Fjölskyldan Magnús, Ragnheiður, börn, tengdadóttir og barnabörn 2022.
Fjölskyldan Magnús, Ragnheiður, börn, tengdadóttir og barnabörn 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Jóhannesson er fæddur 23. mars 1949 á Ísafirði á heimili móðurforeldra sinna. „Fyrstu árin dvaldi ég töluvert í sveit hjá föðurforeldrum mínum í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi og þar lærði ég að lesa og hlaut gagnlega undirstöðu í…

Magnús Jóhannesson er fæddur 23. mars 1949 á Ísafirði á heimili móðurforeldra sinna.

„Fyrstu árin dvaldi ég töluvert í sveit hjá föðurforeldrum mínum í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi og þar lærði ég að lesa og hlaut gagnlega undirstöðu í stærðfræði áður en ég hóf nám í Barnaskóla Ísafjarðar sjö ára gamall. Það var skemmtilegt að alast upp á Ísafirði og mikið um að vera hjá okkur púkunum á þessum árum. Það voru mörg gengi í bænum eftir bæjarhlutum og gekk stundum mikið á milli þeirra. Mitt lið var Hlíðarvegspúkarnir.

Annars fóru tómstundirnar á þessum árum einkum í fótbolta á sumrin og skíði á veturna. Ég var atorkusamur drengur og stofnaði m.a. íþróttafélag, Eldingu, sem starfaði í nokkur ár og með höfuðáherslu á knattspyrnu og frjálsar íþróttir og tíu ára gamall varð ég brennustjóri áramótabrennu í bænum. Í skólafríum á táningsárunum kynntist ég fjölbreyttum störfum í fiskvinnslu, almennri verkamannavinnu og við skógrækt. Þessi starfsreynsla var mjög þroskandi og hefur komið sér vel á lífsleiðinni. Tel ég að þessi fjölbreytta starfsreynsla á unga aldri hafi m.a. átt þátt í því að mér hefur aldrei leiðst í vinnunni.“

Að loknu námi í Barnaskóla Ísafjarðar lá leið Magnúsar í Gagnfræðaskóla Ísafjarðar og þaðan í Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi kenndi hann stærðfræði einn vetur við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar áður en hann hóf nám í verkfræði við háskólann í Manchester á Englandi, þar sem hann lauk bæði BSc- og MSc-námi.

Að afloknu námi hóf Magnús störf hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna en fór seinna að starfa hjá Siglingamálastofnun ríkisins og var nokkrum árum síðar skipaður siglingamálastjóri. „Ég gegndi þeirri stöðu í um átta ár, en tók þá við stöðu ráðuneytisstjóra í nýlega stofnuðu umhverfisráðuneyti. Þar starfaði ég í rúm 20 ár, en var þá ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins með aðsetur í Tromsö í Noregi og þar var ég í tæp fimm ár. Þegar heim kom að því loknu starfaði ég í rúm fjögur ár sem ráðgjafi í málefnum norðurslóða í utanríkisráðuneytinu m.a. þegar Ísland gegndi formennsku í ráðinu 2019-2021. Í umhverfisráðuneytinu starfaði ég með tíu ráðherrum sem komu úr fimm stjórnmálaflokkum.“

Meðfram þessum störfum stýrði Magnús fjölmörgum nefndum. Á starfstíma Siglingamálastofnunar var hann m.a. formaður undanþágunefndar sjómanna og skólanefndar Stýrimannaskólans um árabil og á tíma umhverfisráðuneytisins var hann m.a. formaður stjórnar Ofanflóðasjóðs og tveggja nefnda er lögðu grunn að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann var einnig varaformaður nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

„Frá þessum fjölbreyttu störfum er mér efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu frábæru samstarfsfélaga sem ég kynntist og vann með að framgangi margvíslegra verkefna. Það voru forréttindi að fá að vinna að þessum fjölbreyttu verkefnum en mesta gæfa mín í lífinu var að eignast yndislega eiginkonu sem hefur staðið við bak mér og stutt alla tíð.“

Helstu áhugamál Magnúsar eru umhverfisvernd og útivist. „Málefni hafsins, einkum aðgerðir gegn mengun sjávar, hafa átt fastan stað í huga mínum frá því á námsárunum í Manchester og á síðasta ári kom ég reyndar að skipulagi fjölmennrar alþjóðlegrar ráðstefnu um plastmengun í höfunum sem haldin var hér í Hörpu.

Við hjónin höfum verið í tveimur skemmtilegum gönguhópum um langt árabil og gengið með vinum okkar um fjöll og öræfi Íslands. Ég gekk á Hvannadalshnjúk með þremur vinum mínum þegar fjallið var ennþá 2.119 metra hátt. Svo hef ég gengið á fjöll í Austurríki, á Ítalíu og Spáni. Hafa þessar gönguferðir þróast og breyst nokkuð með aldrinum.“

Magnús er áhugamaður um knattspyrnu og spilaði fótbolta á Ísafjarðarárunum með Vestra og ÍBÍ en með Létti í Reykjavík eftir að hann lauk námi í Manchester. „Frá háskólaárunum í Manchester hef ég verið dyggur stuðningsmaður Manchester City og hef farið allmargar ferðir til Manchester að horfa á leiki míns félags sem hefur verið í góðu standi seinni ár.“

Magnús er félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og hefur verið forseti klúbbsins. „Þá var ég formaður Skógræktarfélags Íslands í átta ár og naut þess að kynnast því mikilvæga og óeigingjarna starfi sem unnið er af skógræktarfélögunum um allt land. Margir af skógarreitum skógræktarfélaganna eru nú meðal vinsælustu útivistarsvæða landsins.

Ég hef gaman af tónlist, er af bítlakynslóðinni og mér finnst með fullri virðingu engin hljómsveit hafi komið fram enn sem hefur slegið þeim við. Ég lærði á hlóðfæri í Tónlistarskóla Ísafjarðar hjá Ragnari H. Ragnar á sínum tíma og spilaði á saxófón í lúðrasveit, en nú gríp ég stundum í gítar fyrst og fremst mér til ánægju.“

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Ragnheiður Hermannsdóttir, f. 15.5. 1949, kennari og námsgagnahöfundur, handhafi Íslensku menntaverðlaunanna 2010. Þau eru búsett á Kleifarvegi 9, Reykjavík.

Foreldrar Ragnheiðar voru hjónin séra Hermann Gunnarsson, prestur á Skútustöðum, f. 30.6. 1920, d. 10.10. 1951, og Sigurlaug Þórey Johnson hjúkrunarfræðingur, f. 3.11. 1922, d. 18.11. 2001. Fósturforeldrar hennar voru hjónin Kjartan Sveinsson raftæknifræðingur, f. 30.1. 1913, d. 21.2. 1998 og Bergþóra Gunnarsdóttir, húsfreyja í Reykjavík, f. 27.8. 1912, d. 1.4. 2012.

Börn Magnúsar og Ragnheiðar eru 1) Bergþóra Svava, grafískur hönnuður hjá Eimskip, f. 31.5. 1977, býr í Reykjavík. Dætur hennar eru Ragnheiður Björt, f. 2008, Þórey Ágústa, f. 2015 og Auður Magnea, f. 2019; 2) Jóhannes Páll, dr. í lyfjafræði hjá MSD í Sviss, f. 30.9. 1978. Maki: Berglind Ósk Pálsdóttir, klínískur lyfjafræðingur á sjúkrahúsinu í Lucerne, Sviss, f. 28.6. 1981. Dóttir þeirra er Harpa Dís, f. 2014.

Systkini Magnúsar eru Þorsteinn, fv. yfirlæknir á Ísafirði, f. 11.5. 1951, býr í Mosfellsbæ; Þórir tæknifræðingur, f. 18.1. 1956, býr í Hafnarfirði; Hanna húðsjúkdómalæknir, f. 31.5. 1959, býr í Reykjavík, og Laufey bókasafnsfræðingur, f. 1.1. 1966, býr í Reykjavík.

Foreldrar Magnúsar voru hjónin Jóhannes Þorsteinsson, rennismiður og vélstjóri, f. 25.9. 1926, d. 7.11. 2013, og Sjöfn Magnúsdóttir, fulltrúi skattstjóra Vestfjarða, f. 3.12. 1929, d. 23.12. 2008. Þau voru búsett á Ísafirði.