Sigurður T. Garðarsson
Sigurður T. Garðarsson
Eins og lagaákvæðið er orðað verður hér um hækkun skatts að ræða

Sigurður T. Garðarsson

Ef lagabreyting um tekjuskatt eftirlauna- og lífeyrisþega verður látin standa um næstu áramót mun tekjuskattur þessa hóps reiknast af tekjuskattsstofni án persónuafsláttar, í stað þess að vera reiknaður að teknu tilliti til persónuafsláttar.

Tekjuskattur eftirlauna- og lífeyrisþega með takmarkaða skattskyldu var til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, þ. á m. um 11. gr. í bandormi fjármálaráðherra, sl. haust. Frumvarpið snerist um ýmsar breytingar í skattamálum og var samþykkt við gerð fjárlaga á síðustu dögum haustþings.

Samkvæmt umfjöllun Brynjólfs Þórs Guðmundssonar á vef RÚV 17. febrúar sl. leitaði nefndin umsagnar 93 aðila (m.a. sveitarfélaga, endurskoðunarfyrirtækja, stéttarfélaga og samtaka fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum). Grátbroslegt er að við undirbúning málsins var að sögn Brynjólfs ekki leitað til neins félags eldri borgara.

Illa ígrunduð lagasetning og framkvæmdir stjórnvalda er álit sem margir hafa um embættisfærslur stofnana og vinnubrögð Alþingis. Nýleg dæmi eru leigubílstjóraprófið hjá Samgöngustofu og tilkynning Tryggingastofnunar um afnám persónuafsláttar ellilífeyrisþega að fyrirmælum skattsins, sem fylgdist ekki betur með en svo að lagabreyting, sem var frestað til næstu áramóta, var send út til framfylgdar nú í ársbyrjun.

Allt bendir til að umrædd breyting á afnámi persónuafsláttar til eftirlauna- og lífeyrisþega verði nýtt klúður. Eins og lagaákvæðið er orðað verður hér um hækkun skatts að ræða, sem mun nema um 800 þúsund krónum á hvern ellilífeyrisþega á næsta ári. Tryggingastofnun greiddi jafnan rúmlega 40 þúsund manns ellilífeyri árið 2023. Það verða ekki minna en 32 milljarðar í skattahækkun á hópinn árið 2025.

Tvær tilvísanir í eftirfarandi lagatexta sýna ljóslega við hvaða aðila er átt, er umrædd breyting á 70. gr. laga um tekjuskatt (nr. 90/2003) tekur gildi um næstu áramót.

3. mgr. 2. tölul. mun orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. án persónuafsláttar.

Skoðum hvað 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. segir:

„Allir menn sem njóta frá íslenskum aðilum, eða föstum starfsstöðvum hér á landi, launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna skulu greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Ekki skiptir máli hvar starfsemin fer fram.“

Og síðan hvað 1.-3. tölul. 1. mgr. 66. gr. segir:

„Tekjuskattur þeirra manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga þessara og hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið, skal reiknast af tekjuskattsstofni þeirra skv. 1. og 3. tölul. 61. gr.“

Löggjafinn hefur í reynd ekki undanskilið neinn með lagaákvæðinu, heldur er um að ræða alla íslenska heimilisfasta eftirlauna- og lífeyrisþega. Það er kjarni málsins. Allt tal um að skattahækkunin hafi óveruleg fjárhagsáhrif og eigi aðeins við um ellilífeyrisþega sem eru búsettir erlendis virðist yfirvarp frumvarpshöfunda í fjármálaráðuneytinu og er út í hött. Í raun fara skatturinn, Tryggingastofnun og lífeyrissjóðir, ef svo ber við, á svig við lögin taki þau ekki persónuafsláttinn af öllum eftirlauna- og lífeyrisþegum landsins. Áhugavert væri að fá ályktun frá héraðs- eða landsréttardómara um niðurstöðu lagasmíðinnar.

Höfundur er á eftirlaunaaldri.

Höf.: Sigurður T. Garðarsson