Allt flug undir 3.500 fetum (um einum km) yfir sjávarmáli innan friðlandsins í Látrabjargi verður óheimilt á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst ár hvert. Þar með talið er flug flugvéla, þyrlna, svifdreka, svifvængja og vélknúinna fisa

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Allt flug undir 3.500 fetum (um einum km) yfir sjávarmáli innan friðlandsins í Látrabjargi verður óheimilt á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst ár hvert. Þar með talið er flug flugvéla, þyrlna, svifdreka, svifvængja og vélknúinna fisa.

Þetta er tillaga að sérreglu um takmörkun á lágflugi yfir bjarginu á varptíma fugla sem birt er í drögum að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið í Látrabjargi sem Umhverfisstofnun (UST) hefur lagt fram til kynningar.

Undirbúningur samstarfshóps að áætluninni og útfærslu á flugbanninu hefur staðið yfir í talsverðan tíma með samráði við m.a. Samgöngustofu, Náttúrufræðistofnun Íslands, landeigendur o.fl.

Tekið er fram að undanskilið banninu verði leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar og annarra stofnana sem sinna lögbundnum rannsóknum og eftirlitshlutverki með náttúru- og menningarminjum. Í umfjöllun UST segir að Samgöngustofa hafi fallist á útfærslu stofnunarinnar á flugbanninu.

Notkun dróna óheimil

Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu. Er Látrabjarg flokkað sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði og var svæðið friðlýst sem friðland í mars árið 2021.

Friðlandið er um 37 ferkílómetrar að stærð og nær verndarsvæðið bæði yfir land og haf. Sá hluti Látrabjargs sem er innan friðlýsta svæðisins er um 9,7 kílómetra langur og nær friðlandið einnig til hafsins allt að tvo kílómetra frá landi.

Nú þegar er bannað að lenda þyrlum í friðlandinu nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Notkun dróna er sömuleiðis óheimil innan þess nema að fengnu leyfi stofnunarinnar samkvæmt friðlýsingarskilmálum.

Fram kemur í gögnum málsins að notkun vélknúinna svifdreka er óheimil á svæðinu.

„Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum flugs á fugla hafa leitt í ljós að flugumsvif geta haft neikvæð áhrif á varpárangur á viðkvæmasta tíma fugla,“ segir í tillögunni.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar á meðan undirbúningsvinnan stóð yfir kom fram að tímabilið sem lagt hefur verið upp með í tillögunni miðist „við það þegar svartfugl fer að safnast saman undir bjarginu og þar til síðustu fuglarnir yfirgefa bjargið. Flestir fuglar eru farnir úr björgunum síðsumars en rita og fýll eru lengur að sinna varpi og getur það teygt sig fram í september,“ segir NÍ.

Gagnrýndu bannið

Þegar vinna var komin í gang við stjórnunar- og verndaráætlunina á árinu 2022 hafði Samgöngustofa samráð við notendur loftrýmis og aðra hagaðila um tillöguna um takmarkanir á flugumferð við Látrabjarg. Af tíu umsögnum sem bárust var í níu lagst eindregið gegn frekari takmörkunum.

Í gögnum málsins og umfjöllun um umsagnirnar kemur fram að almennt töldu þeir sem gagnrýndu bannið að frekari rökstuðning vantaði, á borð við niðurstöður rannsókna sem bentu til þess að flugumferð við Látrabjarg gæti haft áhrif á stærð fuglastofnsins en ekki aðrir umhverfisþættir, s.s. önnur umferð, veðurfar eða náttúruleg breyting á aðföngum fugla, og bent var á að varptími fugla í Látrabjargi stæði ekki eins lengi yfir og áformin um takmörkun flugs.

Hættulegt fordæmi

Því var einnig haldið fram að ekki hefði verið sýnt fram á að flugumferð væri orsök fækkunar fugla í bjarginu, líklegra væri að stóraukin för gangandi ferðamanna truflaði fuglalíf. Flugmálafélag Íslands benti m.a. á að til staðar væru sérstök tilmæli í flugmálahandbók um flug í grennd við fuglabjörg.

Þær takmarkanir sem Umhverfisstofnun legði til takmörkuðu frelsi til almannaflugs á Íslandi og gætu reynst hættulegt fordæmi fyrir frekari takmörkunum.

NÍ tók saman ítarlegar niðurstöður úr erlendum rannsóknum um áhrif flugs á fugla og segir að vel þekkt sé að hávaði frá flugvélum og þyrlum sérstaklega geti truflað sjófugla, „jafnvel svo að þeir flæmist úr björgum sem getur leitt til þess að egg og ungar tapist“.