Loftárásir Hér má sjá eld og reyk stíga frá Dnípró-virkjuninni eftir árásina.
Loftárásir Hér má sjá eld og reyk stíga frá Dnípró-virkjuninni eftir árásina. — AFP/Forsætisráðuneyti Úkraínu
Rússar gerðu eina af stærstu loftárásum Úkraínustríðsins til þessa í gærmorgun, en þá skutu þeir tæplega 90 eldflaugum og sendu rúmlega 60 sjálfseyðingardróna til árása í Úkraínu. Beindist árás Rússa einkum og sér í lagi að orkuinnviðum Úkraínu, og…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar gerðu eina af stærstu loftárásum Úkraínustríðsins til þessa í gærmorgun, en þá skutu þeir tæplega 90 eldflaugum og sendu rúmlega 60 sjálfseyðingardróna til árása í Úkraínu.

Beindist árás Rússa einkum og sér í lagi að orkuinnviðum Úkraínu, og olli hún umtalsverðum skemmdum á stærstu vatnsaflsvirkjun landsins.

Júrí Belúsov, yfirmaður stríðsglæpadeildar ríkissaksóknara Úkraínu, sagði að átta eldflaugar hefðu hæft Dnípró-vatnsaflsvirkjunina, sem er í Saporísja-héraði. Sagði Belúsov að virkjunin væri í reynd óstarfhæf vegna árásarinnar.

Orkumálaráðuneyti Úkraínu sagði í gær að ástandið við virkjunina væri „undir stjórn“, og að ekki væri hætta á að stífla hennar myndi bresta. Þrír féllu í árásinni á virkjunina.

Orkumálastofnun Úkraínu, Ukrenerho, sagði að þetta væri mesta árás Rússa á orkunet landsins til þessa, og að fjöldi raforkustöðva hefði skemmst.

Nokkuð var um rafmagnsleysi eftir árásirnar, og var áætlað að minnst 1,5 milljónir manna í átta af héruðum Úkraínu hefðu verið án rafmagns í gær vegna árásanna.

Herman Halúsjtsjenkó, orkumálaráðherra Úkraínu, sagði að markmið Rússa væri ekki bara að valda skemmdum, heldur einnig að reyna að kollvarpa orkukerfi landsins.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti skoraði í gær á Vesturveldin að senda meiri hernaðaraðstoð til Úkraínu. Hann sagði að ákvarðanafælni Vesturlanda væri farin að kosta líf í Úkraínu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson