Kátir Åge Hareide og reynsluboltarnir Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason léttir í lund á æfingu íslenska liðsins á Tarczynski-leikvanginum í Wroclaw í gær.
Kátir Åge Hareide og reynsluboltarnir Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason léttir í lund á æfingu íslenska liðsins á Tarczynski-leikvanginum í Wroclaw í gær. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allt bendir til þess að Ísland geti teflt fram sínu sterkasta liði í leiknum mikilvæga gegn Úkraínu í kvöld, þegar þjóðirnar mætast í úrslitaleiknum um sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta í Wroclaw í Póllandi

Í Wroclaw

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Allt bendir til þess að Ísland geti teflt fram sínu sterkasta liði í leiknum mikilvæga gegn Úkraínu í kvöld, þegar þjóðirnar mætast í úrslitaleiknum um sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta í Wroclaw í Póllandi.

Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason æfðu báðir með liðinu á keppnisvellinum í gær, þar virtust allir 24 leikmennirnir vera heilir og klárir í slaginn, enda veitir ekki af gegn firnasterku liði Úkraínu.

Mótherjarnir eru hins vegar í óvissu með fyrirliðann sinn, Oleksandr Zinchenko frá Arsenal, sem fór af velli um miðjan síðari hálfleik gegn Bosníu á fimmtudagskvöldið. Serhiy Rebrov þjálfari sagði á fréttamannafundi í gær að ákvörðun um þátttöku hans í leiknum yrði tekin á síðustu stundu en Zinchenko hefur glímt við meiðsli og óvíst var hvort hann gæti spilað tvo leiki með svona stuttu millibili.

Úkraína hefur hins vegar endurheimt reyndan miðjumann, Viktor Tsyhankov, sem missti af leiknum við Bosníu vegna meiðsla.

EM yrði gott tækifæri

Åge Hareide, þjálfari íslenska liðsins, ræddi lengi við fréttamenn eftir æfingu liðsins og sagði þar m.a. að það yrði mikil bylting fyrir íslenskan fótbolta ef liðið næði að vinna Úkraínu og komast á EM.

„Það er bylting fyrir öll lið að komast inn í keppni eins og EM. Þá gefast tækifæri til að vera lengur saman með liðið, þá er hægt að kynnast leikmönnunum betur og vinna í fleiri hlutum. Þegar við getum verið lengi saman með liðið, hjálpar það þjálfara og liði að ná betur saman, og á EM gefst heilmikil samvera.

Leikmenn verða öruggari, því venjulega er mjög stuttur tími til stefnu þegar landslið kemur saman. Að vera á EM er gott tækifæri fyrir okkur til að taka næsta skref, gera liðið betra og eiga möguleika á að ná lengra. Þess vegna er þetta svona mikilvægt.

En auk þess yrði það gríðarleg lyftistöng fyrir íslenskan fótbolta, og líka mikilvægt fyrir Ísland sem þjóð,“ sagði Åge Hareide.

Ferð bara til að vinna

Sverrir Ingi Ingason, varafyrirliði Íslands, sagði á fundinum að leikmenn íslenska liðsins myndu mæta fullir sjálfstrausts til leiks.

„Þetta er úrslitaleikur og þú ferð bara inn í svoleiðis leik til að vinna. Það er ekkert annað í boði. Við viljum spila á Evrópumótinu í sumar, rétt eins og þeir. Við höfum alla trú á því að við getum farið út á völlinn á morgun og náð í hagstæð úrslit sem við þurfum til að komast á Evrópumótið í sumar,“ sagði Sverrir Ingi.

Spurður hversu mikið það myndi þýða fyrir hann og liðsfélaga hans að komast á EM svaraði Sverrir:

„Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fara tvisvar á stórmót og þetta er eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í. Það myndi gefa þessu landsliði svakalega mikið að fá slíka reynslu.

Þetta er frábært tækifæri, við erum einum leik frá EM, og ég get lofað að við munum leggja allt í sölurnar til að ná okkar markmiðum. Sem fótboltamaður veistu aldrei hve mörg slík tækifæri þú færð. Þetta gæti verið mitt síðasta tækifæri til að komast með landsliðinu á stórmót, og líka fyrir aðra í liðinu.

Margir aðrir eru rétt að byrja og við erum staðráðnir í að nýta tækifærið. Þetta eru stærstu stundir fótboltamanns, að spila fyrir þjóð sína á stærsta sviðinu,“ sagði Sverrir sem lék með Íslandi á EM 2016 og HM 2018 en er nú í stærra hlutverki sem einn af reyndustu leikmönnum liðsins.

Óánægðir með Bosníuleik

Serhiy Rebrov þjálfari og Roman Yaremchuk framherji Úkraínu ræddu einnig við fréttamenn fyrir æfingu úkraínska liðsins í Wroclaw.

Auðheyrt var á Rebrov að Úkraínumenn voru ósáttir við frammistöðu sína í undanúrslitaleiknum gegn Bosníu á fimmtudagskvöldið þar sem þeir knúðu fram sigur, 2:1, með tveimur mörkum undir lokin.

Þeir eru með afar vel mannað lið og Rebrov sagði að þeir væru staðráðnir í að sýna sitt rétta andlit í leiknum gegn Íslandi í kvöld. Úkraína er með níu leikmenn sem spila í þremur af sterkustu deildum Evrópu og er því sigurstranglegri aðilinn í kvöld.

Sigurliðið í kvöld fer í E-riðilinn á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar og leikur fyrsta leikinn gegn Rúmeníu á sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní, í München.

Síðan er leikið gegn Slóvakíu 22. júní í Düsseldorf og loks 26. júní gegn Belgíu í Stuttgart en tvö efstu liðin komast áfram og lið í þriðja sæti getur líka farið í sextán liða úrslitin.