Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Akureyrar í dag, laugardag, kl. 15. Annars vegar er um að ræða sýningu Salóme Hollanders, sem ber yfirskriftina Engill og fluga, og hins vegar sýningu Heiðdísar Hólm, Vona að ég kveiki ekki í. Þá verður boðið upp á listamannaspjall við báðar listakonurnar kl. 15.45 í dag sem Freyja Reynisdóttir, verkefna- og sýningarstjóri, stýrir.
Salóme Hollanders lauk BA-námi við Listaháskóla Íslands í vöruhönnun vorið 2022. Salóme hefur tekið þátt í sýningum hérlendis og erlendis en sýningin Engill og fluga er fyrsta einkasýning hennar á opinberu listasafni. Heiðdís Hólm útskrifaðist af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2016 og er með PgDip í myndlist frá Glasgow School of Art 2020. Þetta er fyrsta einkasýning hennar í opinberu listasafni en hún hefur haldið og tekið þátt í ýmsum einka- og samsýningum og hátíðum á Íslandi og í Evrópu. Heiðdís er búsett á Seyðisfirði og starfar hjá LungA-skólanum.