar þær missa hann eru þær orðnar óhreinar. Að því sögðu má segja að Coppola hafi einmitt verið rétti leikstjórinn til að segja sögu Priscillu, því að sögn Priscillu skipti það Elvis mjög miklu máli að eiginkona hans væri hrein mey. Elvis og Priscilla höfðu því ekki samfarir fyrr en eftir giftinguna. Brúðkaupsnóttin táknar eins konar sigur á líkama hennar en þetta er skýr gagnrýni frá Coppola og getur átt að tákna ofbeldi karla gegn konum. Priscilla er enn og aftur skilgreind út frá þörfum feðraveldisins en það er mjög skýrt í myndinni að Priscilla vill ekki bíða eftir giftingu til þess að stunda kynlíf.

Þrátt fyrir að Priscilla sé byggð á raunverulegri manneskju er eins og sagan hafi verið skrifuð fyrir Sofiu Coppola. Öll stíleinkenni hennar fá að njóta sín án þess að það bitni á myndinni þar sem þessi bleiki, stílfærði, póstfeminíski heimur er einfaldlega mjög viðeigandi. Í gegnum myndina tekst Coppola svo að gefa hinni frægu Priscillu Beaulieu rödd og tækifæri til að segja sína sögu og um leið sýna aðrar hliðar á Elvis Presley, en Coppola er ekkert að skafa utan af því hversu illa hann kom fram við sína litlu mey.