Wroclaw í Póllandi. Þaðan á ég góðar minningar. Þangað liggur leiðin um helgina, frá Búdapest, eftir hinn magnaða sigur á Ísrael í fyrrakvöld. Nú er íslenska liðið bara einum leik frá EM en hindrunin er stór: Firnasterkt lið Úkraínu sem meðal annars …

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Wroclaw í Póllandi. Þaðan á ég góðar minningar.

Þangað liggur leiðin um helgina, frá Búdapest, eftir hinn magnaða sigur á Ísrael í fyrrakvöld.

Nú er íslenska liðið bara einum leik frá EM en hindrunin er stór: Firnasterkt lið Úkraínu sem meðal annars er með átta öfluga leikmenn úr sterkustu deildum Evrópu.

Ég var í Wroclaw vorið 2008. Þá freistaði karlalandsliðið í handbolta þess að komast á Ólympíuleikana í Peking.

Riðillinn var firnasterkur, Pólland og Svíþjóð, ásamt Argentínu, og tvö lið kæmust til Peking.

Úrslitaleikurinn var gegn Svíum. Þar gleymi ég aldrei framgöngu Sigfúsar Sigurðssonar í vörn Íslands.

Einn besti handboltamaður heims, Kim Andersson, var svo logandi hræddur við Fúsa eftir að hafa einu sinni lent í hrömmunum á honum að hann reyndi ekki einu sinni að skjóta á markið eftir það.

Ísland vann, fór til Peking, og árangurinn þar er í sögubókunum.

Nú reynir karlalandsliðið í fótbolta að sigrast á ofurefli í Wroclaw. Ég sá eldmóðinn í augum margra leikmanna í Búdapest í fyrrakvöld.

Guðlaugur Victor minnti mig sérstaklega á Fúsa. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að það átti enginn mótherji að fara framhjá honum. Félagar hans voru samstiga í þeim ásetningi.

Wroclaw: Skyldi annar íslenskur draumur verða þar að veruleika á þriðjudagskvöldið þegar Ísland mætir Úkraínu?