Á Keflavíkurflugvelli Isavia er að ganga frá sumarráðningum.
Á Keflavíkurflugvelli Isavia er að ganga frá sumarráðningum. — Morgunblaðið/Eggert
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Isavia og dótturfélög hyggjast ráða um 300 einstaklinga í sumarstörf í ár. Þar af verða um 95% þessara 300 einstaklinga ráðin til starfa á Keflavíkurflugvelli. Það eru álíka margir og í fyrra.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Isavia og dótturfélög hyggjast ráða um 300 einstaklinga í sumarstörf í ár. Þar af verða um 95% þessara 300 einstaklinga ráðin til starfa á Keflavíkurflugvelli. Það eru álíka margir og í fyrra.

Brynjar Már Brynjólfsson mannauðsstjóri Isavia segir að með þessum ráðningum verði Isavia með um 1.150 starfsmenn á Keflavíkurflugvelli í sumar. Hins vegar hafi Isavia ekki nákvæma tölu um hversu margir muni starfa á flugvellinum í heild.

Það liggi hins vegar fyrir að gefnir hafi verið út um 10.000 aðgangspassar að flugvellinum til Isavia og annarra rekstrar- og þjónustuaðila.

Að meðtöldu starfsfólki Fríhafnarinnar verður Isavia með um 1.380 starfsmenn í sumar sem er sami fjöldi og árið 2018 sem er metár í íslenskri ferðaþjónustu hvað fjölda erlendra ferðamanna snertir.

Samanlagður fjöldi starfsfólks Isavia og Fríhafnarinnar er sýndur á meðfylgjandi grafi en því fækkaði mikið í farsóttinni 2020 og 2021.

Færður í sér félög

Brynjar Már segir flest sumarstarfsfólkið ráðið á svið þjónustu og rekstrar en undir það heyri meðal annars farþegaþjónusta og öryggisleit.

„Sumarráðningarnar ganga vonum framar í ár og við sjáum fram á að ljúka ráðningum í allar stöður núna í byrjun apríl. Þá hefst þjálfunarferlið en stór hluti þeirra sem við erum að ráða þarf að undirgangast mikla þjálfun og standast próf til að eiga kost á að sinna störfum sínum á flugvellinum í sumar. Isavia-skólinn og þjálfunarteymi hans annast alla þá þjálfun ásamt starfsfólki eininga og deilda,“ segir Brynjar Már.

Var skipt upp

Spurður hversu margir hafi starfað hjá Isavia á vellinum síðustu ár, sé Fríhöfnin frátalin, segir Brynjar Már að hafa verði í huga að samstæðu Isavia hafi verið skipt upp árið 2020. Þá séu árin í farsóttinni ekki samanburðarhæf við önnur rekstrarár. Með því vísar hann til þess að 1. janúar 2020 var Isavia skipt upp þar sem rekstur flugleiðsögu og rekstur innanlandsflugvalla var færður í sér félög.

Höf.: Baldur Arnarson