Stefanía Björg Hannesdóttir fæddist á Djúpavogi 10. júní 1953. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar eftir hetjulega baráttu við krabbamein 17. mars 2024 á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað.

Stefanía var dóttir Kristínar Sigríðar Skúladóttur, húsfreyju frá Urðarteigi, f. 2. maí 1934, og Hannesar Björgvinssonar, bónda frá Hól í Breiðdal, f. 12. nóvember 1925, d. 5. nóvember 2005.

Systkini Stefaníu eru: 1) Skúli, f. 2. júní 1954, maki Þórhildur Pálsdóttir og eiga þau 3 syni, 2) Hrefna, f. 19. nóvember 1956, d. 5. desember 2018, maki Ármann Guðmundsson eiga þau 2 börn, 3) Málfríður, f. 8. ágúst 1959, maki Daníel Þorsteinsson og eiga þau eina dóttur, fyrir á Daníel tvö börn, 4) Fanney Helga, f. 9. október 1960, maki Þórhallur Hauksson, eiga þau þrjú börn, 5) Hrafnkell, f. 22. maí 1962, maki María Jane Duff og eiga þau fjögur börn, fyrir á María eina dóttur, 6) Kristín Sigríður, f. 24. apríl 1964, sambýlismaður Jón Brynjar Eiríksson.

Eftirlifandi eiginmaður Stefaníu er Haukur Elísson, f. 30. nóvember 1948, bóndi á Starmýri. Börn þeirra hjóna eru: 1) Kristín Hanna, f. 6. maí 1973, maki Hjálmar Heimisson, eiga þau þrjú börn: a) Bryndís, maki Ástráður Ási Magnússon, börn þeirra eru Salka Rós og Malín Sara, b) Áslaug Stefanía, sambýlismaður Emil Logi Birkisson, barn þeirra Brynjar Logi, c) Fannar Haukur. 2) Elsa Gerður, f. 16. október 1975, maki Lars Jóhann Andrésson Imsland og eiga þau þrjá syni: a) Júlíus Aron, b) Björgvin Freyr og c) Elís Máni. 3) Katla Björk, f. 30. september 1980, maki Jón Magnús Eyþórsson og eiga þau fjóra syni: a) Anton Elís, b) Eyþór Örn, c) Haukur Orri og d) Hannes Bragi. 4) Ásdís, f. 17. október 1987, í sambúð með Guðjóni Antoni Gíslasyni og eiga þau þrjá syni: a) Gísli Hjörtur, b) Birkir Hrafn og c) Ísak Bjarki. 5) Aldís, f. 19. desember 1988, í sambúð með Haraldi Jóni Jóhannessyni og eiga þau tvo syni: a) Heiðar Logi og b) Elmar Elí, fyrir á Haraldur eina dóttur. Stefanía var fædd og uppalin á Hól í Breiðdal og gekk í barnaskólann á Staðarborg. Hún fór einn vetur í Húsmæðraskólann Varmalandi 1971 til 1972.

Árið 1973 taka þau hjónin við fjárbúinu á Starmýri af foreldrum Hauks og ráku það allt til ársins 2000 ásamt því að keyra skólabílinn á Djúpavog og flugrútu milli Djúpavogs og Hafnar. Með búskap vann Stefanía ýmis störf, vann í fiski, sláturhúsi, fór á síldarvertíð, var matráðskona í grunnskóla Álftafjarðar, eldaði fyrir vegavinnuflokka, ritari á heilsugæslunni á Djúpavogi og á veitingastaðnum Við Voginn.

Stefanía var virk í ýmsum félagsstörfum í sveitarfélaginu, hún var í kvenfélaginu, var í kirkjukórnum í 30 ár, sóknarnefnd í Hofsókn og í eldriborgarafélaginu á Djúpavogi. Stefanía var iðin við prjónaskap og annað handverk.

Stefanía verður jarðsungin frá Djúpavogskirkju í dag, 26. mars 2024, klukkan 13.

Elsku amma mín, auka mamma og vinkona.

Þegar ég hugsa um Stefaníu ömmu sé ég fyrir mér Starmýri, sveitina mína og nýbakað bananabrauð því það var mitt allra uppáhalds. Og ekki klikkuðu kleinurnar, amma nefnilega sá alltaf til þess að enginn væri svangur þegar maður var heima í sveitinni.

Þegar ég var lítil var ég hjá ömmu og afa nánast öllum stundum, enda langbest að vera í faðminum á ömmu. Þar gátum við brasað saman alla daga og ég er svo þakklát fyrir allar okkar stundir.

Takk fyrir allar útilegurnar sem þú dröslaðir mér í, en þær minningar sitja svo fast í huga mínum.

Og ég gæti talið upp endalaust elsku amma mín.

Þar til við sjáumst næst sofðu rótt og við skálum í Baileys amma mín.

Kveðja ljósið þitt. Ég lofa að ég skal skína þar til við sjáumst næst.

Þín ömmustelpa,

Bryndís Hjálmarsdóttir.

Margs er að minnast og margt er að þakka þegar Stefanía á Starmýri er kvödd. Fallega viðmótið, gestrisnina, greiðviknina og umfram allt vináttuna. Takk fyrir allt. Guð blessi minningu Stefaníu.

Jón og Inga í Rjóðri.