Þyrluflug Hiti steig upp frá hraunbreiðunni þegar ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa mynd úr þyrluflugi í gær.
Þyrluflug Hiti steig upp frá hraunbreiðunni þegar ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa mynd úr þyrluflugi í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur og núna erum við fullbókuð fram á föstudaginn langa,“ segir Vera Almeida þjónustufulltrúi Norðurflugs, en bætir við að það sé bæði verið að fljúga til gosstöðvanna við Sundahnúka og víðar

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur og núna erum við fullbókuð fram á föstudaginn langa,“ segir Vera Almeida þjónustufulltrúi Norðurflugs, en bætir við að það sé bæði verið að fljúga til gosstöðvanna við Sundahnúka og víðar. Hún segir að vegna slæms veðurs í síðustu viku hafi Norðurflug ekki byrjað að fljúga að gosinu fyrir alvöru fyrr en núna á laugardaginn. „Við fljúgum á hverjum degi, þegar veður leyfir, en munum ekki fljúga á páskadag.“

Ferðamenn í meirihluta

Vera segir að langflestir þeirra sem hafa verið að fljúga yfir gosstöðvarnar séu ferðamenn og greinilega sé mikill áhugi á að sjá yfir svæðið úr lofti. „Það eru einhverjir Íslendingar líka, en meirihlutinn er ferðamenn og líka þeir sem eru búnir að panta flug hjá okkur. Við erum með þrjár þyrlur og flugmenn sem eru tilbúnir til að fljúga. Við byrjum að fljúga á morgnana klukkan átta og alveg fram til sjö á kvöldin.“

Vera segir að þau finni að meiri áhugi sé á þyrluflugi núna, enda hafi undanfarin þrjú gos verið svo stutt að þau voru nánast búin eftir einn sólarhring. Núna sé gosið búið að standa á aðra viku og þá gefist ráðrúm til að panta sér flug og skipuleggja ferðir til að sjá gosið, sem ekki var tilfellið í fyrri þremur gosum.

Hún segir að þeir ferðamenn sem hafi farið með þeim hafi verið mjög ánægðir og fundist mikilfenglegt að sjá yfir gosstöðvarnar úr lofti og hvar hraunbreiðurnar hafa teygst í átt til Grindavíkur og Svartsengis.

Færri ferðir í síðustu gosum

Oft var flogið yfir gosstöðvarnar þegar gaus við Litla-Hrút í sumar, enda var það í júlí þegar ferðamannafjöldinn var hvað mestur. Eins og áður segir var minna um þyrluflug í síðustu gosum vegna þess að þau stóðu svo stutt. Núna hefur veðrið aðeins sett strik í reikninginn, en meðan gosið helst nokkuð stöðugt má búast við að menn séu að skoða bæði þyrluflug að gosstöðvunum og hugsanlega gönguleiðir sem hægt væri að fara.

Flogið yfir Álftanes

Ekki fengið kvartanir

„Garðbæingar og Álftnesingar hafa orðið varir við þyrluflug en hingað á bæjarskrifstofuna hafa ekki borist kvartanir vegna þess núna undanfarið,“ segir Ásta Sigrún Magnúsdóttir samskiptastjóri Garðabæjar. Eins og menn muna var mikið kvartað í Kópavogi síðasta sumar vegna hávaða í þyrlum, en núna fljúga þyrlurnar yfir Álftanes en ekki Kópavog.