Gervigreind og gervihnattamyndir geta varpað ljósi á áhrif mannsins á vistkerfi hafsins.
Gervigreind og gervihnattamyndir geta varpað ljósi á áhrif mannsins á vistkerfi hafsins. — Kort/Global Fishing Watch
Mannkynið treystir í sífellt auknum mæli á hafið fyrir matvæli, orkuframleiðslu og alþjóðaviðskipti en þó eru athafnir manna á sjó ekki vel kortlagðar,“ segir í greininni „Gervihnattakortlagning sýnir mikla iðnaðarstarfsemi á sjó“ (e

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Mannkynið treystir í sífellt auknum mæli á hafið fyrir matvæli, orkuframleiðslu og alþjóðaviðskipti en þó eru athafnir manna á sjó ekki vel kortlagðar,“ segir í greininni „Gervihnattakortlagning sýnir mikla iðnaðarstarfsemi á sjó“ (e. Satellite mapping reveals extensive industrial activity at sea) sem birt var í vísindatímaritinu Nature í janúar.

„Við sameinum gervihnattamyndir, GPS-gögn skipa og djúpnámslíkön til að kortleggja starfsemi atvinnuskipa og orkumannvirki á hafi úti á strandsvæðum heimsins frá 2017 til 2021. Við komumst að því að 72-76% af fiskiskipum heimsins eru ekki rakin opinberlega, mikið af þessum veiðum fer fram í kringum Suður-Asíu, Suðaustur-Asíu og Afríku. Við sjáum einnig að 21-30% af flutningaskipum er ekki að finna í opinberum rakningarkerfum,“ skrifa höfundar greinarinnar.

Fram kemur að fiskveiðar hafi dregist saman um 12% á heimsvísu þegar kórónuveirufaraldurinn skall á árið 2020 og hafði ekki náð fyrri styrk við árslok 2021. Á sama tíma urðu flutningaskip ekki fyrir sambærilegum áhrifum faraldursins.

Samhliða því að rekja skipaferðir eru gögnin einnig nýtt til að kortleggja uppbyggingu innviða til hafs. „Orkuframleiðsla til hafs vex hratt, flestar vindmyllur eru bundnar við lítil svæði í hafinu en eru umfram fjölda olíumannvirkja árið 2021. Kortið okkar af iðnvæðingu sjávar sýnir breytingar á einhverjum umfangsmestu og efnahagslega mikilvægustu athöfnum mannsins á sjó.“

Ör vöxtur í hafsækinni starfsemi

Rannsókninni var stýrt af samtökunum Global Fishing Watch sem voru stofnuð 2015 og hafa sem markmið að safna gögnum um nýtingu og innviðauppbyggingu mannsins til hafs. Tilgangurinn er að styðja við vísindarannsóknir og þannig stuðla að bættri umgengni um auðlindir hafsins og sjálfbærri nýtingarstjórnun.

„Meira en milljarður manna er háður hafinu sem aðaluppsprettu fæðu, 260 milljónir hafa störf í sjávarútvegi sem aðalstarf á heimsvísu. Um 80% allra viðskiptavara eru flutt sjóleiðina og næstum 30% af olíu heimsins eru framleidd á hafi úti og dreift um allan heim. Auk þessarar rótgrónu nýtingar auðlinda hafsins er aukning í framleiðslu endurnýjanlegrar orku á hafi úti, fiskeldi og námuvinnslu,“ segir í greininni.

Í þessu „bláa“ haftengda hagkerfi er veltan sögð um 1,5 til 2,5 billjónir bandaríkjadala og vex það hraðar en aðrir þættir heimshagkerfisins. Vöxturinn hefur þó í för með sér umfangsmikil áhrif á umhverfið og er meðal annars bent á að þriðjungur fiskistofna heimsins sé nýttur umfram líffræðileg þolmörk. Einnig er bent á að iðnvæðing hafsins hafi áhrif á 30-50% mikilvægra búsvæða sjávardýra.

Meiri áhrif á vistkerfi en veiðar

„Með gagnagrunni okkar og tækni sem er öllum aðgengileg er nú hægt að sýna þau svæði þar sem meiri líkur eru á ólöglegri starfsemi og mögulegt að greina fiskiskip sem eru að sækja á fiskimið sem eru frátekin fyrir smábáta eða innan efnahagslögsögu annarra landa.

Kort af alþjóðlegu veiðiálagi geta nú tekið tillit til allra sjófara, ekki bara þeirra sem rakin eru með AIS-kerfinu. […] Gögnin okkar geta einnig hjálpað til við að mæla umfang losunar gróðurhúsalofttegunda frá skipaumferð og þróun á hafi úti, sem getur hjálpað til við að upplýsa stefnu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í greininni.

Bent er á að mörg ríki heimsins hafa tekið upp fiskveiðistjórnun til að minnka álag á nytjastofna og hafa því verið sett takmörk á vöxt í fiskveiðum. Hins vegar eru engar eða minni takmarkanir á ferðum flutningaskipa og iðnvæðingu hafsins með uppbyggingu til að mynda vindmyllugarða. Þetta telja greinarhöfundar geta leitt til þess að áhrif þessara þátta á vistkerfi sjávar verði meiri en áhrif fiskveiða.