Jóninna Huld Haraldsdóttir fæddist 2. nóvember 1957. Hún lést 13. desember 2023.
Útför fór fram 5. janúar 2024.
Dimman vetrarmorgun stend ég fyrir framan húsið þitt. Snjókornin falla hægt niður af himni og tárin mín sameinast þeim á jörðu niðri. Lófinn minn snertir hjartað mitt. Tilfinningarnar söknuður og sorg í bland við kærleika og þakklæti sækja að mér. Mig langar ekki að kveðja þig og ég vil ekki trúa því að fundir okkar í þessu lífi verði ekki fleiri. Minningarnar hrannast upp. Í rúman áratug var ég svo lánsöm að eiga var og vinsemd vísa hjá þér. Þær stundir eru mér ómetanlegar og munu ævilangt ylja mér í hjartastað. Þegar ég hugsa til þín hugsa ég um leið: „Hvenær bjargar kona konu?“ Elsku Ninna, þú einfaldlega lagðir hendur á herðar mér og skynjaðir um leið logandi líkamsverki og sorg sálar minnar, takt hennar og tónhæð. Þú varst sú sem ég leitaði til í berskjöldun minni er eitthvað hafði beyglast eða brotnað innra með mér í lífsins ólgusjó. Aðspurð hvernig þú gætir unnið svona vel brostir þú kímin með kærleiksglott í augunum og svaraðir: Ég bara veit þetta og mínir menn hjálpa mér.
Þú varst afdráttarlaus og hlý. Konan með stóra hjartað, bjargvætturinn, ljósveran, mannvinurinn sanni sem bjargaðir ótalmörgum sálum með heilunartöfrum þínum. En þú varst mér svo miklu meira en það enda fórum við ítrekað langt umfram hefðbundinn meðferðartíma því við þurftum okkar spjalltíma saman. Við þurftum að spegla lífsreynslu, lærdóm og líðan. Um margt deildum við svipaðri reynslu og ræddum hana opinskátt hvort tveggja í alvarleika og glensi – og allt þar á milli. Tveimur dögum fyrir andlát þitt leitaði ég enn á ný til þín með nýtt verkefni. Þú hittir á húmorstaugina, sem fyrr, og við öskruðum af hlátri. Í þrígang reyndum við að hefja meðferðina aftur þaðan sem frá var horfið en allt kom fyrir ekki. „Þú þurftir að hlæja!“ sagðirðu hnyttin og í augnaráði okkar ríkti sameiginlegur skilningur. Undir lok tímans sagði ég þér hvað mér þætti vænt um þig og ítrekaði að þótt þú værir að eldast yrði ég eilífðarskjólstæðingur. Því lofaðir þú og við ákváðum að hittast viku síðar. Sá dagur kom aldrei.
Dag hvern harma ég andlát þitt og sakna þín. Þú ert þó hjá mér í hjartanu og birtist mér oft í draumum mínum, sem fyrr með góðar ráðleggingar mér og mínum til heilla. Ég er þakklát sjálfri mér fyrir að hafa tjáð mig einlæglega við þig og að lokaorð mín til þín hafi verið þessi: „Farðu vel með þig elsku Ninna mín – þú ert svo dýrmæt.“ Nú kveð ég þig, sannkallaða gæfukonu sem ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa haft í lífi mínu um stund. Skyndilegt andlát þitt minnir mig jafnframt á að við höfum ekki endalausan tíma. Að núna sé alltaf rétti tíminn til að hlæja, gráta, elska, gefa, þiggja, tengjast sjálfum sér, eiga falleg samskipti þar sem engin orð eru ósögð og engar tilfinningar ótjáðar. Að akkúrat núna sé rétti og eini tíminn til að skapa fallegt líf. Ég finn til með öllum þeim sem fá ekki lengur að vera nærveru þinnar og krafta aðnjótandi. Eitt er þó víst að ljós þitt lifir áfram í hjörtum allra þeirra er þú snertir því ljósið þitt er eilífðarljós sem getur ekki slokknað.
Aldís Arna Tryggvadóttir.