G. Birgir Gunnlaugsson
G. Birgir Gunnlaugsson
„Það eru 90 sjúklingar í 32 rúmum og það bíða 23 á biðstofunni,“ sagði örmagna hjúkrunarfræðingur innt eftir löngum biðtíma í bráðatilfellum.

G. Birgir Gunnlaugsson

„Það eru 90 sjúklingar í 32 rúmum og það bíða 23 á biðstofunni,“ sagði örmagna hjúkrunarfræðingur innt eftir löngum biðtíma í bráðatilfellum. Þetta er ekki ástandið á bráðamóttöku spítala á Gasa heldur lýsing á ástandinu á einu bráðamóttöku Íslendinga, bráðamóttöku LSH í Fossvogi. Einu sinni var heilbrigðiskerfið okkar með þeim fremstu í heimi en rís varla undir nafni lengur sem slíkt. 4-6 vikna bið er eftir tíma á heilsugæslu, 4-6 mánaða bið eftir tíma hjá sérfræðingi, svo er það bráðamóttakan, þar bíður fólk 5-6 klst. eftir læknisskoðun, oftar en ekki sárþjáð og í lífshættu. Ef um þriðja flokks íbúa er að ræða, þ.e.a.s. eldri borgara, þá má viðkomandi bara bíða, það gerist ekkert, og reiði aðstandenda magnast með hverjum klukkutímanum sem líður.

Forstjóri LSH hefur nýverið hampað sjálfum sér fyrir rekstur LSH, hann sé réttum megin við núllið. Ef ofangreind lýsing á ástandi móttöku sjúklinga á LSH er tekin með í reikninginn ætti að vera ljóst að LSH ræður ekki lengur við verkefni sitt og hefur ekki í nokkurn tíma. Það hlýtur líka að vera spurning hvort ríkið eigi yfirleitt að standa í þessum rekstri þar sem enginn ber ábyrgð, forgangur gengur ekki út á læknisþjónustu heldur að finna pláss, læknar rannsaka eigin verk eða samstarfsfélaga og gagnrýni er annaðhvort nöldur eða dónaskapur.

Þegar við leitum á bráðamóttöku er það til þess að fá læknisþjónustu, ekki til að fá pláss einhvers staðar. Það getur ekki átt að skipta máli hvar í viðkomandi aðstöðu læknar skoða sjúklinga, greiningin getur ekki verið verri fyrir framan hinar heilögu dyr móttökunnar en fyrir innan þær. Allavega geta hjúkrunarfræðingar farið fram fyrir sömu dyr og tekið niður upplýsingar um lífsmörk og blóðprufur. Það er ekkert pláss fyrir innan dyrnar en nóg pláss á biðstofunni, það ætti enginn að þurfa að bíða eftir réttu plássi enda ekki tilgangur komunnar.

Læknavaktin í Austurveri virðist hafa náð að sinna sínu hlutverki, bráðasjúklingar eru metnir strax, sjúklingar sjá sjálfir um að skrá sig inn og biðin er yfirleitt aldrei lengri en tveir tímar eftir læknisþjónustu.

Á bráðamóttöku LSH var tekið við greindu bráðahjartatilfelli frá sjúkrabíl (læknavakt) í gær, og viðkomandi settur á ganginn fyrir framan bráðastofurnar. Ekki settur í mónitor, ekki mæld lífsmörk við komu en hjartalínurit og blóðprufa tekin 50 mínútum síðar. Hinum megin á ganginum var tóm bráðastofa með öllum nauðsynlegum tækjum. Eftir tvo tíma gekk sjúklingurinn út með þeim orðum að hann gæti allt eins drepist hjálparlaust heima hjá sér eins og að gera það á bráðamóttökunni. Sama bráðamóttaka sendi annan bráðveikan sjúkling heim nýlega bara til að fá hann aftur í sjúkrabíl tveimur dögum seinna enn veikari og að sögn lækna mátti ekki tæpara standa að viðkomandi týndi lífi. Starfsfólk er upp til hópa ekkert nema yndislegheitin, og viljinn til betri verka er afar ríkur en því miður ekki getan, annaðhvort vegna „kerfisins“ eða slæmrar stjórnunar.

Forstjóri LSH virðist vera í einhverjum pollýönnuleik og svífa um í sýndarveruleika þegar kemur að því að finna lausnir. Það segir sig sjálft að meðan LSH er „réttum“ megin við núllið að hans mati þarf ekki að finna lausnir. Mér er sagt að helmingur tíma lækna fari í pappírsvinnu, helmingur launakostnaðar spítalans sé vegna stjórnunarkostnaðar og kostnaður við rekstur skrifstofu forstjóra sé á ytri mörkum velsæmis í ljósi ástandsins á spítalanum. Þá er sami maður hróðugur yfir því að milljarða fjárfesting þjóðarinnar í nýjum spítala muni ekki fjölga legurýmum fyrir sjúklinga en búið sé að ráða stjórnendur og fagyfirmenn; starfsfólk en engir sjúklingar. Einhvers staðar hefur einhver misst þráðinn í tilgangi reksturs spítala.

Ríkið hefur margsannað að það er ekki hæft til að reka spítalaþjónustu á Íslandi og færi betur á að bjóða þennan rekstur út til einkaaðila, þar sem einhver ber ábyrgð og metnaður er lagður í að veita sjúklingum sem besta þjónustu. Bráðadeildir mættu vera mun fleiri á landinu, t.d. ábyggilega þrjár á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið þarf að leigja húsnæði undir fráflæði spítalaþjónustunnar þannig að helmingur sjúkrarýma sé ekki upptekinn við eftirmeðferð sem mætti fara fram við aðrar aðstæður. Einhvers staðar hljóta að vera til lausnir, einhvers staðar hlýtur að vera fólk með tilfinningar og ábyrgðarkennd til að taka á þessum vanda strax.

Neyðarkall: Einhver, einhvers staðar, þjóðina vantar læknisþjónustu fyrir bráðveika á Íslandi – strax!

Höfundur er hugbúnaðarsérfræðingur.