Alexandra Chernyshova
Alexandra Chernyshova
Frumkvöðlar standa vörð um ástríðu fyrir óperunni og ala upp nýja áhorfendur til framtíðar.

Alexandra Chernyshova

Aristóteles sagði að kennslufræði væri grunnur og lykilatriði til að ala upp barn. Ef svo er, þá er möguleiki að ala upp nýja áhorfendur og vekja áhuga hjá ungum börnum á óperu fyrir bjarta framtíð óperunnar á Íslandi.

Sýningin „Ópera fyrir leikskólabörn“, með spurninguna „hvað er ópera?“ að leiðarljósi, sérsamin fyrir leikskólabörn, hefur verið sýnd fyrir 2.500 leikskólabörn frá þriggja til fimm ára aldurs síðustu sex ár í leikskólum Reykjavíkur, Reykjanesbæjar, Akureyrar og fleiri bæja.

Hugmyndin að sýningunni kom fyrir sex árum. Undirrituð bjó til sérstaka sýningu, „Óperu fyrir leikskólabörn“, út frá frumsömdu óperunni og tónlistinni úr „Ævintýrinu um norðurljósin“. Þessi sýning er lifandi dæmi um að óperan nær líka til yngstu áhorfendanna, sem eru opnir fyrir hvers konar tónlist og hafa ekki neina fordóma gagnvart óperutónlist.

Ópera fyrir leikskólabörn kemur með óperuna til leikskólanna, heimsækir krakkana í leikskólanum á þeirra svæði, svo það þarf ekki sérstakt svið, og flytjendur fá m.a. krakkana til að dansa og syngja, kíkja inn í töfraheim óperunnar og taka virkan þátt í sýningunni. Óperan er um 25 mínútur að lengd. Eftir sýningu eru öll leikskólabörnin glöð og langar að koma og sjá fleiri óperusýningar.

Af hverju er mikilvægt að kynna óperu fyrir yngstu kynslóðinni? Af því að það er svo undarlegt hvað fyrsta sýning getur haft mikil áhrif og haft hvetjandi áhrif á börnin til að koma og heimsækja óperuleikhús í framtíðinni. Ópera fyrir leikskólabörn hefur heimsótt um 40 leikskóla frá árinu 2018. Leikskólar voru heimsóttir í Reykjanesbæ, Vogum, Grindavík, Akureyri, Reykjavík, Vík, Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli og alls staðar hafa móttökur verið jafn góðar.

Frumsýning á stóru óperuballettsýningunni var árið 2017 í Norðurljósasal Hörpu með átta einsöngvurum, ballettdönsurum, kór og hljómsveit. Árið 2018 varð óperuballettinn í öðru sæti alþjóðlegrar tónskáldakeppni sem kennd er við Isaak Dunajevskiy og árið 2020 fékk „Ævintýrið um norðurljósin“ aðalverðlaunin í Aurora, alþjóðlegri tónlistarkeppni í Svíþjóð.

Það er mjög gaman að sjá hvað óperuleiksýningin „Ævintýrið um norðurljósin“ fyrir leikskólabörn hefur slegið í gegn meðal leikskólabarna á Íslandi. Undirrituð, sem er höfundur, tónskáld og sópransöngkona, syngur og leikur álfadrottninguna í sýningunni auk þess sem fram kemur barítónsöngvarinn og dansarinn Jón Svavar Jósefsson sem leikur íkornann Ratatosk.

Á meðan Íslenska óperan heldur ekki neinar sýningar eru frumkvöðlar að standa vörð um ástríðu fyrir óperunni og ala upp nýja áhorfendur til framtíðar.

Höfundur er skólastjóri tónskólans í Vík.