[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson, leikmaður Minden í Þýskalandi, varð fyrir því óláni að slíta hásin um liðna helgi og er tímabili hans því lokið. Bjarni Ófeigur, sem samdi í síðustu viku við KA til þriggja ára og gengur til liðs…

Handknattleiksmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson, leikmaður Minden í Þýskalandi, varð fyrir því óláni að slíta hásin um liðna helgi og er tímabili hans því lokið. Bjarni Ófeigur, sem samdi í síðustu viku við KA til þriggja ára og gengur til liðs við félagið í sumar, verður frá í að minnsta kosti hálft ár vegna meiðslanna. Samkvæmt Handball World gengst hann undir skurðaðgerð í vikunni.

Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest hefur ákveðið að áfrýja úrskurði ensku úrvalsdeildarinnar um að draga fjögur stig af karlaliðinu. Óháð nefnd úrskurðaði í síðustu viku að Forest hefði brotið gegn reglum úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri. Eftir stigafrádráttinn er Forest í 18. sæti, fallsæti, með 21 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Ekki var farið rétt með markahæstu menn Vals í sigrinum á Steaua Búkarest í Evrópubikar karla í handbolta í blaðinu í gær. Benedikt Gunnar Óskarsson og Úlfar Páll Monsi Þórðarson voru markahæstir með 7 mörk hvor og Magnús Óli Magnússon skoraði 6. Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot.

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Ashley Cole var í gær vígður inn í frægðarhöll ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla. Cole er 22. leikmaðurinn sem er vígður inn í frægðarhöll deildarinnar og sá fyrsti á þessu ári. Tveir til viðbótar munu bætast við síðar á árinu og stendur valið á milli 15 leikmanna.

Spænski knattspyrnumaðurinn Koke hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Atlético Madríd. Koke samdi til sumarsins 2025 með möguleika á árs framlengingu.

Brasilíska knattspyrnumanninum Dani Alves hefur verið sleppt lausum úr fangelsi í Barcelona eftir að trygging upp á eina milljón evra, tæplega 150 milljónir íslenskra króna, var greidd. Alves var í síðasta mánuði dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga konu á skemmtistað í Barcelona undir lok árs 2022. Hann áfrýjaði dómnum og verður laus meðan á áfrýjunarferlinu stendur.