Kristján Finnsson fæddist í Eskiholti 6. mars 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 8. mars 2024.

Foreldrar hans voru Finnur Sveinsson, f. 1. október 1887, d. 12. nóvember 1982, og Jóhanna María Kristjánsdóttir, f. 7. október 1900, d. 5. júní 1976, bændur í Eskiholti. Kristján var næstelstur í sjö systkina hópi en hin eru Helga, f. 1930, d. 1978, Jóhanna Guðrún, f. 1934, Svava, f. 1937, Sveinn, f. 1938, d. 2022, Rósa Signý, f. 1941, og Ása Margrét, f. 1946.

Árið 1963 giftist Kristján eftirlifandi eiginkonu sinni Guðlaugu Valdísi Kristjánsdóttur frá Seljalandi í Hörðudal, f. 25. mars 1943. Foreldrar hennar voru Kristján Magnússon, f. 6. nóvember 1902, d. 30. maí 1988, og Þorbjörg Sigvaldadóttir, f. 25. mars 1910, d. 22. september 1981.

Börn þeirra Kristjáns og Guðlaugar eru: 1) Benedikt, f. 10. mars 1963, maki Stefanía Stefánsdóttir, börn þeirra eru Stefán, maki Malgorzata Maria Lisowska, og Hólmfríður. 2) Jóhanna María, f. 6. mars 1968. 3) Þorbjörg Valdís, f. 9. janúar 1971, maki Hlöðver Hlöðversson, barn þeirra er Guðlaug Esther. 4) Kristján Finnur, f. 14. maí 1974, maki Gunnur Björk Rögnvaldsdóttir, börn þeirra eru Þorbjörn Ottó, Kolfinna Dís og Kristján Bjarki.

Kristján og Guðlaug bjuggu alla sína búskapartíð í Laxholti, Borgarbyggð þar sem Kristján stundaði búskap fram til síðasta dags og naut þar aðstoðar fjölskyldu sinnar.

Útför fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 23. mars 2024, klukkan 14. Hægt verður að nálgast streymi frá útförinni á www.mbl.is/andlat/

Nú hefur elsku pabbi kvatt okkur. Stundin sem maður vissi að kæmi en langaði ekki að kæmi. Við vorum heppin, hann átti 92 dýrmæt ár og í fyrra héldu þau mamma upp á demantsbrúðkaupið sitt með fjölskyldunni. Pabbi var mikill fjölskyldumaður og hafði svo einlægan áhuga á öllu sem við vorum að gera hverju sinni. Það var alltaf gott að leita til pabba, að fá hans sýn á hlutina. Hann var lausnamiðaður og ekkert að flækja hlutina. Pabbi var hlýr og glaðlyndur maður með einstakan húmor, alltaf til í fjör en þó innan skynsemismarka, skynsemin var honum í blóð borin.

Pabbi og mamma bjuggu alla sína búskapartíð í Laxholti og þar gengu þau í takt. Pabbi kaupir jörðina 1959 og hefst þá strax vinna við að byggja heimili fyrir komandi fjölskyldu. Við systkinin eigum öll minningar um að grjóthreinsa ný tún undir styrkri verkstjórn pabba eða mjólka kýr, hjálpa kindum í sauðburði, koma hestum í form fyrir leitir eða heimasmalamennskur. Alveg til síðasta dags hafði hann sterka skoðun á hvernig gera ætti hlutina og það þykir okkur vænt um. Ekki má gleyma fjörinu í heyskapartíð þar sem alltaf var kapphlaup við veðrið, að missa ekki töðuna í vætu. Þá var horft til þess hvort hann væri ekki bjartur á Bauluna, það var ávísun á að þurrkur væri í vændum.

Það var ljúft að finna hversu vel hann treysti okkur alltaf í þeim verkum sem við tókum okkur fyrir hendur, þegar við gerðum mistök þá var alltaf viðkvæðið þú gerðir þitt besta, það er ekki hægt að ætlast til meira. Þessi setning fylgir okkur öllum út ævina. Bústörfin áttu hug hans allan og hann var alltaf að brasa, hvort heldur sem það var að vinna upp tún eða gera vélar klárar, hann var bíladellukarl. Oft mátti heyra hann raula fyrir munni sér þegar hann var á Rauðku gömlu að moka út úr haughúsinu, þá var hann í essinu sínu. Hann var trúr sinni heimabyggð og því fengum við ábendingar um að ef hlutirnir fengust ekki í kaupfélaginu þá þyrftum við ekki á þeim að halda.

Honum var umhugað um ræktun landsins og fannst sárt að sjá jarðir lenda í eyði. Hann hafði gaman af því að ferðast og eigum við skemmtilegar minningar af flandri um landið með þeim mömmu, oftar en ekki í rigningu því ekki mátti eyða þurrkdögum í vitleysu á heyannatíma. Þegar barnabörnin fóru að koma þá sóttu þau mikið í að fara til ömmu og afa, pabbi virkaði sem segull á þau með sínar stóru, sterku og hlýju hendur þar sem hann kenndi þeim „stígur hann/hún við stokkinn“ þegar þau voru að byrja ganga. Þau eiga eftir að sakna þess að heyra afa sinn segja jæja, því það þýddi að nú ætti eitthvað að fara gerast, setjast við veisluborð ömmu eða fara út og kíkja á kindurnar. Mikið sem við eigum öll eftir að sakna þess að heyra ekki röddina hans, lífsspekina, húmorinn, og símtalanna á kvöldin þar sem hann var bara að vita hvort ekki væri allt í lagi hjá okkur. Missir elsku mömmu er mikill en við lofum að taka vel utan um hana sem og hvert annað eins og pabbi hefði gert. Takk fyrir allt, minning þín lifir í hjörtum okkar. Hvíl í friði, elsku pabbi.

Benedikt, Jóhanna María, Þorbjörg Valdís, Kristján Finnur og fjölskyldur.

Kristján, hann Stjáni frændi, bróðir mömmu, var lærimeistari í mínu lífi. Hann var einstakur maður í öllu því sem við tengjum við það góða og gleðiríka. Hann var sonur Finns og Jóhönnu Maríu í Eskiholti. Þau lögðu góðar grunnstoðir í líf sjö barna sinna sem ég naut einnig ríkulega frá fyrstu tíð. Ég var spurður þriggja ára: „Valdi minn, hvað ert þú nú að gera í sveitinni?“ … „Ég bara hleyp.“ Ofvirknin og kátínan allsráðandi. Ég var því einstaklega heppinn að fá að vera í Laxholti öll sumur frá næiu til 15 ára. Ég naut öryggis og kærleika hjá Stjána og Gullu.

Stjáni byrjaði strax að beisla orkuna og ég var gerður að kúasmala. Ég naut fuglasöngs og litbrigða náttúrunnar frá vori til hausts. Maturinn góður og með kaffinu voru heimabakaðar Gullu-kökur. Stjáni var stöðugt að leiðbeina og kenna okkur kaupamönnunum. Í Laxholti var öllu vel við haldið, húsum og tækjum. Umhirða kinda og kúa var til fyrirmyndar. Hreinlæti í fyrirrúmi, allur skítur fór strax niður um grindur. Hænurnar voru frjálsar. Velferð dýranna var Stjána hjartans mál. Þegar hann sá að ein hænan bólgnaði mjög um afturendann og leið greinilega illa bað hann mig að grípa hana. Stjáni kom með litla öxi, ég hélt hænunni. Hauslaus hænan flaug og verpti um leið stóru góðu eggi.

Ég naut þess að fara oft á hestbak. Það var mikil sælustund þegar ég 10 ára fékk maríulaxinn í Gufuá og Stjáni vakti þar mína óslökkvandi veiðiástríðu. Það var eftirminnilegt þegar við Óli kaupamaður fórum að ná í kýrnar með silungastangir og veiddum 13 laxa í einum hyl. Óli fékk tvo laxa á einn öngul, annar vafði sig utan um girnið. Kýrnar máttu bíða. Þegar við vorum að burðast með laxana í strigapoka kom Stjáni til að athuga hvaða droll væri á okkur. Hann brosti líka og lagði laxana inn í kaupfélagið.

Stjáni hafði einstaka lund. Það var alltaf stutt í brosið, grín, glettni, smá stríðni: „Strákar, ætlið þið ekki að fara að horfa til stúlknanna á næsta bæ.“ Hann var forvitinn og fylgdist alltaf vel með. Hann hafði gaman af því að herma eftir kækjum og röddum nokkurra bænda. Í lífsreglum ömmu áttum við ekki að klaga heldur að segja það beint við þann sem þurfti að heyra. Stjáni var mjög líkur ömmu með sitt einstaka hjartalag og vildi öllum vel. Sá sjálfur vel um sitt og gerði það besta sem hægt var með ráðdeild og útsjónarsemi.

Frá Stjána og sex systkinum er kominn stór ættbogi. Í 30 ár voru haldin ógleymanleg Eskiholts-ættarmót sem viðhéldu góðum tengslum. Allir sungu frá hjartanu með sínu nefi. Stjáni hafði fallega rödd og var hrókur alls fagnaðar.

Þegar ég minnist nú míns kæra frænda og lærimeistara er margt að þakka. Ég finn hversu dýrmætt veganesti það var fyrir mig að hafa átt þessi dásamlegu sumur hjá Stjána og Gullu.

Blessuð sé minning Stjána og megi hans lífsafstaða lifa með afkomendum hans og okkur sem fengum að njóta nærveru hans. Innilegustu samúðarkveðjur til Gullu og fjölskyldunnar frá okkur Sigurborgu.

Þorvaldur Ingi Jónsson.