Sigurbjörn Jóhann Karlsson fæddist á Smyrlabjörgum 29. júlí 1957. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn 13. mars 2024 eftir stutta baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans voru hjónin Karl Ágúst Bjarnason bóndi, f. 18. ágúst 1919, d. 2. apríl 2006, og Nanna Halldóra Jónsdóttir húsmóðir, f. 13. janúar 1923, d. 22. maí 2016.

Systkini hans eru Helgi Hilmar, f. 13.2. 1946, Jón Sigurgeir, f. 14.2. 1946, Guðni Gunnar, f. 6.5. 1947, Einar Bjarni, f. 3.6. 1949, Jóhanna Sigurborg, f. 20.4. 1956, d. 3.1. 1957, Ingibjörg, f. 31.1. 1961, og Haukur, f. 16.9. 1967.

Eftirlifandi eiginkona Sigurbjörns er Laufey Helgadóttir ljósmóðir og hótelstýra, f. 8. júní 1958. Foreldrar Laufeyjar voru Helgi Hálfdanarson vélsmiður, f. 30.1. 1928, d. 13.5. 2018, og Vilborg Einarsdóttir ljósmóðir, f. 1.9. 1932, d. 1.6. 2020.

Börn Laufeyjar og Sigurbjörns eru: 1) Birna Þrúður, f. 28.9. 1982, dóttir hennar Nanna Halldóra, f. 14.1. 2019. 2) Jóhanna Sigurborg, f. 5.2. 1984, eiginmaður hennar er Ásgeir Ingi Óskarsson, f. 9.7. 1983, dætur þeirra eru Helga Kristey, f. 11.9. 2006, og Laufey Ósk, f. 3.8. 2013. 3) Helgi Berg, f. 2.4. 1988, sambýliskona hans er Sigurbjörg Línberg Auðbjörnsdóttir, f. 4.9. 1989, börn þeirra eru Lilja Mist, f. 5.4. 2014, Jóhann Máni, f. 6.11. 2018, og Kristinn Arnar, f. 20.3. 2020. 4) Heiða Vilborg, f. 7.5. 1990, börn hennar eru Bryndís Björk, f. 13.4. 2011, og Sigurbjörn Ívar, f. 20.4. 2014. 5) Lúcía Jóna, f. 18.6. 1995, sambýlismaður hennar er Bergur Sigfússon, f. 27.6. 1994, börn þeirra eru Sigfús Karl, f. 31.1. 2017, og Guðný Lilja, f. 1.11. 2018.

Útförin fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 23. mars 2024, kl. 11.

Streymi á www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi.

Margir töluðu um að við værum lík en eitt hafði ég ekki frá þér en það var fljótfærnin. Þér fannst nú hugmyndirnar mínar ekki alltaf frábærar og fannst ég oft vera frekar fljótfær en þegar þú sást að ég var ekkert að fara að hægja á mér eða bíða með hlutina varst þú maðurinn sem studdi mig mest og alltaf var hægt að leita ráða hjá þér og þú varst hæstánægður með útkomuna hjá mér.

Þegar ég tók íbúðina mína í gegn fyrir nokkrum árum hefði ég ekki getað það án þín, þú hjálpaðir mér gríðarlega ásamt nokkrum öðrum en varst hér með mér og Elvari heilu dagana, langt fram á kvöld til að hjálpa mér að koma henni í stand svo ég gæti flutt inn fyrir jól.

Þú vildir nú aldrei hafa mig með í smalamennsku á yngri árum en svo gerðist það loksins að ég fékk að fara með þér og þá varð ekki aftur snúið, dalurinn varð að árlegri smölun með þér og margar helgar yfir veturinn sem við rúntuðum þangað inn eftir í von um að sjá nokkrar skjátur. Man ennþá fyrsta daginn sem ég fékk að fara með þér inn á dal, þar voru nokkrar rollur í mikilli hæð lengst inni í dal og sagðirðu mér að reyna að hlaupa upp fyrir þær sem gekk ekki, þær hlupu enn hærra og þegar ég kom niður frekar móð og súr á svip, glottirðu svakalega og sagðir: „Ég vissi að þetta myndi ekki virka, hefði sent hundinn á eftir þeim en ákvað að leyfa þér að spreyta þig í fyrstu smöluninni.“

Við drifum í því að mála útihúsin í fyrrasumar en náðum þó ekki alveg að klára. En okkur leiddist ekki á meðan við vorum að því, því okkur leiddist aldrei þegar við vorum að gera eittvað saman og þú með málningarsprautuna í höndunum eins og lítið barn og þig langaði að mála næstum allt sem á vegi þínum varð, eins og brúna og hornstaurinn. Sprautaðir yfir mig og sagðir mér að það væri mér að kenna að ég hefði staðið fyrir, sem var kannski vissulega rétt, vindáttin var ekki heppileg.

Þú þekktir allar rollurnar með nafni eða númerum, ruglaðist ekki á þeim eins og þegar þú kallaðir á börnin þín, ég gerði oft grín að þér að þú hefðir betur skírt okkur systkinin einhverjum númerum en ekki nöfnum þá værirðu ekki að ruglast þegar þú værir að kalla á okkur.

Í október sl. sagðirðu að þú myndir finna verkefni handa mér á nýju ári, þú fannst heldur betur stórt verkefni sem enginn var tilbúinn að fá í hendurnar, en með þinni jákvæðni, æðruleysi og þrautseigju fórum við í þetta verkefni sem hafði því miður betur. En í þessari sorg er ég einnig þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér seinustu vikurnar þínar hér heima hjá mér og krökkunum.

Þú gast verið jafn alvarlegur og mikill púki, þér leiddist ekki að hafa barnabörnin í kringum þig og varst mikill pabbi og afi. Elsku pabbi, höggið er stórt, jafnstórt og þú varst. Missirinn er gríðarlega mikill, þú fórst alltof snemma frá okkur en eins og einn frændi minn sagði þá spyr þessi krabbi ekki um kennitölu, stað né stund! En ég mun halda minningu þinni á lofti og mun minnast þín með þínu glotti á andliti þegar ég er að segja sögur af þér.

Heiða Vilborg.

Fyrir um það bil 35 árum vorum við hjónin á ferðalagi í Suðursveit. Fyrir tilstilli Boggu frænku Kristjáns, tengdamóður Bjössa, ákváðum við að koma við á Smyrlabjörgum og heilsa upp á Laufeyju og Bjössa, sem við annars þekktum ekki. Þar rákumst við strax á Bjössa þar sem hann kom brunandi á fjórhjólinu sínu sem hann notaði mikið alla tíð. Okkur var tekið opnum örmum frá fyrsta fundi og myndaðist mikil og góð vinátta á milli okkar samstundis, sem leiddi til óteljandi góðra samverustunda í gegnum árin, heima og að heiman. Vináttan og samverustundirnar náðu ekki aðeins til okkar fullorðna fólksins, heldur einnig til barna okkar og síðar tengdabarna og barnabarna sem öll eiga góðar minningar um heimsóknir á Smyrlabjörg, gestrisni og vináttu Laufeyjar og Bjössa. Veiðiferðirnar í Suðursveitina voru aðaltilhlökkunarefni fjölskyldunnar ár hvert. Alltaf var Bjössi til staðar, tilbúinn að aðstoða og taka þátt á allan mögulegan máta. Laufey og Bjössi voru mjög samhent hjón og byggðu upp sinn hótelrekstur af dugnaði og skynsemi. Bjössi var kletturinn, sá um uppbyggingu, viðhald og umsýslu á staðnum og ef tala þyrfti til óstýrilátra gesta var nóg að Bjössi sýndi sig, þessi stóri, myndarlegi og ljúfi maður, alltaf rólegur og yfirvegaður.

Það er erfitt að kveðja góðan vin sem kallaður er burtu frá okkur svo fyrirvaralítið í blóma lífsins. Bjössi greindist með krabbamein sem leiddi hann til dauða örfáum mánuðum seinna. Það er dýrmætt fyrir okkur stórfjölskylduna að hafa átt með Bjössa góðar stundir við veiðar og gleði á Smyrlabjörgum stuttu fyrir greininguna, enn ein minningarperlan um góðan mann. Við fjölskyldan kveðjum Bjössa með söknuði, þökk og virðingu og vottum þér, elsku Laufey, og fjölskyldu þinni samúð okkar, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Guðrún, Kristján
Þórðarson og fjölskylda.

Eigi veit ég hversu oft ég hefi komið að sumri til með ferðahópa í gistingu á Smyrlabjörgum í Suðursveit. Þar hefur ætíð verði tekið vel á móti ferðafólki þar sem því er veitt afburðagóð þjónusta bæði gisting og viðurgerningur kvölds og morgna.

Fyrstu árin í öndverðu var gist í gamla bænum og í dálitlum matsal þar á jarðhæðinni var oft þröngt en samt þægilegt í nálægð þessa góða og viðkunnanlega fólks. Smám saman jukust umsvifin og gistiherbergjunum fjölgaði að nú er svo komið að líklega er ferðaþjónustan að Smyrlabjörgum með þeim allra stærstu sem tengjast Ferðaþjónustu bænda.

Alltaf var gaman að hitta húsráðendur þau Laufeyju og Bjössa eins og Sigurbjörn var ætíð nefndur meðal kunnugra. Minnisstæðar voru ferðirnar á vegum Bændaferða þar sem ég var í um fjórðung aldar leiðsögumaður þýskumælandi ferðafólks um Ísland. Meðan Samvinnuferðir störfuðu var ég mjög oft á ferðinni með ferðahópa ásamt Þorsteini Jónssyni ökumanni sem starfaði lengi hjá Bílaleigunni Aka. Einn af allra bestu hópferðabílum landsins voru í eigu þess fyrirtækis. Þessar ferðir voru skipulagðar þannig að fjallabíll kom frá Höfn í Hornafirði og ferjaði okkur í kvöldverð upp í Jökulsel við rætur Vatnajökuls. Það var mikil upplifun fyrir ferðafólkið. Á meðan ég var með ferðafólkinu spjölluðu þeir Bjössi og Þorsteinn saman klukkustundum saman enda var vinátta þeirra mikil og góð. Bjössi greindi frá fyrirætlunum sínum og áformum og á næstu árum urðu Smyrlabjörg að sannkölluðu stórveldi í íslenskri ferðaþjónustu. Nú eru þessir heiðursmenn báðir látnir og mikil eftirsjá að þeim báðum.

Ferðaþjónustubændur hafa ætíð reynst mér vel. Það hafa alltaf verið góðar móttökur, gisting og allur viðurgerningur eins og best verður á kosið á öllum þessum gististöðum. Húsráðendur á Smyrlabjörgum eru engin undandtekning, meira að segja einstakir. Einhvern veginn hefur mér alltaf þótt mikið til Smyrlabjarga koma sökum þess hve viðtökur voru alltaf einstaklega góðar og einlægar. Einhverju sinni langaði mig til að endurgjalda húsráðendum þó í litlu væri góða þjónustu, hringdi frá Austurlandi þar sem við vorum í heimsókn hjá skógræktarstöðinni Barra sem þá var á Egilsstöðum og innti þau Laufeyju og Bjössa eftir hvort ég mætti koma með nokkrar trjáplöntur. Auðvitað var því tekið fegins hendi og mætti ég ásamt hópnum með tvo bakka af sitkagreni. Var þessum plöntum komið fyrir í móður jörð með aðstoð þýskra, áhugasamra ferðamanna rétt vestan við heimreiðina að Smyrlabjörgum fyrir um aldarfjórðungi. Það var mikill hugur sem fylgdi enda eiga Þjóðverjar einhverja þá mestu skóga í heimalandi sínu innan allrar Evrópu. Þeim þótti miður að sjá hversu fátækt er mikil hvað skóga varðar á Íslandi enda ekki slíku vanir.

Með þessum fátæklegu minningum langar mig til að minnast Sigurbjarnar með tilhlýðilegri virðingu og þökkum. Vil ég senda Laufeyju, börnunum sem og öðrum niðjum, vinum og vandamönnum mínar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall heimilisföðurins.

Guðjón Jensson, Mosfellsbæ.

Nú þegar við fylgjum okkar áskæra Bjössa á Smyrlabjörgum síðasta spölinn langar okkur til að minnast hans með nokkrum orðum.

Bjössi var yndislegur maður, skemmtilegur og traustur félagi og vinur. Frábær bóndi og umfram allt mikill fjölskyldumaður, fimm barna faðir og margfaldur afi.

Það er mikið högg fyrir okkur sem eftir lifum að horfa á eftir manni eins og Bjössa sem okkur finnst að hafi átt svo mikið ógert í lífinu. En það var samt margt sem hann afrekaði á ævinni, Bjössi og Laufey byggðu upp bændagistingu alveg frá grunni, sem í dag er orðið stórt og vel rekið hótel.

Það þurfti áræði og kraft til þess að koma þessu öllu upp og það var enginn skortur á því hjá þeim hjónum. Bjössi var stór og sterkur maður og gekk öflugur til allra verka hvort sem var í byggingarvinnu eða bústörfum. Hann var líka með eindæmum hjálpsamur, alltaf til í að hjálpa til þar sem það þurfti.

Þau hjónin stunduðu jafnframt búskap með ferðaþjónustunni sem gekk þannig að eftir var tekið og þótti ekki merkilegt þótt ær væru að minnsta kosti þrílembdar.

Alltaf var gott að koma á Smyrlabjörg og eigum við hjónin og börnin okkar margar góðar minningar frá þeim samverustundum.

Það er ekki laust við að manni sárni við almættið þegar góður vinur eins og Bjössi er hrifinn frá okkur svo snöggt. Við munum sakna þín kæri vinur.

Ofarlega í minningabankanum er 28. desember 1986 þegar haldið var tvöfalt brúðkaup á Hafnarbrautinni, sameiginlegur brúðkaupsdagur okkar.

Sorgin er mikil en eftir sitja góðar minningar um góðan dreng. Við þökkum Bjössa samfylgdina öll árin sem við fengum að njóta með honum.

Góða ferð kæri vinur.

Elsku Laufey, Birna Þrúður, Jóhanna Sigurborg, Helgi Berg, Heiða Vilborg, Lúcía Jóna og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Guðný og Hákon.

Fallinn er frá góður félagi Sigurbjörn Jóhann Karlsson sem lést hinn 13. mars síðastliðinn og við fylgjum til hinstu hvílu í dag.

Sigurbjörn eða Bjössi á Smyrlabjörgum eins og hann var alltaf kallaður var virkur félagi í Lionsklúbbi Hornafjarðar um áratugaskeið. Bjössi var félagslyndur og ötull félagi, tók þátt í starfinu, sinnti öllum trúnaðarstörfum klúbbsins og sumum oftar en einu sinni. Hann átti gott með að fá menn með sér og ná því besta fram hjá félögunum.

Bjössi var greiðvikinn og hjálpsamur, hann lét sig aldrei vanta til starfa með klúbbnum þótt vegalengdin frá Smyrlabjörgum til Hafnar sé smá spotti, alltaf var hann mættur með sína léttu lund og góðu nærveru, sama hvert verkefnið var og gekk í öll störf jákvæður og traustur.

Bjössi og Laufey kona hans voru dugleg við að bjóða Lionsfélögum að koma og halda veislur sínar og fundi á Smyrlabjörgum hjá þeim, þar var oft glatt í góðra vina hópi, stundir sem ber að þakka og minnast með hlýhug.

Ekki hefði okkur dottið í hug að skemmtiferð okkar Lionsfélaga til Riga í nóvember síðastliðnum yrði okkar síðasta ferð með Bjössa, þar sem við áttum góðar stundir, sagðar sögur og mikið hlegið. Við kveðjum Bjössa núna með virðingu og hlýhug, hans verður sárt saknað.

Við vottum Laufeyju, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og systkinum okkar dýpstu samúð.

Lionsklúbbur Hornafjarðar,

Ingólfur Guðni Einarsson.

Með skyndilegu og ótímabæru fráfalli Bjössa á Smyrlabjörgum er fallinn alltof snemma einn af öflugustu og glæsilegustu bændum á Íslandi. Með örfáum orðum vil ég minnast þessa öðlings.

Fyrstu kynni mín af honum voru fyrir hartnær fimm áratugum, haustið 1977, þegar við Stefán Aðalsteinsson heimsóttum Suðursveit til fjárkaupa fyrir ræktunarkjarna sem við vildum stofna á Skriðuklaustri til að rækta frjósamast fé á Íslandi. Ég taldi, vegna upplýsinga frá frændum mínum á Hala og lestri á skýrslum fjárræktarfélagsins sem geymdar voru hjá BÍ, að þarna væri eitthvað sérstakt að finna. Þarna hitti ég í fyrsta skipti fjárræktarsnillinga sveitarinnar þar sem fremstir fóru í flokki Smyrlabjargabændur og Ragnar í Gamlagarði. Bjössi var þá aðeins á unglingsaldri en stóð þarna manna fremstur um þekkingu á fénu og vakti strax athygli okkar fyrir hve gríðarlega fjárglöggur hann var.

Heimsóknirnar að Smyrlabjörgum hafa orðið fjölmargar síðan og móttökur ávallt konunglegar.

Skammt varð stórra högga á milli í frábæru ræktunarstarfi í sveitinni. Með upplýsingum úr einstöku fjárbókhaldi á Smyrlabjörgum, sem Bjössi var þrátt fyrir ungan aldur farinn að annast, fundum við Stefán stórvirkan erfðavísi sem skýrði ofurfrjósemina hjá sumu fé í sveitinni. Genið kom frá Þoku þar á bæ, sem fæðst hafði 1950, og öðlaðist strax heimsfrægð. Genið var mikið rannsakað, sérstaklega í Bretlandi, þar sem kom upp stofn af fé út af sæðingahrútum frá Smyrlabjörgum. Því miður hafa bændur hér á landi aldrei nýtt sér kosti gensins til að auka hagkvæmni framleiðslunnar sem skyldi.

Ungu bændurnir í sveitinni með Bjössa fremstan í flokki náðu einstökum árangri á örskömmum tíma í fjárræktarstarfinu og sóttum við frábæra hrúta fyrir sæðingastöðvarnar bæði í Lækjarhús og Smyrlabjörg, sem ollu byltingu í ræktunarstarfinu í landinu.

Fyrst og fremst mun ég samt minnast Sigurbjörns sem einhvers dugmesta og framtakssamasta bónda landsins. Ásamt samheldinni fjölskyldu sinni byggði hann á skömmum tíma upp eina glæsilegustu ferðaþjónustu í landinu.

Bjössi var glæsimenni sem sópaði að. Hávaxinn og kröftugur maður, einstaklega glaðvær og skemmtilegur og einstakur samstarfsmaður. Hann miðlaði mér miklu af einstakri þekkingu og reynslu úr hinum glæsilega rekstri þeirra hjóna, bæði fjárbúskap og ferðaþjónustu, sem aldrei verður fullþakkað.

Það er óskiljanlegt að svona öflugur maður sé skyndilega horfinn í blóma lífsins. Mestur er missir fjölskyldu hans. Hún mun samt ylja sér við minningarnar um þennan ógleymanlega dreng.

Að lokum færi ég aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Sérstaklega dvelur hugur minn hjá Laufeyju og glæsilegum barnahópi hennar og Sigurbjörns.

Jón Viðar Jónmundsson.

Við sem vinnum í ferðamennsku þekkjum vel aðdráttarafl sveitanna undir Vatnajökli. Fjalla- og jöklafegurðin er engu lík, böðuð norðurljósum á vetrum en sólargeislum að sumri. Óvíða er sólarupprás fegurri en við austurhorn landsins. Að vakna á hótelinu á Smyrlabjörgum hefur verið gæfa okkar um árabil þar sem við höfum sótt til gistingar á glæsilegu hóteli með þúsundir ferðamanna í hverjum mánuði fyrir ferðaþjónustufyrirtækið Nicetravel og ekki laust við að maður finni sig orðið heimakominn á Smyrlabjörgum. En það er ekki bara náttúran, heldur er það líka fólkið sem á þar stærstan þátt.

Hjálpsemi og hæverska eru kostir sem prýtt hafa Smyrlabjargarfólkið sem nú sér á eftir elskuðum fjölskylduföður og framtaksmanni, Sigurbirni Karlssyni, sem fleiri kannast við sem Bjössa á Smyrlabjörgum, en hann var fimmti ættliður bænda á bænum.

Framsýni Bjössa og Laufeyjar konu hans endurspeglast ekki síst í glæsilegu hóteli sem þau hófu byggingu á fyrir hartnær 35 árum. Þau eru fá hótelin á Íslandi sem standa fegurra en hótelið á Smyrlabjörgum. Áður en brúað var yfir sandana var ferðalag þangað ekki undir 1100 kílómetrum. Máttu því bændur vera nægju- og framtakssamir en ekki síst útsjónarsamir. Á Smyrlabjörgum hefur verið gestkvæmt í gegnum árin og því kannski legið beint við að hefja rekstur gistihúss. Sístækkandi rekstur og umfang sýnir stórhug. Okkur hefur þótt með eindæmum hversu létt þessi umfangsmikli rekstur hefur leikið í höndum Bjössa og fjölskyldu. Þá ber tugur starfsmanna sem ár eftir ár heilsar okkur, skýr merki um góðan aðbúnað fólksins sem gengur glatt til verka sinna. Aldrei hefur það þó verið svo að Bjössi hafi ekki átt stund til að setjast niður með okkur leiðsögumönnum í lok ferðar þegar búið er að koma ferðafólkinu í ró.

Bjössi var glaðvær og síbrosandi. Hann fylgdist vel með, var upplýstur um allt það sem var að gerast og hafði eiginleika til að stýra spjalli til jákvæðra umfjöllunarefna, gjarnan með kankvísum svip og oft var ekki laust við stríðnisglampa í augum hans. Hann var lífsglaður maður. Við höfum stundum gantast með að Gulli, einn okkar leiðsögumanna, hafi í raun verið í sveit á Smyrlabjörgum undanfarin ár, enda orðinn hálfgerður heimagangur á bænum sem vaknar fyrir allar aldir til að renna fyrir fiski í Smyrlabjargaránni, drekkur svo morgunkaffið með heimilisfólkinu áður en hann heldur til baka með sinn hóp til Reykjavíkur.

Á mannsævinni eru flestir dagar hvunndags og líða hjá í gleymsku. En minningar okkar geyma gleðistundir og eftirminnileg atvik þar sem gott og skemmtilegt fólk kemur við sögu. Þannig var Bjössi einn þeirra. Fregnir af veikindum Bjössa komu okkur á óvart, enda var atlagan snörp og heiftarleg. Þrátt fyrir hreysti Bjössa mátti hann sín lítils og tókst hann á við örlög sín af miklu æðruleysi og styrk. Bjössi er horfinn af þessu sviði, en engum gleymdur. Með viðhorfi sínu til lífsins sáði hann fræi sem ræktað verður í afkomendum hans um ókomna tíð. Sjálfur er hann horfinn til þeirrar moldar sem ól hann.

Fyrir hönd starfsmanna NICETRAVEL,

Tryggvi Þór Ágústsson.