Kaffi Kjós Vinsæll áningastaður ferðamanna sem leggja leið sína í Kjósina.
Kaffi Kjós Vinsæll áningastaður ferðamanna sem leggja leið sína í Kjósina. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Byggðastofnun hefur tekið ákvörðun um breytingu á póstnúmeraskrá þannig að póstnúmerið 276 verði eftirleiðis ritað ,„276 Kjós“ í stað ,„276 Mosfellsbær“. Byggðastofnun var falin umsjón póstmála í landinu með lögum árið 2021

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Byggðastofnun hefur tekið ákvörðun um breytingu á póstnúmeraskrá þannig að póstnúmerið 276 verði eftirleiðis ritað ,„276 Kjós“ í stað ,„276 Mosfellsbær“. Byggðastofnun var falin umsjón póstmála í landinu með lögum árið 2021.

Á heimasíðu Kjósarhrepps er þessum málalokum fagnað undir fyrirsögninni „Til hamingju Kjósverjar.“ Það sé óhætt að segja að máltækið dropinn holar steininn eigi við í þessari löngu baráttu.

Beiðni Kjósarhrepps um breytingu á póstnúmeraskrá barst Byggðastofnun í mars 2023 með tölvuskeyti. Rök Kjósarhrepps voru þau að heiti póstnúmersins væri að valda misskilningi og yrði til þess að alls kyns sendingar kæmust ekki til skila til viðtakenda í Kjósinni.

Fram kemur í ákvörðun Byggðastofnunar að beiðni Kjósarhrepps hafi verið send til umsagnar alþjónustuveitanda, Íslandspósts ohf. Umsögn Íslandspósts barst Byggðastofnun í apríl 2023 og var send áfram til sveitarstjóra Kjósarhrepps.

Íslandspóstur lagðist gegn breytingunni á þeim grunni að hún gæti valdið vandkvæðum við dreifingu póstsendinga sem engin hefði verið fyrir. Auk þess sem vísað var til sjónarmiða um stöðugleika og þeirrar staðreyndar að ekki væri skilyrði um það í lögum að póstnúmer og landfræðileg þekja þeirra fylgdi sveitarfélagamörkum.

Hinn 25. nóvember 2023 barst Byggðastofnun tölvuskeyti frá Kjósarhreppi þar sem umsögn og rökum Íslandspóts var andmælt.

Með tölvuskeyti dags. 15. mars 2024 tilkynnti Íslandspóstur Byggðastofnun að eftir frekari skoðun innanhúss þá væri niðurstaðan sú að fyrirtækið, sem alþjónustuveitandi póstþjónustu, gerði ekki athugasemdir við breytingu á póstnúmeraskrá þannig að póstnúmerið 276 héti eftirleiðis „276 Kjós“ í stað „276 Mosfellsbær“.

Í ljósi breyttrar afstöðu Íslandspósts telur Byggðastofnun að breyting á heiti póstnúmersins 276 sé ekki til þess fallin að valda vandkvæðum við dreifingu póstsendinga á svæðinu eins og málið er vaxið og telur því rétt að verða við beiðni Kjósarhrepps. Breytingin tekur gildi þegar í stað.

Einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberir aðilar geta gert kröfu um að póstnúmerum eða landfræðilegri þekju póstnúmera sé breytt og Byggðastofnun fjallar um nauðsynlegar breytingar á póstnúmeraskrá nokkrum sinnum á ári, segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson