Sigurður Hálfdanarson fæddist í Reykjavík 9. júlí 1948. Hann andaðist á heimili sínu í Reykjavík 29. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Arína Margrét Sigurðardóttir skrifstofumaður, f. 10. september 1919, d. 16. apríl 1999, og Hálfdan Helgason stórkaupmaður, f. 24. mars 1908, d. 25. janúar 1972. Bróðir Sigurðar er Gunnar Helgi Hálfdanarson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Landsbankans, f. 14. apríl 1951, eiginkona hans er Gunnhildur Lýðsdóttir, f. 12. júní 1952.

Fyrrverandi eiginkona Sigurðar er Ólöf Ingibjörg Jónsdóttir flugfreyja, f. 26. maí 1943. Dætur þeirra eru Margrét Sigurðardóttir lögfræðingur, f. 4. apríl 1967, og Gunnþórunn Sigurðardóttir, húð- og kynsjúkdómalæknir, f. 7. september 1975. Eiginmaður Margrétar er Jón Vilberg Guðjónsson lögfræðingur, f. 5. nóvember 1962. Dætur þeirra eru Ólöf Ingibjörg, f. 26. október 1999, Sigrún Ásta, f. 5. desember 2004, og Þórunn Margrét, f. 21. júní 2007. Sambýlismaður Gunnþórunnar er Bergþór Björnsson skurðlæknir, f. 20. desember 1975. Börn þeirra eru Hilda Ósk, f. 20. nóvember 2007, og Viktor Máni, f. 23. nóvember 2013.

Sambýliskona Sigurðar síðastliðin 20 ár var Jónína G. Ragnhildur Ívarsdóttir, f 3. júní 1944, d. 1. október 2023.

Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík en eyddi jafnframt mörgum sumrum hjá móðurömmu sinni Halldóru Ingimundardóttur og seinni manni hennar Þorsteini Sigurðssyni bónda, á Enni við Blönduós. Að loknu hefðbundnu grunnnámi og gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla verknáms tók hann verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands árið 1968 og lauk stúdentsprófi frá sama skóla 1970.

Sigurður tók við rekstri H. Helgasonar hf. árið 1972, við fráfall föður síns, og rak fyrirtækið um árabil. Síðar starfaði hann sem skrifstofustjóri og sölumaður.

Sigurður var frá unglingsaldri mikill áhugamaður um líkamsrækt og heilbrigðan lífsstíl. Hann var á verðlaunapalli á fyrsta opinbera lyftingamótinu sem haldið var á Íslandi snemma á sjötta áratug síðustu aldar. Árið 1964 stofnaði hann ásamt fleirum Æfingaklúbbinn við Grettisgötu.

Útför hans hefur farið fram.

Elsku pabbi, tengdapabbi og Siggi afi.

Brottför þín í sumarlandið var skyndileg og óvænt. Sárt er að hafa ekki náð að kveðjast fyrir hina hinstu för og er fjölmargt ósagt og ólokið.

Minningarnar um þann tíma sem við áttum samleið spanna allt að hálfa öld. Sérstaklega eru okkur systrunum kærar frásagnir pabba meðal annars af lífinu í sveitinni á Enni og minningar úr fjölskylduferðum við Miðjarðarhafið þar sem við lærðum að meta framandi sjávarfang matreitt að hætti innfæddra. Pabbi var okkar fyrirmynd í hollum lífsstíl og hreinu fæði en þau málefni voru honum einkar hugleikin. En hann var líka sælkeri og ef súkkulaði var til á heimilinu gat það horfið fljótt og var þá ekki við okkur systurnar að sakast. Pabbi var frumkvöðull í líkamsrækt og kraftlyftingum áður en líkamsræktarstöðvar urðu til hér á landi. Hann var einn af stofnendum og formaður Æfingaklúbbsins við Grettisgötu sem var stofnaður 1964. Brennandi áhugi pabba á heimspeki og sögu, ásamt áherslu hans á mikilvægi íslenskrar tungu, hafði mikil áhrif á okkur og var uppspretta margra eftirminnilegra umræðna og aðstoðar á námsárunum.

Við tengdasynir Sigga höfðum ekki þekkt hann lengi þegar okkur varð ljóst að þarna var maður sem lét flest málefni sig varða. Hann las mikið og voru æviágrip þekktra einstaklinga, innlendra sem erlenda, í sérstöku uppáhaldi sem endurspeglaði sterka þörf hans til að skilja málefni líðandi stundar. Málfar hans var vandað og vel ígrundað, og oft fylgt eftir með viðeigandi máltæki. Engin mál voru „krufin til mergjar“ enda er máltækið „að brjóta til mergjar“ sprottið úr því hvernig hægt er að nálgast innviði beina. Þetta var bara eitt af fjölmörgum dæmum um þá skýru hugsun sem einkenndi Sigga.

Siggi afi var áhugasamur um hagi barnabarna sinna og fylgdist náið með viðfangsefnum þeirra. Hann var mikill dýravinur og átti kisur. Áhugi hans á íslenskri tungu og mikilvægi þess að beita tungumálinu rétt endurspeglaðist í því að hann gaf barnabörnunum oft bækur. Hann fór með vísur og gaf heilræði sem voru mörg hver eilítið háfleyg. Minnisstæð og minna háfleyg orðatillæki voru honum einnig ofarlega í huga, svo sem „lífið er núna“ og „mundu að njóta en ekki þjóta“. Við ætlum öll að muna þau.

Margrét (Maggý) og Jón, Gunnþórunn (Gunna) og Bergþór (Beggi)og barnabörn.

Fyrir rúmum tuttugu og sjö árum kynntist ég ungri stúlku, sem varð tengdadóttir mín. Hún er yngri dóttir Sigurðar Hálfdanarsonar og honum kynntist ég áður en langt um leið. Myndarlegum, ákveðnum, íhugulum manni sem áhugavert var að spjalla við. Spjallstundir okkar Sigurðar urðu fleiri í gegnum árin þótt oft væri langt á milli funda, enda vík á milli vina. Alltaf var gaman að hitta hann, fróðan um menn og þó enn frekar málefni, bæði hérlendis og erlendis; heimsborgara með rætur í húnvetnskri sveit. Sigurður var óþreytandi í leit að gagnlegri þekkingu og ég minnist sérstaklega heimsóknar til hans og sambýliskonu hans sem þá hafði lamast. Umhyggja hans og elja við að bæta líf hennar var aðdáunarverð. Oftast vissi ég þó af Sigurði vegna samskipta hans við afabörnin, sem hann sýndi mikinn áhuga og umhyggju þótt þau búi erlendis. Afmælis- og jólagjafir hans til þeirra vitnuðu um að hann fylgdist með aldri þeirra, þroska og áhugamálum og lagði sig fram um að leggja sitt af mörkum til þess að auka þekkingu þeirra og víðsýni. Ég vil sérstaklega þakka Sigurði Hálfdanarsyni fyrir framlag hans til þess að styrkja íslenskar rætur sameiginlegra barnabarna okkar og sendi aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Álfhildur Ólafsdóttir.