Halla Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 11. janúar 1938. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 12. mars 2024.

Foreldrar Höllu voru hjónin Bjarni Ragnar Jónsson, forstjóri í Reykjavík, frá Dýrafirði, f. 7. september 1905, d. 5. nóvember 1996, og Kristrún Haraldsdóttir húsfreyja, f. 19. febrúar 1904 í Reykjavík, d. 3. maí 1986.

Systir Höllu var Valgerður, f. 29. maí 1934, d. 15. janúar 2019.

Eiginmaður Höllu var Bragi Þorsteinsson, f. 3. júlí 1935, d. 12. september 2018. Þau gengu í hjúskap 28. nóvember 1959 í Dómkirkjunni í Reykjavík. Foreldrar Braga voru hjónin Þorsteinn Sigurðsson, bóndi á Vatnsleysu og formaður Búnaðarfélags Íslands, f. 2. desember 1893, d. 11. október 1974, og Ágústa Jónsdóttir húsfreyja frá Gröf í Bitrufirði, f. 28. ágúst 1900, d. 25. september 1986.

Börn Braga og Höllu eru: 1) Ingunn Birna, f. 1959. 2) Ragnheiður, f. 1963, gift Eymundi Sigurðssyni, f. 1962. Þeirra börn eru Bragi Steinn, f. 1994, Sigurður, f. 1996, og Halla, f. 2001. 3) Þorsteinn Ágúst, f. 1967, d. 1996. 4) Kristrún, f. 1976, gift Birni Davíð Þorsteinssyni, f. 1971. Þeirra börn eru Katrín Ingunn, f. 1998, sambýlismaður Ísak Arnar Kolbeins, f. 1996, og Þorsteinn, f. 2002, d. 2011.

Halla ólst upp í miðbæ Reykjavíkur en foreldrar hennar bjuggu öll hennar bernskuár á Grettisgötu 47a, í húsi sem móðurafi Höllu byggði. Öll sumur dvaldi fjölskyldan í sumarhúsi sínu við Meðalfellsvatn í Kjós sem var þeirra unaðsreitur alla tíð. Þegar Halla var fimmtán ára fluttist fjölskyldan að Drápuhlíð 40 þar sem foreldrar hennar bjuggu til æviloka.

Halla lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar og stundaði síðan nám í Námsflokkum Reykjavíkur í ensku, bókhaldi o.fl. Hún fór síðar í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Á sumrum og eftir að námi lauk vann Halla ýmis skrifstofu- og verslunarstörf í Reykjavík.

Vorið 1960 hófu Halla og Bragi búskap á Vatnsleysu, fyrst í félagi með foreldrum Braga en tóku síðar alfarið við búinu. Halla var um árabil í skólanefnd Biskupstungnahrepps og síðar einnig í barnaverndarnefnd. Eitt kjörtímabil sat hún í hreppsnefnd. Hún tók að öðru leyti virkan þátt í félagsstörfum í sveitinni, svo sem í leiklistarstarfi á vegum Ungmennafélags Biskupstungna og kom ötullega að starfi kvenfélagsins en hún var formaður þess um tíma. Þá hafði hún umsjón með bókasafni sveitarinnar um árabil. Þau Halla og Bragi tóku þátt í stofnun Skálholtskórsins á vígsluári kirkjunnar 1963 og sungu lengi í kórnum. Loks var Halla félagi í Oddfellowreglunni á Selfossi.

Á áttunda áratugnum stóð Halla ásamt fleiri konum fyrir veitingasölu í Aratungu þar sem tekið var á móti hópum erlendra ferðamanna áður en eiginleg ferðaþjónusta hófst í sveitinni.

Útför Höllu fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 23. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það er viðeigandi að Halla tengdamóðir mín, sem féll frá fyrir skömmu eftir stutt veikindi, skuli jarðsungin frá Skálholtskirkju í dag, en kirkjan og Skálholtsstaður voru henni afar hjartfólgin. Hún var hafsjór af fróðleik um íslenska sögu og menningu og þar á meðal um fornminjar ýmiss konar en hún hafði mikinn áhuga á öllu sem viðkom fornleifum og uppgreftri þeirra. Þar kom Skálholtsstaður sterkt inn enda var verið að grafa þar allt upp og rannsaka um það leyti sem hún flutti í Biskupstungur árið 1960. Þau hjón tóku virkan þátt í undirbúningi að vígslu kirkjunnar á árinu 1963 og létu skíra dóttur sína við vígsluathöfnina. Var henni að sjálfsögðu gefið nafnið Ragnheiður í minningu nöfnu sinnar í Skálholti. Við athöfnina frumflutti Skálholtskórinn nýtt lag Þorkels Sigurbjörnssonar við sálm Kolbeins Tumasonar „Heyr himna smiður“. Þeim hjónum, Höllu og Braga, sem voru bæði í kórnum, var þetta mjög minnisstætt enda fylgdist tónskáldið stundum með æfingum og útsetning kórstjórans þótti auk þess framúrskarandi, enda komst lagið á flug á heimsvísu síðar.

Halla var að mörgu leyti frumkvöðull, ákveðin og fylgin sér. Hún hafði áhuga á mörgu og lét í sér heyra og varð þess vegna í fararbroddi við margskonar félagsstarfsemi í sveitinni. Þá var hún eitt kjörtímabil í sveitarstjórn. Hún var jafnréttissinni og þegar Vigdís forseti bauð sig fram til forseta varð hún eindreginn stuðningsmaður hennar og tók að sér að vinna henni fylgi í héraðinu. Þegar á leið ævina og eftir nokkur áföll sem hún varð fyrir í lífinu dró hún sig svolítið út úr skarkala lífsins en sinnti þeim mun meira áhugamálum sínum, bóklestri og garðyrkju. Þá áttu barnabörnin og barnahópurinn á Vatnsleysutorfunni óskipta athygli hennar. Henni þótt vænt um að vera heiðruð af Ungmennafélagi Biskupstungna fyrir vel unnin störf en hún var gerð að heiðursfélaga þess fyrir nokkrum árum.

Ég kom inn í fjölskylduna tvítugur að aldri og fékk góðar móttökur hjá þeim Höllu og Braga. Ég hitti Höllu fyrst á vordögum 1982, þá nýorðinn kærasti Ragnheiðar. Hafði Halla komið á Laugarvatn að sækja dóttur sína sem var á leið heim í helgarfrí. Eitthvað þótti henni dapurt að skilja karlinn eftir og spurði hvort ég vildi ekki bara koma með líka? Hún sagði oft hlæjandi frá því að sést hefði undir iljarnar á mér þar sem ég hljóp inn til að sækja farangurinn, sem reyndist þó ekki meira en einn tannbursti og tvær til þrjár bækur. Frá fyrsta degi fann ég fyrir væntumþykju og vinskap sem væri ég þeirra eigin sonur og þannig hefur það verið í 42 ár. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þennan langa samferðatíma með þeirri góðu konu Höllu Bjarnadóttur. Megi hún hvíla í friði.

Eymundur Sigurðsson.

Hennar beið örlagaþrungin ákvörðun ungu konunnar sem ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík á árunum kringum 1960. Átti hún að láta hjartað ráða og fylgja unga bóndasyninum og gerast bóndakona austur í Tungum? Þessi unga kona var Halla, þá verðandi mágkona mín, sem við kveðjum í dag. Kynslóðaskipti voru óumflýjanleg innan nokkurra ára. Vonir foreldra okkar og systkina voru þær að Bragi tæki við búinu en það þurfti tvo til. Halla var lykillinn að því að svo skipaðist, hún ákvað að stökkva út í óvissuna og fylgja bróður okkar. Upphafsárin voru örugglega erfið en ég held að Halla hafi aldrei litið til baka. Það gefur augaleið að tvær kynslóðir sem urðu að vinna saman voru ekki alltaf á sömu blaðsíðunni en Halla var góðum gáfum gædd og sambúðin við eldri kynslóðina fann sinn farveg. Kynslóðaskipti með þeim hætti sem þarna áttu sér stað væru óhugsandi í dag. Ég var unglingurinn á heimilinu þessi árin og að vissu leyti var hún minn leiðbeinandi á ýmsan hátt. Að leiðarlokum við ég þakka henni samfylgdina og vináttuna. Ég vil einnig þakka henni mikla umhyggju fyrir móður okkar systkina þegar heilsu hennar hrakaði á efri árum. Ást og umhyggja Höllu létti henni lífið. Halla var í eðli sínu félagslynd og þau Bragi eignuðust trausta vini í samfélaginu í Tungunum. Þar skal ekki gleymast að þau bæði gerðu garðinn frægan með Leikdeild Ungmennafélagsins þar sem þau léku saman í öflugu starfi. Halla lék burðarhlutverk í nokkrum uppfærslum leikdeildarinnar. Lénharður fógeti var fyrsta uppfærsla í nýju félagsheimili Aratungu eftir vígslu og þar lék Halla aðalkvenhlutverkið. Á eftir fylgdu hlutverk í Leynimel 13, Markólfi og Er á meðan er, svo nokkrar sýningar séu nefndar. Halla var útnefnd heiðursfélagi Ungmennafélagsins fyrir framlag sitt til leikdeildarinnar. Sú mynd sem blasir við vegfarendum um fjölfarinn þjóðveginn af reisulegum húsakosti á Vatnsleysutorfunni er til vitnis um góða samvinnu ábúenda og frændsemi. Vatnsleysubæirnir ásamt Heiði sem Sigurður bróðir okkar byggði upp vitna um mikla snyrtimennsku. Halla var þarna góður liðsmaður, hún bjó fjölskyldunni fallegt heimili og margra stunda naut hún hvert sumar við að gera garðinn að unaðsreit. Réttardagurinn var allt að því helgidagur á Vatnsleysu. Meðan Bragi lifði lögðu þau hjón mikla áherslu á að vinir og fjölskylda kæmu saman og syngju við orgelið ásamt því að njóta kjötsúpunnar sem fram var borin. Gamla fótstigna orgelið fékk vel fyrir ferðina þennan dag. Bragi átti hauka í horni þar sem voru ekki minni menn en dómorganistar í Skálholti sem spiluðu. Allt hefur samt sinn tíma. Orgelið er ekki stigið meira á réttardaginn en sagan gæti endurtekið sig. Það sem einu sinni var gerist einhvern tímann aftur. Hvernig sagan hefði orðið ef Halla hefði ekki látið hjartað ráða veit enginn, en hún tók rétta ákvörðun. Fyrir lífsstarfið á föðurleifðinni á Vatnsleysu og samfélagið í Tungunum vil ég heilshugar þakka. Blessuð sé minning Höllu. Við hjónin sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Viðar Þorsteinsson.

Ég sá hana fyrst á hlaðinu heima um sólstöðurnar 1960. Halla var með manni sínum, Braga Þorsteinssyni frá Vatnsleysu, komin að sunnan í stórum hópi Dýrfirðinga, sem þá heimsótti æskustöðvarnar undir fararstjórn föður hennar, Bjarna Ragnars Jónssonar. Hann hafði ungur átt margar stundir við störf og leiki með jafnöldrum sínum og frændfólki heima á Kirkjubóli. Sá vinskapur hélst á meðan öll lifðu. Til urðu margar glaðar samverustundir aldraðs fólks sem átti saman æskudaga við Dýrafjörð. Vináttu og ræktarsemi föður síns við Kirkjubólsheimilið erfði og iðkaði Halla. Ætíð spurði hún frétta þaðan og fylgdist með frændfólkinu. Kynni okkar efldust þegar börn hennar tvö, Þorsteinn og Ingunn Birna, dvöldu við nám hér á Hvanneyri. Þorsteinn, sá góði drengur, kvaddi í blóma lífsins við sáran harm allra er hann þekktu. Ingunn Birna bjó móður sinni verðugt skjól og góðar stundir allt til síðustu daga. Ég minnist þess hve gott var að heimsækja þau heiðurshjón, Höllu og Braga, að Vatnsleysu. Hjá þeim ríkti gróinn höfðingsbragur og Bragi hlustaði kíminn og þolinmóður á upprifjanir okkar Höllu á sögu og sögnum af horfnum frændgarði vestur í Dýrafirði.

Nú hefur Halla frænka mín kvatt. Þessar fáu línur eiga að færa þakklæti fyrir liðin kynni og fyrir trygga vináttu hennar við okkur, frændfólkið á og frá Kirkjubóli. Um leið sendum við stórfjölskyldunni frá Vatnsleysu og öllum þeim, sem áttu Höllu Bjarnadóttur að, innilega samúðarkveðju.

Bjarni Guðmundsson.

Sumarið 1999 rigndi þó nokkuð mikið á Íslandi. Eða þannig er það allavega í minningunni. Þetta sumar hjóluðum við Jesper um Ísland á fjallahjólum. Tjaldið okkar var ekki hannað neitt sérstaklega vel fyrir íslenska veðráttu og eftir úrhellisrigningu á öðrum degi ferðalagsins stóðum við á tjaldstæðinu við Laugarvatn með algjörlega gegnblautan farangur. Frá Laugarvatni var förinni heitið að Vatnsleysu að heilsa upp á Braga, Höllu og Ingu. Hér var okkur tekið opnum örmum, rennblautir svefnpokarnir hengdir til þerris í hlýjum og þurrum kjallaranum og okkur ekki leyft að halda áfram fyrr en allur farangurinn var orðinn skraufþurr. Ég man ekki hvað gistinæturnar urðu margar en ég man hinsvegar vel hvað það var gott að fá að vera á Vatnsleysu og finna fyrir gestrisninni þar enn og aftur. Það var lán okkar í fjölskyldunni að eignast heila aukafjölskyldu þegar Eymundur og Ragnheiður rugluðu reytum sínum saman. Þá var ég átta ára gömul og man ég því ekki eftir að hafa farið nokkurn tímann um Biskupstungurnar án þess að koma við á Vatnsleysu.

Stundum er sagt að fólk muni ekki endilega hvað sagt er heldur frekar hvernig því líður í návist annarra. Halla á Vatnsleysu hafði þann dýrmæta eiginleika að geta látið öllum í kringum sig líða eins og þeir skiptu máli – allir voru „set, hørt og forstået“ eins og Danirnir myndu segja. Hjá Höllu var hvorki litið fram hjá neinum né gert lítið úr neinum. Gott dæmi um nærveru Höllu er að hún talaði alltaf dönsku við Jesper þegar við hittumst því hún vildi vera viss um hann fyndi að hann væri velkominn. Og danskan hennar Höllu var afbragðsgóð þrátt fyrir að hún hefði aldrei búið í Danmörku. Ef ég man rétt þá sagðist hún viðhalda henni með því að lesa „dönsku blöðin“. Halla hafði einlægan áhuga á fólkinu í kringum sig sem og samfélagsmálum öllum og var því alltaf gaman og fróðlegt að spjalla við hana.

Halla var væn við alla kringum sig, ekki bara við fólk heldur líka við allar skepnur og plöntur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að dvelja nokkrar vikur að sumarlagi á Vatnsleysu 11 eða 12 ára gömul og á ég margar góðar minningar frá því sumri þar sem við Kristrún brölluðum eitt og annað. Ein af þeim minningum sem skína skært er garðurinn hennar Höllu. Að koma frá norðangarranum á Blönduósi þar sem aðeins gallharðasta áhugafólk um garðyrkju gat haldið lífi í blómstrandi blómum, og sjá svo og fá að njóta blómanna í garði Höllu, var ævintýri líkast. Hér mátti svo sannarlega tala um foldarskart.

Missirinn að Höllu á Vatnsleysu er mikill. Þessi smávaxna kona snerti marga á lífsleiðinni með sinni sterku nærveru, stóra hjarta og breiða faðmi. Hennar verður sárt saknað.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Ingu, Ragnheiðar, Kristrúnar og fjölskyldna.

Hanna Birna
Sigurðardóttir.

Það fækkar nú í hópi eldri ábúanda á Vatnsleysu í Biskupstungum, Halla Bjarnadóttir húsfreyja í austurbænum er látin og standa þá eftir Sigurður og Jóna í vesturbænum.

Halla var gift Braga Þorsteinssyni og hófu þau búskap í austurbænum og stunduðu hann allt til dauðadags.

Það hefur alla tíð verið mikill kærleikur og samgangur á milli bæjanna, ungir jafnt sem gamlir í leik og bústörfum, svo ekki sé talað um réttardaginn. Þá var farið á milli bæjanna og sungið og spilað á orgel eins og enginn væri morgundagurinn, þetta voru gleðistundir sem gott er nú að ylja sér við.

Halla og Bragi voru alla tíð mjög samhent hjón og miklir höfðingjar heim

að sækja. Halla var harðdugleg og fyrir utan hin venjulegu störf við heimili og bú sinnti hún hinum ýmsum verkefnum í sveitinni, var í kvenfélaginu, skólanefnd og sat í hreppsnefnd. Þá söng hún með Skálholtskórnum, m.a. við vígslu Skálholtskirkju en þá var frumflutt lagið Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson undir stjórn Róberts A. Ottóssonar. Hún tók einnig þátt í mörgum leiksýningum á vegum Ungmennafélags Biskupstungna við góðan orðstír. Höllu leið vel í garðinum sínum og var augljóst að hún hafði græna fingur, enda garðurinn líkastur lystigarði. Eftir að Bragi lést hefur Halla búið á Vatnsleysu í skjóli Ingu Birnu dóttur sinnar.

Elsku Halla, nú ert þú komin í blómabrekkuna þína og við kveðjum þig með söknuði og þökkum fyrir öll árin. Blessuð sé minning Höllu á Vatnsleysu. Elsku Inga Birna, Ragnheiður, Kristrún og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur frá okkur.

Sigurður, Jóna, María og Þóra Katrín (Þóra Kata).

Við fjölskyldan fluttum í Tungurnar á fardögum 1983. Þá strax fundum við fyrir mikilli velvild margra sveitunga til okkar, ekki síst frá Höllu og Braga á Vatnsleysu. Vinátta þeirra var og er okkur mjög mikils virði.

Í mörg ár komu þau til okkar á aðfangadag í kaffi eftir að hafa vitjað ættingja í kirkjugarðinum. Það var notalegt upphaf jólahalds hér á Torfastöðum.

Við heyrðum sögur af Höllu og Braga í leikritum sem UMFB setti upp áður en við fluttum í sveitina. Halla oftast í aðalhlutverki.

Ef eitthvað bjátaði á var Halla fyrst til að hafa samband og sýna samhygð.

Þegar Þorsteinn dó báðu þau okkur að fá aðstoð við líkflutning í bílnum okkar. Það var auðsótt mál og líka svo fallegt að fá þessa beiðni frá þeim.

Halla og Bragi voru ein af höfðingjum sveitarinnar og höfðingjar heim að sækja. Réttarsúpan var annáluð og var enginn maður með mönnum nema koma til þeirra á réttardaginn.

Það var dágóður hópur sem tók sig saman og ákvað að breyta kosningum til sveitarstjórnar með því að bjóða fram lista árið 1986. Það kallaði á listakosningu hjá öllum sem töldu sig eiga erindi í sveitarstjórn og höfðu áhuga á málefnum sveitarfélagsins.

Undirrituð var ákafur jafnréttissinni og vildi gera konum hærra undir höfði í sveitarstjórn. Halla var því hvött til að gefa kost á sér og náði kjöri í hreppsnefnd Biskupstungna árið 1986-1990. Halla gaf ekki kost á sér aftur. Hún átti bágt með að þola það ef umtal varð neikvætt og því miður er neikvætt umtal og gagnrýni hluti af því að vinna að framförum í samfélögum. Á árum áður var gagnrýni meira í hávegum höfð en hrós.

Við þökkum vináttu Höllu og Braga. Hún hefur gefið okkur mikið.

Sendum Ingunni Birnu, Ragnheiði, Kristrúnu og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

F.h. Torfastaðafjölskyldunnar,

Drífa Kristjánsdóttir.