Joni Mitchell
Joni Mitchell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlist kanadísku söngkonunnar Joni Mitchell er nú aðgengileg á streymisveitunni Spotify, meira en tveimur árum eftir að hún yfirgaf veituna. Þessu greinir meðal annars Variety frá

Tónlist kanadísku söngkonunnar Joni Mitchell er nú aðgengileg á streymisveitunni Spotify, meira en tveimur árum eftir að hún yfirgaf veituna. Þessu greinir meðal annars Variety frá. Mitchell óskaði eftir því að tónlist hennar yrði fjarlægð af veitunni í kjölfar þess að Spotify gerði einkaréttarsamning við hlaðvarp Joes Rogans, umdeilt hlaðvarp sem var meðal annars sagt dreifa rangfærslum um bóluefni.

Hún fetaði þar í fótspor landa síns Neils Youngs sem óskaði eftir því sama nokkru fyrr. Young sakaði Rogan um rangfærslur um covid og sagði í framhaldinu við Spotify: „Þeir geta fengið Rogan eða Young. Ekki báða.“

Nú er tónlist þeirra beggja aðgengileg á ný eftir að einkaréttarsamningur Spotify við Joe Rogan rann út. Mitchell hefur ekki tjáð sig um endurkomu tónlistar sinnar, en hún kemur viku eftir að Young tilkynnti að hann ætlaði að setja tónlist sína aftur á Spotify.

Hann sagðist hafa tekið ákvörðunina í kjölfar þess að hlaðvarp Joes Rogans er nú aðgengilegt á öðrum streymisveitum, og ekki geti hann tekið tónlist sína af þeim öllum.