— Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Laxamýri | Það er vissulega ennþá vetur úti því snjó hefur víða kyngt niður undanfarið. Það er ekki beint vorlegt um að litast en samt eru ýmis merki um að vorið sé í nánd. Sól hefur hækkað á lofti og nú er dagurinn orðinn lengri en nóttin

Laxamýri | Það er vissulega ennþá vetur úti því snjó hefur víða kyngt niður undanfarið. Það er ekki beint vorlegt um að litast en samt eru ýmis merki um að vorið sé í nánd. Sól hefur hækkað á lofti og nú er dagurinn orðinn lengri en nóttin.

Á Hólmavaði í Aðaldal er nýlega búið fósturtelja og þá kom í ljós að ærin Hvönn var komin nálægt burði. Ekki leið langur tími uns dró til tíðinda og þann 20. mars sl. fæddist ljómandi fallegur hrútur sem nefndur hefur verið Depill. Hann er mikill gleðigjafi og dafnar mjög vel, enda Hvönn mikil mjólkurær. Líklega líður nokkuð langur tími þar til hann getur farið að bíta gras með móður sinni en hann hoppar og skoppar í krónni og lætur sér vel líka vistin þó inni sé. Og hvað sem veðri og vindum líður þá er virkilega vor í lofti í fjárhúsunum á Hólmavaði.

Á myndinni er Benedikt Kristjánsson bóndi á Hólmavaði með Depil og Hvönn fylgist stolt með.