Mikið skortir enn á víða um heim að konur njóti réttinda til jafns við karlmenn og hér sjást konur í Kúveit mómæla réttleysi sínu.
Mikið skortir enn á víða um heim að konur njóti réttinda til jafns við karlmenn og hér sjást konur í Kúveit mómæla réttleysi sínu. — AFP/Gustavo Ferrari
Af sumu getum við alls ekki gefið afslátt og við eigum ekki að vera hikandi við að ræða erfiðu málin

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Með reglulegu millibili berast okkur boð um að ákveðið orð sem talið hefur verið gott og gilt sé ekki lengur æskilegt og nota beri annað orð í þess stað. Þessum boðum eða tilskipunum er yfirleitt tekið án mótmæla enda er nóg af samviskusömum sálum í þessu landi sem þykir sjálfsagt og fremur þægilegt að taka við tilskipunum að ofan án þess að spyrja spurninga eða efast.

Nýleg tilskipun snýr að hinu góða orði aðlögun. Í stað þess skal koma stofnanaorðið inngilding, sem er þegar byrjað að nota af miklum móð til dæmis í fjölmiðlum. Margir stjórnmálamenn sem telja sig fylgja frjálslyndum öflum og stimpla sig sem afar víðsýna og umburðarlynda byrja svo að nota orðið algjörlega sjálfkrafa, enda er merkilega lítið um sjálfstæða hugsun í þeirra kolli. Þeir leiðrétta svo samviskusamlega illa meðvitaða kollega sína sem nota gamla orðið eins og ekkert sé.

Alla ævina erum við að aðlagast hinu og þessu. Í leikskólum fara nokkrir dagar í aðlögun þar sem börn kynnast nýju umhverfi. Seinna þurfum við að aðlagast vinnustað því ef við ætlum að bíða eftir því að vinnustaðurinn aðlagist okkur þá verður sú bið endalaus. Þegar við förum í ókunn lönd leggjum við upp úr því að kynna okkur hvaða reglur og lög gilda þar því annars gætum við lent í vandræðum. Við aðlögumst í stuttan tíma. Það sama á vitanlega við um þá ferðamenn sem hingað koma. Hér gilda hugsanlega aðrar reglur en í heimalandi þeirra og þeir verða að taka tillit til þess og aðlagast.

Innflytjendur verða að aðlagast íslenskum siðum í allmiklum mæli ætli þeir að lifa í lengri tíma í sátt í nýja landinu. Auðvitað eiga þeir ekki að gleyma uppruna sínum og meira en sjálfsagt er að þeir haldi í siði sem tíðkast í heimalandi þeirra, rétt eins og Íslendingar búsettir erlendis gera. Auðvitað er æskilegast að innflytjendur leggi sig fram við að læra málið en um leið þarf að sýna þeim skilning því íslenska er gríðarlega flókið tungumál sem erfitt er að ná tökum á. Kröfur um íslenskukunnáttu verða að taka mið af því og vera hóflegar en ekki frekjulegar. Við mættum alveg hafa í huga hversu illa okkur Íslendingum hefur til dæmis gengið að tala dönsku á sómasamlegan hátt þótt við höfum lært hana í skóla.

Ekki er svo hægt að ætlast til að innflytjendur kasti trú sinni sé hún önnur en kristni og það á að gera þeim kleift að iðka hana. Við eigum að virða trú annarra rétt eins og við viljum að trú okkar sé virt. Samt er það svo að af einhverjum ástæðum virðist stór hluti Íslendinga á þeirri skoðun að íslam sé trúarbrögð sem rétt sé að líta hornauga og horfa jafnvel til múslima sem hugsanlegra hryðjuverkamanna. Það er sannarlega engum til sóma að hugsa á þann hátt.

Af sumu getum við alls ekki gefið afslátt og við eigum ekki að vera hikandi við að ræða erfiðu málin. Við getum til dæmis alls ekki gefið eftir þegar kemur að réttindum kvenna. Hluti innflytjenda hér á landi kemur frá löndum þar sem kvenréttindi eru sannarlega ekki í hávegum höfð og ungir karlmenn alast upp við það viðhorf að þær séu annars flokks þjóðfélagsþegnar. Það er ekki á nokkurn hátt í boði fyrir okkur að aðlagast því viðhorfi eða sýna því umburðarlyndi. Nákvæmlega hið sama á við um viðhorf til þeirra sem skilgreina sig ekki sem gagnkynhneigða. Þeir verða að eiga sinn tilverurétt.

Vitaskuld er það svo þannig að manneskjur þurfa ekki að vera útlendingar til að fyrirlíta konur og minnihlutahópa. Slík viðhorf grassera alls staðar, í öllum löndum, sannarlega líka hjá Íslendingum. Við erum hins vegar svo lánsöm að skilgreina okkur sem víðsýna og umburðarlynda þjóð og lög landsins endurspegla það í miklum mæli. Þetta verða allir að virða, bæði Íslendingar og innflytjendur, og aðlagast þessum reglum. Þeir sem það gera ekki skapa vandamál sem taka verður á.

Við eigum ekki að aðlagast fjandsamlegum viðhorfum. Aðlögun á nefnilega stundum einungis við á annan veginn. Það felst hvorki fasismi né rasismi í því.

Aðlögun er gott orð sem á enn að vera til í tali okkar og hugsunum.