[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vetrarvertíðin hefur gengið vel og hefur tekist að landa rúmlega 57 þúsund tonnum af þorski frá áramótum til 21. mars. Á sama tíma hefur verið landað meira en sautján þúsund tonnum af ýsu, 2.103 tonn af steinbít, 7.551 tonn af karfa og 1.776 tonnum af löngu

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Vetrarvertíðin hefur gengið vel og hefur tekist að landa rúmlega 57 þúsund tonnum af þorski frá áramótum til 21. mars. Á sama tíma hefur verið landað meira en sautján þúsund tonnum af ýsu, 2.103 tonn af steinbít, 7.551 tonn af karfa og 1.776 tonnum af löngu.

Fiskiskipaflotinn hefur landað tæplega 110 þúsund tonnum af þorski frá upphafi fiskveiðiársins 2023/2024 til 21. mars, en nýtt fiskveiðiár hefst 1. september ár hvert. Aðeins eru eftir veiðiheimildir fyrir 58 þúsund tonnum af þorski. Það þýðir að 35% af aflaheimildunum í tegundinni eru eftir þrátt fyrir að aðeins rétt rúmur helmingur af fiskveiðiárinu sé liðinn.

Svipaða sögu er að segja af stöðu ýsunnar en í tegundinni eru aðeins eftir 42% af úthlutuðum aflaheimildum eða tæp 26 þúsund tonn. Fiskast hefur vel af löngu víða um land að undanförnu og hefur flotinn landað 3.142 tonnum og eru aðeins 1.752 tonn eftir af aflaheimildum í tegundinni. Staðan er aðeins skárri í karfa þar sem um helmingur heimilda er eftir, eða tæp 19 þúsund tonn.

Töluvert er eftir af aflaheimildum í ufsa en erfiðlega hefur gengið að veiða hann undanfarin ár og hafa útgerðir ekki náð að landa öllum þeim afla sem heimildir eru fyrir. Einnig er töluvert eftir af heimildum í keilu, en úthlutaðar aflaheimildir í þeirri tegund eru ekki ýkja miklar, aðeins rúm fjögur þúsund tonn.

Samkvæmt aflastöðuyfirliti Fiskistofu sést að a.m.k. 20 aflamarksskip eru búin með aflaheimildir sínar í þorski eða eiga minna en 100 tonn eftir af ónýttum heimildum. Hið sama á við tæplega 30 krókaaflamarksbáta. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að byrjað sé að leggja bátum og skipum vegna kvótaleysis og að útgerðum sem það gera muni aðeins fjölga á komandi dögum og vikum. Það staðfesta útgerðarmenn sem rætt hafa við 200 mílur.

Á síðasta ári byrjuðu fleiri útgerðir að leggja fiskiskipum sínum í kringum apríl vegna kvótaleysis og var það afleiðing samdráttar í aflaheimildum. Var þeim skipum aðeins lagt hluta árs en í byrjun fiskveiðiársins 2022/2023 tilkynntu fleiri að skipum yrði lagt í lengri tíma, en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla í þorski það fiskveiðIár nam 208.846 tonnum sem var rúmlega 6% skerðing frá fiskveiðiárinu á undan og rúmlega 23% skerðing frá 2019/2020. Um miðjan september 2022 var tilkynnt að hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal hefði ákveðið að Stefni ÍS-28 yrði lagt og þrettán manna áhöfn sagt upp. Reynt var þó að finna sem flestum önnur störf hjá útgerðinni. Togarinn hefur ekki landað afla síðan.

Greint var frá því í nóvember sama ár að stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hefðu ákveðið að hætta útgerð Brynjólfs VE-3 vegna tíðra bilana um borð sem og kvótaskerðinga. Var áhöfninni sagt upp og reynt að finna pláss fyrir áhafnarmeðlimi á öðrum skipum félagsins.

Sama mánuð árið 2022 var tilkynnt sú ákvörðun Samherja að leggja Harðbak EA-3, en í því tilviki var skipinu lagt tímabundið. Fékk áhöfnin önnur störf hjá Samherja á meðan togarinn hélt til Noregs þar sem hann var á veiðum fram á vor. Landaði Harðbakur á ný afla á Íslandi í maí 2023.

Betri nýting skipakosts

Samdráttur í útgefnum veiðiheimildum hefur dregið verulega úr hagkvæmni veiða enda dýrt að halda úti skipum sem geta ekki sinnt veiðum allt árið. Margar útgerðir hafa því gripið til þess ráðs að nýta betur þá báta og skip sem þegar eru í útgerð.

Hraðfrystihús Hellissands greindi frá því í júlí á síðasta ári að Örvar SH-777 hefði verið seldur til Odda á Patreksfirði. Ekki var talin ástæða til að bæta við skipum og var frekar ákveðið að auka nýtingu skipakostsins sem fyrir er, Rifsness SH-44 og Gunnars Bjarnasonar SH-122.

Í desember síðastliðnum var síðan sagt frá því að línuskipinu Fjölni GK-157 yrði lagt varanlega. „Ef allur flotinn sem tilheyrir Síldarvinnslunni er lagður saman þá fara þau skip og bátar létt með að veiða allan kvótann þótt fækkað verði um eitt skip,“ sagði Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í samtali við Morgunblaðið á þessum tíma.

Gríðarlega góð veiði hefur verið undanfarin ár á nýjustu línubátunum sem eru aðeins með fjögurra til fimm manna áhafnir og flokkast sem „stórir smábátar“. Hagkvæmni þeirra veiða getur verið meiri en til að mynda línuskipa og er spurning hvort aflamarksskip í millistærð munu hverfa úr flotanum á komandi árum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson