Ólafur Bernódusson
Ólafur Bernódusson
Hann brennur fyrir málefnum kirkjunnar en býr líka yfir því umburðarlyndi að hlusta á og virða aðrar skoðanir fólks

Ólafur Bernódusson

Á næstunni verður kjörinn nýr biskup yfir Íslandi. Eftir tilnefningar eru í kjöri þrír vinsælir prestar, tvær konur og einn karl. Eftir ýmsar sviptingar innan þjóðkirkjunnar að undanförnu er ákaflega mikilvægt að nýr biskup verði aðili sem er mannasættir og takist að sameina öll öfl kirkjunnar til að stefna í sömu átt.

Að mínu mati býr Guðmundur Karl Brynjarsson yfir þeim hæfileikum sem þarf til að almenn sátt og ánægja ríki um störf þjóðkirkjunnar í framtíðinni. Hann var í tvö ár sóknarprestur hér á Skagaströnd þar sem fólk er kannski ekki alltof kirkjurækið. Með hæglátum húmor sínum og alþýðleika tókst honum að ávinna sér, og kirkjunni okkar, vinsældir og velvild hjá ólíklegasta fólki í söfnuðunum sem hann þjónaði. Þannig þótti t.d. börnum alveg hörmulegt ef þau misstu af sunnudagaskóla vegna veikinda eða ferðalaga. Einhvern veginn tókst honum að boða og kenna trúna á þann hátt að maður áttaði sig ekki á því fyrr en á eftir hve miklu máli hún skiptir í daglegu lífi okkar.

Þegar Gummi Kalli flutti svo í Kópavoginn til að gerast prestur þar, með mikilli eftirsjá okkar sóknarbarna hans hér, þurfti hann að byrja „með tvær hendur tómar“ eins og sagt er. Engin kirkja var til staðar í sókninni þannig að hann varð að messa í skólastofu í nærliggjandi skóla. Á þeim tíma má segja að Gummi Kalli hafi sjálfur verið kirkjan sem fólk kom og sótti andlega næringu til. Vegna vinsælda hans, og þess trausts sem hann ávann sér, hafa fjölmörg fyrrverandi sóknarbörn hans hér leitað til hans um þjónustu bæði í gleði og sorg.

Eftir að hann kom í Kópavoginn hefur Gumma Kalla tekist að byggja upp einhverja öflugustu sóknarkirkju landsins, Lindakirkju. Auðvitað hefur hann ekki gert það einn en það er einmitt aðal Gumma Kalla að honum tekst alltaf að fá gott fólk til að starfa með sér enda er ákaflega gefandi og skemmtilegt að vinna með honum. Hann brennur fyrir málefnum kirkjunnar en býr líka yfir því umburðarlyndi að hlusta á og virða aðrar skoðanir fólks, oftar en ekki til þess að reyna að nýta þær til að bæta sig og starfið innan kirkjunnar.

Það er mín skoðun og sannfæring að það væri mikið gæfu- og framfaraspor fyrir íslensku þjóðkirkjuna, og reyndar þjóðina alla, ef Guðmundur Karl Brynjarsson yrði kjörinn biskup nú í apríl. Gleymum ekki að kjósa eftir verðleikum en ekki eftir kyni því í því felst hið sanna jafnrétti.

Höfundur er kennari á eftirlaunum.