Javier Milei
Javier Milei
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geir Ágústsson verkfræðingur skrifar á blog.is um nýjan forseta Argentínu, Javier Milei, róttækan frjálshyggjumann sem hafi lofað að vinda ofan af verðbólgunni, skuldasöfnuninni og spillingunni. Hann hafi lofað að „við tæki mjög erfitt tímabil en að eftir það tæki við gott tímabil.“

Geir Ágústsson verkfræðingur skrifar á blog.is um nýjan forseta Argentínu, Javier Milei, róttækan frjálshyggjumann sem hafi lofað að vinda ofan af verðbólgunni, skuldasöfnuninni og spillingunni. Hann hafi lofað að „við tæki mjög erfitt tímabil en að eftir það tæki við gott tímabil.“

Núna sé erfiða tímabilið að ganga yfir, 100 dagar séu liðnir af valdatíma Milei, mótmæli séu mörg og stór og hann „sakaður um að vilja útrýma samfélaginu, hvorki meira né minna.“

Þrátt fyrir þetta séu vinsældir hans nokkuð stöðugar þó að skoðanakannanir hafi sýnt lítilsháttar lækkun í fylgi. Helmingur íbúa Argentínu sé sannfærður um að færa þurfi fórnir til að koma landinu á réttan kjöl.

Geir segir að nú vanti „eins og einn Milei á Íslandi. Ekki í embætti forseta heldur forsætisráðherra, í ríkisstjórn sem lifir í raunhagkerfinu. Slíkur forsætisráðherra leggur til að loka RÚV, skera niður bætur, draga úr rýrnun kaupmáttar, fækka ráðuneytum og svona mætti lengi telja. Þegar skuldasöfnunin hefur verið stöðvuð, sem tók Milei einn mánuð, þá er hægt að safna í sjóði og nota til að fjármagna skattalækkanir, innviðafjárfestingar og velferð.“

Á Íslandi sé ástandið öfugt: „Lán eru greidd með nýjum lánum á meðan nýjum útgjöldum er lofað í sífellu.“