Svalbarðsströnd Fuglar hafa komist í feitt þar sem hvalshræið liggur í fjörunni neðan við Neðri-Dálksstaði.
Svalbarðsströnd Fuglar hafa komist í feitt þar sem hvalshræið liggur í fjörunni neðan við Neðri-Dálksstaði. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hræ af hnúfubak hefur síðustu daga velkst um í fjörunni neðan við Neðri-Dálksstaði á Svalbarðsströnd, skammt norðan Svalbarðseyrar. Heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi eystra fékk tilkynningu um hræið um helgina og kom henni áleiðis til lögreglunnar á Akureyrar

Hræ af hnúfubak hefur síðustu daga velkst um í fjörunni neðan við Neðri-Dálksstaði á Svalbarðsströnd, skammt norðan Svalbarðseyrar. Heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi eystra fékk tilkynningu um hræið um helgina og kom henni áleiðis til lögreglunnar á Akureyrar.

Ekki lá fyrir í gær hvort farið yrði á staðinn og hræið urðað, eða náttúran látin hafa sinn gang, eins og Leifur Þorkelsson heilbrigðisfulltrúi orðaði það í samtali við Morgunblaðið. Þegar íbúabyggð eða nærliggjandi matvælaframleiðslu stafi ekki hætta af slíkum hræjum sé yfirleitt ekkert aðhafst.

Mögulega gæti verið um að ræða sama hræ og sást nýverið í fjörunni á Hrísey sunnanverðri. Fékk lögreglan á Akureyri tilkynningu um það 13. mars síðastliðinn. Varðstjóri hjá lögreglunni staðfesti í gær að tilkynning um hræið á Svalbarðsströnd hefði borist en ekki hefði verið tekin ákvörðun hvort brugðist yrði við.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hafði engin tilkynning borist frá sjófarendum um hræið.