Guðný Steinsdóttir fæddist 23. mars 1938. Hún lést 6. júlí 2023.

Útför Guðnýjar fór fram í kyrrþey.

Að lifa er að elska,

og sá sem einhver elskar getur aldrei dáið.

(Gunnar Dal)

Elsku hjartans Gunný systir mín.

Þennan dag átt þú og er mér kær og áttum við góð símtöl á þessum degi seinni árin. Nú verða símtölin ekki fleiri, en í staðinn hripa ég þér nokkrar línur. Alveg er ég viss um að þú hefur hent í eina hjónabandssælu og fleira góðgæti í Sumarlandinu með hópi af góðum vinum og ættingjum. Því varla var maður kominn inn úr dyrunum þegar slíkar veislur voru komnar fyrir framan mann, eins og hendi væri veifað. Þú varst lík sjálfri þér þegar þú spurðir hjúkrunarkonurnar á Sjúkrahúsinu „hvort þær ættu ekki eitthvað gott með kaffinu“ handa mér í þau skipti sem ég heimsótti þig þangað. Sönn húsmóðir varstu af Guðs náð og ekki voru óhreinindi að stoppa í þinni návist, allt skyldi hreint og fínt, bar heimili ykkar Rikka þess glöggt vitni með stóra barnahópinn ykkar.

Þú varst mér fyrirmynd í svo mörgu, við vorum í sama stjörnumerkinu og ég fann svo margt líkt í þér.

Það þarf fólk eins og þig, fyrir fólk eins og mig.

Og hvert sem þú ferð og hvar sem ég er

þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.

(Rúnar Júl.)

Eftir að ég flutti austur höfum við sjaldnar sést, en notuðum þá símann óspart og magnað hvað við gátum talað. En það var gaman að fylgjast þannig með barnahópnum ykkar stækka og hvað þú varst glöð og lést mig alltaf vita þegar bættist við barnabörnin ykkar. En nú verða símtölin ekki fleiri þar til minn tími kemur.

Áttum svo dásamlega fallegan dag er við fylgdum þér síðasta spölinn 6. júlí síðastliðinn, með öllum dásamlega barnahópnum ykkar, og Eyjan skartaði sinni fegurð.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðm.)

Takk fyrir allt elsku systir mín, þú ert og verður ljós í hjarta mínu og minningu.

Þrúðmar Sigurður Þrúðmarsson og
Ingibjörg Ævarr
Steinsdóttir.