Staðan Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er gestur Spursmála á mbl.is.
Staðan Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er gestur Spursmála á mbl.is.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir enn mögulegt að byggja upp nafnvaxtakerfi á lánamarkaði hér á landi. Það sé mögulegt, jafnvel þótt heimilin flýi nú í stórum stíl að nýju í verðtryggð lán, örfáum misserum eftir að óverðtryggðir húsnæðisvextir urðu að stórum hluta ráðandi

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir enn mögulegt að byggja upp nafnvaxtakerfi á lánamarkaði hér á landi. Það sé mögulegt, jafnvel þótt heimilin flýi nú í stórum stíl að nýju í verðtryggð lán, örfáum misserum eftir að óverðtryggðir húsnæðisvextir urðu að stórum hluta ráðandi. Ásgeir er gestur Spursmála þar sem staðan í hagkerfinu er rædd og hann krafinn svara um hvort mögulegt sé að Seðlabankinn sé að taka of hart í bremsuna með því að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% en þannig hafa þeir staðið óbreyttir frá því í ágúst síðastliðnum.

Hann bendir á að ef hægt sé að ná böndum á verðbólgunni þá hafi fólk áfram kost á því að taka óverðtryggð lán. Og hann segist bjartsýnn á að þetta sé allt mögulegt. Hins vegar þurfi margt að vinna saman, bæði vinnumarkaðurinn og ríkisfjármálin.

Þegar hann er spurður út í það hvort hann telji að opinberi vinnumarkaðurinn muni feta í fótspor hins almenna og undirrita kjarasamninga á sömu forsendum og náðst hafa að undanförnu slær bankastjórinn í og úr.

„Ég held að það hafi allir væntingar um það já, annars veit ég það ekki. Seðlabankinn er náttúrulega ekki aðili að þessum samningum. Það sem hefur gerst á síðustu árum er að það hafa verið krónutöluhækkanir. Launabilið hefur minnkað verulega.“ Í núverandi samningum var hins vegar samið um prósentuhækkanir, þvert á ýtrustu kröfur verkalýðsforkólfa á borð við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

Ásgeir segir mikilvægt að ríkisfjármálin auki ekki á þensluna í kerfinu. Þegar margháttaðar útgjaldahugmyndir ráðherra ríkisstjórnarinnar eru bornar undir hann segir hann það ekki hlutverk Seðlabankans að forgangsraða verkefnum framkvæmdavaldsins. Hins vegar bíði bankinn eftir að sjá nýja ríkisfjármálaáætlun líta dagsins ljós. Þar verði hægt að leggja mat á áhrif ríkissjóðs á baráttuna við verðbólgudrauginn sem enn ríður húsum.

Höf.: Stefán E. Stefánsson