Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason.
Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason. — Ljósmynd/Sigurður Óli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldin hafa löngum látið hugann reika út frá myndum sem borið hefur fyrir augu þeirra. Þannig ortu norræn skáld skjaldarkvæði eftir að hafa fengið í hendur skildi sem „skrifaðir“ [þ.e

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Skáldin hafa löngum látið hugann reika út frá myndum sem borið hefur fyrir augu þeirra. Þannig ortu norræn skáld skjaldarkvæði eftir að hafa fengið í hendur skildi sem „skrifaðir“ [þ.e. myndskreyttir] voru fornsögum. Ef trúa má Snorra Sturlusyni orti Bragi gamli Ragnarsdrápu snemma á 9. öld, eftir myndum á skildi sem Ragnar konungur loðbrók gaf honum. Skjöldurinn er glataður, en nokkrar vísur og brot úr drápunni hafa varðveist; þar er brugðið upp „svipmyndum“ úr goðheimi, t.d. viðureign Þórs og Miðgarðsorms; en einnig af hetjum sem við þekkjum úr eddukvæðum, t.d. þeim ógæfusömu bræðrum og Gjúkungum, Hamdi og Sörla, sem hjuggu hendur og fætur af Jörmunreki Austgotakonungi (Hamdismál).

Sjálfur Egill Skallagrímsson orti tvö skjaldarkvæði út frá fornum sögum sem „skrifaðar“ voru á skildina. Þau eru að vísu bæði glötuð nema inngangserindi hvors kvæðis um sig. Hvaða „sögur“ skyldu hafa verið skráðar á þessa skildi? Kannski sögur sem sagnameistarar okkar skráðu 250 árum síðar og lifa enn þótt bæði skildir og skjaldarkvæði hafi glatast.

Töfrandi mynd barst vini mínum Sigurði Sigmundssyni frá Ásólfsskála undir Eyjafjöllum, fyrrverandi starfsmanni Landsvirkjunar. Ég gef honum orðið:

„Kæri vinur, hér kemur smá tilraun sem varðar fallega mynd sem Sigurður Óli vinur minn tók af því magnaða listaverki Sólfari. Þegar myndin barst mér tóku þessar „gráu“ að spinna bláþráð sem svipar til óráðshjals en ég sendi samt til vinarins hans Sigga Óla.

Það er svo sérstakt að Sólfarið er eitthvað sem venjubundin hugsun eða líking nær ekki til. Hefðbundin farartæki eru svo ólík, eru alls staðar og hluti af umhverfinu, maður sér þau ekki nema helst ef það eru bílar frá sjötta áratugnum, t.d. Chevrolet '57, en straumlína hans er bara hluti af gömlum veruleika.

Það er ekki hægt að skríða inn í Sólfarið og örugglega mjög sársaukafullt að sitja á hvössum vængjum þess; svo eina leiðin er að skipta um ham eins og fiðrildi sem skríður úr púpu. Ég kýs að fara þá leið að vera fiðrildi sem flögrar til himins á mjóum sólargeisla. Hugsa mér að Sólfarið hefji sig á loft og svermur af fiðrildum, ég og þú og allir hinir, með því. Þar hátt uppi í himinblámanum er svo stutt í aðra vídd; þar skiptir útlit hlutanna ekki lengur máli, Sólfarið og fiðrildin í geislaflóði, EFNIÐ HORFIÐ. Svo er bara að njóta þess að vera, lengi lengi.

Þetta með fiðrildið er einhver þráhyggja sem hreiðrað hefur um sig í hugskotinu, en á unglingsárum mínum komu stundum með sunnanvindinum litfögur fiðrildi í sveitina mína og opnuðu sýn inn í fjarskann. Þau birtust eins og ósýnilegu tjaldi hefði sveipað frá eitt andartak en lokast jafnharðan. Síðan þá er tjaldið þarna og hinum megin fiðrildin, fegurðin og litirnir: allt þetta sem við sjáum ekki en er samt. Jæja, nú er ég kominn yfir strikið; það sést ekki heldur, en er þarna samt.“