Orri Páll Jóhannsson
Orri Páll Jóhannsson
Í skýrslunni Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður sem út kom sl. vor og var unnin fyrir forsætisráðherra á grundvelli beiðni frá Alþingi, sem Halldóra Mogensen þingmaður átti frumkvæði að, kemur ýmislegt áhugavert fram

Í skýrslunni Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður sem út kom sl. vor og var unnin fyrir forsætisráðherra á grundvelli beiðni frá Alþingi, sem Halldóra Mogensen þingmaður átti frumkvæði að, kemur ýmislegt áhugavert fram. Þó dregið hafi úr hlutfalli tekjulágra á Íslandi á síðastliðnum 20 árum er fátækt enn til staðar í íslensku samfélagi. Þar standa einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur verst og nú er unnið að frekari sérhæfðum greiningum á mismunandi hópum samfélagsins. Skýrslur eins og þessi eru mikilvægur grunnur ákvarðanatöku þegar kemur að því að draga úr fátækt.

Eins og fram kemur í skýrslunni er staða barna sem býr við fátækt sérstakt viðfangsefni og fjárfesting í aðgerðum gegn fátækt barna er augljóslega með mesta ávinninginn. Inngrip í þeirra þágu skila hvað mestum árangri í að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði vegna fátæktar barna. Velferð barna sem búa við fátækt verður einungis tryggð með því að stuðla markvisst að því að auka ráðstöfunartekjur forráðamanna. Það skiptir nefnilega höfuðmáli að lyfta börnum úr fátækt áður en fátæktin nær að valda þeim skaða. Það er langtímafjárfesting sem hefur mikinn væntan ávinning, eins og segir í skýrslunni.

Hækkun barnabóta, aukinn stuðningur við leigjendur og gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru allt saman aðgerðir sem munu auka ráðstöfunartekjur foreldra og draga úr fátækt barna. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir einar og sér geta aukið ráðstöfunartekjur foreldra um nokkra tugi þúsunda á mánuði. Samkvæmt skýrslunni eru fjölskyldur einstæðra foreldra sá hópur sem líklegastur er til að vera undir lágtekjumörkum, hvort sem miðað er við þrjú ár eða lengur eða fjögur ár eða lengur. Næst á eftir komu innflytjendur.

Nýlega sat ég fund EAPN á Íslandi, samtaka gegn fátækt. Það er átakanlegt að heyra reynslusögur fullorðinna einstaklinga sem ólust upp við fátækt og hafa búið við langvarandi fátækt á fullorðinsárum. Brýnt er að tryggja þeim fjárhagslegt öryggi en einnig styðja þá enn frekar með úrræðum sem hjálpa til við að vinna úr skaðanum sem hlýst af því að alast upp við og búa við fátækt. Því þarf að koma í veg fyrir fátækt barna.

Baráttan við að bæta hag fólks – að auka velsæld í samfélaginu – er eitt af markmiðum stjórnmálanna. Ástand þar sem skortur er á tilteknum lífsgæðum fyrir ákveðna hópa samfélagsins s.s. aðgangi að heilbrigðisþjónustu, menntun, húsnæði, tengslaneti eða félagsauði er ljóður sem þarf að laga. Sem betur fer er staðan hér á landi með því besta sem þekkist þegar kemur að samanburði við önnur samfélög sem við berum okkur saman við. Ójöfnuður og fátækt er engu að síður staðreynd í íslensku samfélagi. Því þarf að grípa til aðgerða til að bæta hag fólks.

Höfundur er þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. orri.pall.johannsson@althingi.is