Guðni Ólafsson VE var öflugasta línuskipið á Norður-Atlantshafi. Skipið var sérsmíðað fyrir túnfiskveiðar.
Guðni Ólafsson VE var öflugasta línuskipið á Norður-Atlantshafi. Skipið var sérsmíðað fyrir túnfiskveiðar. — Morgunblaðið/Sigurgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin útgerð hefur lagt í túnfiskveiðar á undanförnum fimm árum og hefur komið í ljós að lagabreyting sem var gerð til að heimila íslenskum útgerðum að taka á leigu sérhæfð skip fyrir slíkar veiðar stangast á við alþjóðaskuldbindingar Íslands

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Engin útgerð hefur lagt í túnfiskveiðar á undanförnum fimm árum og hefur komið í ljós að lagabreyting sem var gerð til að heimila íslenskum útgerðum að taka á leigu sérhæfð skip fyrir slíkar veiðar stangast á við alþjóðaskuldbindingar Íslands.

Guðjón segir liggja augum uppi að stjórnvöld verði að styðja við mögulegar veiðar á bláuggatúnfiski ef einhver eigi að þora að fjárfesta í skipi og búnaði sem þarf til að stunda veiðarnar, ekki síst heimila veiðar á öðrum tegundum út fyrir 200 mílur.

„Þetta verða að vera skip með getu til djúpfrystingar til að þetta sé hægt. Það verður líka að vera hægt að gera eitthvað annað með þetta skip til að hafa næg verkefni,“ segir hann og bendir á að túnfiskveiðar séu aðeins stundaðar hluta af ári.

Matvælaráðuneytið sagði nýverið í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að „stjórnvöld hafa hvatt samtök fyrirtækja í sjávarútvegi til að beita sér fyrir því að útgerðir nýti þessar veiðiheimildir, en þörf er á sérhæfðu skipi til þess með mikla frystigetu. Ekki verður þó um ríkisstyrki að ræða í þeim efnum.“

Guðjón segir ekki endilega þörf á beinum ríkisstyrkjum en telur þurfa að skoða afslætti á sköttum og opinberum gjöldum og/eða tryggja að hægt verði að sækja á aðrar tegundir sem henta línuskipum sem hönnuð eru fyrir úthafsveiðar. „Það verður að hjálpa til, þetta gerist ekki öðruvísi. Það þarf að fá einhverja plúsa til að þetta gangi upp. Það eru mikil verðmæti í þessu fyrir þjóðarbúið ef maður nær þessum kvóta.“

Hefur hann áhyggjur af því að tilkall Íslendinga til hlutdeildar í veiðunum kunni að hverfa. „Ef við veiðum þetta ekki missum við þetta. Það er bara þannig.“

Öflugasta línuskipið á Norður-Atlantshafi

Reynslu Guðjóns af túnfiskútgerð má rekja til félagsins Ístúns hf. sem stofnað var 1999 í þeim tilgangi að láta smíða sérhannað skip fyrir túnfisk- og línuveiðar á úthafinu. „Þetta var mikil fjárfesting að láta smíða skip bara fyrir þetta með þessari frystigetu. Það voru stórir fjárfestar með okkur í þessu. Við virkilega reyndum þetta,“ rifjar Guðjón upp.

Meðal fjárfesta voru Burðarás hf., Sjóvá-Almennar hf., Skeljungur hf., Þróunarfélag Íslands hf., Hekla hf., Radíómiðun hf. og Friðrik A. Jónsson ehf.

Guðjón hafði frumkvæði að verkefninu ásamt félaga sínum Guðna Ólafssyni skipstjóra sem átti hugmyndina að smíðinni, en Guðni lést á meðan skipið var í smíðum.

Þegar hafist var handa að undirbúa smíði skipsins var lítill vafi um að mikil tækifæri fólust í túnfiskveiðum enda hafa Japanir sent skip 9.000 mílur að sækja aflann með tilheyrandi tilkostnaði. „Við vorum búnir að fylgjast með þeim og vildum reyna þetta,“ útskýrir Guðjón.

Í febrúar 2002 gátu fjárfestar og Vestmanneyingar fagnað komu sérsmíðaða línuskipsins Guðna Ólafssonar VE-606. Um var að ræða eitt stærsta og öflugasta línuskip á Norður-Atlantshafi. „Þetta var hörkuskip.“

Guðni Ólafsson var þriggja þilfara línu-, neta- og túnfiskveiðiskip með tvær frystilestar undir aðalþilfari. Aftari lestin var frystilest fyrir túnfisk og kælir niður í -55°C. Skipið var 51,2 metrar á lengd, 12,2 metrar að breidd, dýpt af efra þilfari var 8,1 metri og var skipið 1.508 brúttótonn. Klefar voru fyrir 24 menn, auk sjúkraklefa og skrifstofu fyrir starfsmann Hafrannsóknastofnunar sem boðið var að vera með. Aðalvél skipsin var af gerðinni Caterpillar.

Skipið var smíðað í skipasmíðastöðinni Huangpu Guangzhou í Kína en hannað hjá Verkfræðistofunni Feng ehf., í samvinnu við Sigmar Sveinsson skipstjóra og Hallgrím Rögnvaldsson, sem einnig önnuðust eftirlit með smíðinni í Kína.

Ákváðu að selja

„Við fengum Japani um borð til okkar að kenna okkur á veiðarnar. Þeir voru alveg til í að hjálpa okkur. Mikið var lagt í sölurnar að reyna að veiða þennan túnfisk og við veiddum nokkra fiska, en það var lítil veiði fyrsta árið og veiddu Japanir lítið líka,“ segir Guðjón.

Eftir fyrsta árið var orðið ljóst að það þyrfti að fara út fyrir 200 mílurnar til að hámarka árangur veiðanna og geta sótt í fleiri tegundir. Hann segir stjórnvöld hafa sterklega gefið í skyn að til stæði að standa með útgerðinni og tryggja slík leyfi. „En það var aldrei neitt gert.“

Þegar ljóst varð að ekki væri grundvöllur til að halda áfram þessari útgerð hér á landi var ákveðið að reyna að finna verkefni fyrir skipið. „Við leigðum skipið fyrst til Nýja-Sjálands því við ætluðum ekki að fara á hausinn með þetta, en svo voru þeir svo ánægðir með þetta að þeir vildu kaupa það enda frábært skip.“

Mikið í húfi

Guðjón telur mikla fjármuni í húfi. „Þegar við vorum í þessu kom fyrir að við fengum mjög gott verð fyrir fiskinn, en ég veit ekki hvernig staðan er í dag.“ Ljóst sé þó að enn sé mikil verðmæti að hafa úr túnfiskveiðum enda eru ennþá fleiri hundruð japönsk skip að sækja á Norður-Atlantshaf til að veiða bláuggatúnfiskinn.

Hann bendir á að Sveinn Rúnar Valgeirsson og Sævar Brynjólfsson í Vestmannaeyjum gerðu einnig tilraun til túnfiskveiða. Þeir sendu línuskipið Byr VE til Póllands þar sem gerðar voru miklar breytingar á skipinu til að uppfylla kröfur til skipa sem sinna veiðum af þessum toga. Gátu þeir hafið veiðar veturinn 1999 og stunduðu túnfiskveiðar einnig árið 2000. Vísir hf. í Grindavík lét einnig reyna á túnfiskveiðar árin 2014 til 2016. „En þeir gáfust upp enda ekki með nógu góð tæki í þetta. Við vorum með alveg ný tæki,“ segir Guðjón.

Spurður hvers vegna reynist erfitt að fá útgerðir til að láta á þetta reyna á ný svarar Guðjón: „Það er kannski bara þessi reynsla þessara útgerða sem veldur því að enginn þorir í þetta.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson