Björgvin Gíslason 4. september 1951. Hann varð bráðkvaddur 5. mars 2024.

Björgvin var jarðsunginn 22. mars 2024.

Elsku pabbi minn, ég á erfitt með að sætta mig við það að þú sért farinn og við náum ekki oftar spjalli og myndsímtölum sem við áttum svo mikið af. Erfitt að sætta sig við að síðasta spjallið okkar sem var kvöldið áður hafi verið það allra síðasta, þar sem við ræddum kennsluefni sem þú hafðir tekið saman og sent mér. Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir allar stundirnar okkar því samband okkar var sérstakt og innilegt. Það sem við grínuðumst og hlógum og allra best þegar það var eitthvað mjög fyndið, þá fórstu eiginlega alveg í keng og veltist um af hlátri. Ég man alla veiðitúrana þegar ég var lítill og við gengum að mér fannst heila eilífð að vatninu sem yrði veitt í. Þú gast gengið endalaust ef þú varst bara með veiðistöng í hendi og vatn fram undan. Ég átti reyndar alltaf erfitt með að venjast Melroses-teinu sem var með í brúsa en við redduðum því bara með þó nokkrum sykri. Ég hef alltaf verið svo stoltur af þér og stoltur að geta kallað þig pabba minn, þú varst allra besti pabbi og það var alltaf spennandi að fá að koma með þér að róta og fylgjast með þér og vinunum og öllu gríninu sem var alltaf til staðar.

Þegar ég var 18 ára og búinn að vera að vinna á Sprengisandi í margar vikur að leggja ljósleiðara og hópurinn loksins kominn til Akureyrar, þá fékk ég hringingu frá þér. Þú varst á Akureyri og að fara að spila með Pelican á Pollinum og spurðir hvort þú ættir ekki að setja mig á gestalista, ég hélt það nú! Við mættum allir strákarnir úr Ljósvirki og allt varð auðvitað brjálað þegar þið tókuð Á Sprengisandi. Váá, ég stóð svo stjarfur þegar þú fórst í sólóið. Ég auðvitað skellti mér á barinn og náði í viskí handa þér, þú fílaðir það. Ég var varla búinn að láta þig fá glasið þegar tvær eldri konur, líklegast á aldur við þig, spurðu mig hvort ég þekkti þig. „Þekki ég hann? Hann er pabbi minn!“ sagði ég stoltur. Ég fékk ekki frið fyrir þeim það sem eftir lifði kvöldsins.

Það kom sér alltaf vel að vera sonur þinn, sérstaklega nokkrum árum áður þegar ég kynntist Ólöfu minni þegar við vorum 14-15 ára, þá var ég skíthræddur að hitta tengdapabba í fyrsta sinn en svo þegar hann frétti að þú værir pabbi minn þá var allt upp á 10 því þú varst gítarhetjan hans. Þið urðuð svo góðir félagar og fannst okkur gaman að vera saman í gítartímum hjá þér. Ég átti svo eftir að komast að því að þú varst ekki bara gítarhetjan hans heldur svo ótal margra. Þú varst alltaf svo góður afi sem sýndir barnabörnunum mikinn áhuga, gafst þér tíma til að spjalla við þau, spila og fíflast í þeim og „láta illa“ eins og þú kallaðir það. Við elskuðum þegar þú lést illa.

Mér fannst svo gaman að hjálpa þér með hitt og þetta því þú varst alltaf svo þakklátur og þú lést mann vita af því og maður fann það. Þú varst líka alltaf reiðubúinn að hjálpa okkur ef þörf var á.

Takk elsku pabbi minn fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, fjölskylduna mína og vini. Ég mun alltaf sakna þín og þinnar fallegu nærveru.

Góða ferð í sumarlandið, sé þig síðar í kring.

Elska þig, pabbi minn, takk takk.

Gísli Freyr
Björgvinsson.

Við Björgvin unnum saman í Hárinu í Glaumbæ á sínum tíma. Hinum ljúfa, örláta, umtalsgóða og jákvæða persónuleika Björgvins verður ekki betur lýst en í bréfi sem hann sendi mér eftir að hann gaf út sitt síðasta tónverk. Bréfið birtist hér í heild sinni:

„Sæll Árni, takk fyrir að sýna Jarðarbungu áhuga.

Já og takk fyrir síðast, Glaumbæ, Hárið, það var nú fjör.

Við Einar Örn syngjum dúett á plötunni. Þetta er fyrsta lagið, „Er andartakið ekki æði“.

Þegar við vorum að vinna þetta lag, Bjóla og ég, fannst okkur vanta nýjan lit í endann, og fengum eiginlega sömu hugmynd um leið, Einar Örn.

Hann kom og performaði í einni töku, var ekki búinn að hlusta á lagið einu sinni. Hvílíkur snillingur. Þarna var kominn punktur á lagið.

Ekki nóg að vera snillingur er hann líka afskaplega ljúfur og góður drengur. Svo er hann líka frábær myndlistarmaður.

Vinur minn frá Argentínu, sem er mikill Íslandsaðdáandi og dáir Björk, sagði mér að Björk væri að koma til Buenos Aires til að halda tónleika.

Hann (vinurinn) fátækur námsmaður átti ekki fræðilegan möguleika á að hafa efni á miða. Ég hafði samband við Einar Örn, sem um leið sagðist geta reddað þessu.

Tveir miðar biðu í miðasölunni á tónleikadaginn. Miðar á besta stað, með bankastjórum og öðrum burgeisum. Nei, Einar er gull af manni, og mikill listamaður.

Ég er ákaflega ánægður með Jarðarbungu, og fá að starfa með Sigurði Bjólu að svona verkefni er algjörlega æðislegt. Tel mig vera afar heppinn mann. Svo eru það náttúrulega gömlu vinirnir mínir Halli Þorsteins og Ásgeir Óskars, sem áttu mikið impuls í tónlistina. Og svo má ekki gleyma Tomma og Jenna, Dísu, Ödda, og Pétri Hjalt. Allt algjörir snillingar.

Enn og aftur Árni, takk fyrir að sýna Jarðarbungu áhuga. Vona að þú njótir vel og lengi.

kv

Björgvin Gíslason.“

Árni Blandon.