Höskuldur Ólafsson fæddist 7. maí 1927 á Borðeyri. Hann lést á Landspítalanum Hringbraut 9. mars 2024.

Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson trésmíðameistari, f. 12. maí 1892, d. 30. desember 1967, og Elínborg Katrín Sveinsdóttir símstjóri, f. 12. október 1897, d. 11. maí 1955. Foreldrar Elínborgar voru séra Sveinn Guðmundsson, f. 13. janúar 1896, d. 2. mars 1942, og Ingibjörg Jónasdóttir, f. 21. júní 1866, d. 30. apríl 1956. Höskuldur ólst upp hjá móðurforeldrum sínum í Árnesi í Trékyllisvík.

Systkini Höskuldar eru: Yngvi (látinn), Björgvin (látinn), Sveinn (látinn), Þórey Hrefna (látin), Jónas (látinn), Sylvía (látin), Ingibjörg, Sigríður Ingibjörg (látin), Ólöf (látin), María, Guðrún (látin). Systkini Höskuldar samfeðra eru: Kjartan (látinn), Hrefna (lést barnung) og Þórir (látinn).

Höskuldur kvæntist 20. desember 1953 Þorgerði Þorvarðardóttur, f. 5. nóvember 1925, d. 3. júlí 1981. Synir Höskuldar og Þorgerðar eru: 1) Þorvarður Geir, f. 15. september 1954, d. 15. júlí 2019. Hann eignaðist fjögur börn, þau eru: Egill, f. 27. mars 1978, Magnús Már, f. 16. september 1984, Þorgerður Ýr, f. 13. mars 1990, og Höskuldur Agnar, f. 1. október 1992. 2) Ólafur Yngvi, f. 18. mars 1958. 3) Höskuldur Þór, f. 20. apríl 1965. Hann á tvö börn; Magdalenu Margréti, f. 28. júlí 2003, og Maríu, f. 20. október 2003.

Sambýliskona Höskuldar var Ingibjörg Eyþórsdóttir, f. 13. nóvember 1926, d. 4. janúar 2021. Börn hennar eru Jóhanna Jónasdóttir, f. 11. september 1950, Jónas H. Jónasson, f. 16. október 1951, Edda S. Jónasdóttir, f. 29. apríl 1953, og Maríus Þ. Jónasson, f. 17. maí 1965.

Höskuldur tók stúdentspróf frá MR árið 1947 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1953. Að loknu því prófi starfaði hann sem fulltrúi hjá verktökum á Keflavíkurflugvelli en var ráðinn sparisjóðsstjóri Verzlunarsparisjóðsins við stofnun hans árið 1956. Þegar Verzlunarbanki Íslands var stofnaður árið 1961 varð Höskuldur fyrsti bankastjórinn og gegndi starfinu allt til ársins 1989, þegar bankinn sameinaðist Útvegsbankanum, Iðnaðarbankanum og Alþýðubankanum við stofnun Íslandsbanka. Síðustu árin, þar til Höskuldur fór á eftirlaun, var hann framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Verzlunarbankans.

Höskuldur átti sæti í ýmsum nefndum, m.a. varnarmálanefnd, undirbúningsnefnd fyrir þjóðhátíðina 1974, stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkur, var endurskoðandi bæjarreikninga Reykjavíkur og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á háskólaárum sínum var hann formaður Stúdentaráðs og síðar var hann formaður landsmálafélagsins Varðar.

Útför Höskuldar verður gerð frá Neskirkju í dag, 26. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Lágvær smellur í stefnuljósinu rýfur þögnina í gula Benzinum, ég sit á upphækkuðum púðanum í aftursætinu og afi beygir rólega inn Einimelinn. Enginn asi á neinu. Ekkert útvarp í gangi, aðeins lágvært vélarhljóðið og umferðarniður. Þannig er fyrsta óljósa minning mín af afa, bankastjóranum.

Samverustundum fækkaði eftir að ég fluttist til Vestmannaeyja ungur að árum. Ég reyndi þó alltaf að gera mér ferð niður í Verzlunarbanka til fundar á skrifstofu afa þegar ég átti leið til Reykjavíkur. Hann gaf sér undantekningarlaust tíma til að hitta mig þegar mig bar að garði og kvaddi ávallt með þéttu handabandi sem innihélt fimm þúsund króna seðil.

Þrátt fyrir að samverustundirnar hafi ekki verið margar um tíma var ég vel meðvitaður um þennan merkilega mann sem mér þótti afi alltaf vera. Þannig æxlaðist það líka að ég ákvað að ganga sama menntaveginn, kannski meðvitað enda afi fyrirmynd í svo mörgu.

Þrátt fyrr að hafa innleitt tölvukerfi í bankann, einna fyrstur manna, átti afi aldrei tölvu eða snjallsíma heima við. Þetta kom ekki að sök enda var hann ætíð stálminnugur og fylgdist vel með því sem var í gangi hverju sinni. Hægt var að fletta upp í honum með nánast hvað sem var. Alltaf mátti til að mynda búast við símtali frá afa þegar afmælisdaga fjölskyldumeðlima bar upp.

Í seinni tíð fór ég æ oftar að venja komu mínar í Efstaleitið, sérstaklega eftir að pabbi féll frá og eftir að hann bjó þar einn eftir að Ingibjörg kvaddi. Ég hellti mér upp á kaffi, fékk mér Sæmund í sparifötunum og við sátum saman og fórum yfir það sem helst var á baugi í þjóðfélaginu eða hjá mér og mínum. Hann bjó einn fram á síðasta dag og lét vel af sér, fór sér hægar eftir því sem árin liðu en kvartaði aldrei, enda nægjusamur með eindæmum. Matar- og fréttatímar áttu sinn stað og dagarnir liðu í sínum föstu skorðum.

Þrátt fyrir áföll á lífsleiðinni má vera að afi hafi bognað en aldrei brotnaði hann. Hann stóð þétt að baki sínu fólki og traustur var hann. Ekkert vandamál var þannig vaxið að ekki fyndist lausn.

Þetta rólyndi og þessi einskæra lífsgleði fylgdi honum alltaf. Afi var áhugasamur um sína nánustu og gat glaðst með þegar hann heyrði af afrekum afkomendanna og stoltur var hann. Honum þótti alltaf vænt um að koma til okkar í Granaskjólið í mat, naut þess að spjalla við börnin og fylgdist ávallt vel með hvað þau voru að fást við hverju sinni.

Við fjölskyldan kveðjum með söknuði þennan magnaða mann og höldum minningu hans á lífi með því að kjósa nú alveg örugglega Sjálfstæðisflokkinn í næstu alþingiskosningum.

Egill Þorvarðarson.

Guð blessi minningu Höskuldar Ólafssonar sem nú hefur lokið lífsgöngu sinni og blessaðar séu hlýjar minningar um mætan mann.

Mikil gæfa var það okkar fjölskyldum þegar móðir okkar Ingibjörg Árný Eyþórsdóttir hóf sambúð með Höskuldi Ólafssyni sem við nú kveðjum með söknuði. Höskuldur var trúaður og æðrulaus maður og var einstakur vinur vina sinna. Hann ræktaði trú sína alla tíð frá því hann var barnungur í Árnesi á Ströndum og fékk þar það veganesti sem mótaði hann fyrir lífið.

Höskuldur og mamma áttu einstakt samband sem byggðist á gagnkvæmri virðingu. Þau eru nú sameinuð á ný á þeim stað sem trú þeirra hefur borið þau til.

Höskuldur varð órjúfanlegur hluti af fjölskyldu okkar árið 1987 þegar hann og móðir okkar hófu sambúð í Efstaleiti 12. Á þeim tíma vorum við systkin öll orðin fullorðin og höfðum stofnað okkar heimili. En Höskuldur og fjölskylda hans hafði eiginlega verið hluti af okkar lífi frá árinu 1964 gegnum vinskap foreldra okkar sem var afskaplega kær. Heimili Höskuldar og mömmu í Efstaleitinu varð strax heimili þar sem börn þeirra beggja og afkomendur voru alltaf velkomin og alltaf var hægt að ganga að því vísu að í Efstaleitinu var tekið á móti okkur með einhverju að bíta í meðan mamma lifði og hafði heilsu til að sinna fólkinu sínu. Hún stússaði í eldhúsinu og reiddi fram kræsingar meðan Höskuldur ræddi málin við þá sem bar að garði og skipti þá engu hvort voru börn eða fullorðnir – alltaf var hann tilbúinn í samræður og setti sig inn í málin. Samband Höskuldar og mömmu var afar farsælt, þau ferðuðust víða um heiminn saman. Hann reyndist móður okkar mikið vel eftir að hún veiktist og fyrir hans festu hafði hún tök á að vera lengi heima. Eftir fráfall hennar kom vel í ljós hvern mann Höskuldur hafði að geyma. Sami myndarbragur var á heimilinu allt til hans síðasta dags.

Að hafa fengið að kynnast Höskuldi og upplifa þá rækt sem hann alla tíð lagði við okkur hefur gert okkur að betra fólki og reynst fjölskyldum okkar ómetanlegt. Hvernig hann rækti afahlutverkið gagnvart börnunum var alla tíð aðdáunarvert og margar stundir áttu þau með honum sem alltaf var boðinn og búinn að svara þeirra spurningum. Skipti þá engu hvað spurt var um, svörin komu, en stundum þurfti hann bara aðeins að hugsa, nú eða fletta upp í bók, og þá kom svarið vel ígrundað og börnin stóðu stundum agndofa yfir því að Höskuldur var kominn með svarið áður en þau voru búin að „gúgla“.

Við systkin og fjölskyldur okkar kveðjum elskulegan Höskuld Ólafsson með söknuði og minnumst hans tryggleika og trúfestu – Guð blessi ykkur.

Jóhanna Jónasdóttir, Jónas H. Jónasson,
Edda S. Jónasdóttir, Maríus Þór Jónasson
og fjölskyldur.

Elsta minning mín um Höskuld, móðurbróður minn, er ökuferð austur á Kambabrún. Það var eitthvað spennandi sem frændi vildi sýna okkur. Ég á fimmta ári með strákunum hans í aftursætinu.

Reykjarmökkur stóð upp úr sjónum. Þarna var hafið eldgos á hafsbotni, atburður sem Höskuldur taldi augljóslega mikils um vert að við guttarnir upplifðum. Þessi sýn greyptist í huga barnsins og af frænda að skýra fyrir okkur þetta undur.

Hann var aðeins 28 ára þegar hann var ráðinn fyrsti sparisjóðsstjóri Verzlunarsparisjóðsins. Á ársafmæli sjóðsins þakkaði stjórnin honum í blaðafrétt að tekist hefði á svo skömmum tíma að gera hann að traustri og þýðingarmikilli peningastofnun. Svo vel dafnaði sjóðurinn að fjórum árum eftir stofnun samþykkti Alþingi lög um að breyta honum í Verzlunarbanka Íslands. Honum stýrði Höskuldur frá upphafi og allt þar til hann varð hluti Íslandsbanka með samruna fjögurra banka.

Eftir að ég hóf störf á Stöð 2 heyrði ég talað um hann sem guðföður stöðvarinnar, hugtak sem Jón Óttar notaði í bók sinni. Höskuldur mat tugþúsundir skuldbindandi áskrifta góða tryggingu meðan aðrir bankastjórar voru áhugalausir og heimtuðu bara veð í steinsteypu. Bankinn tapaði engu á þeim viðskiptum og þjóðin fékk Stöð 2.

Út á við naut Höskuldur virðingar og trausts. Og enn frekar innan stórfjölskyldunnar. Hann var eiginlega ættarhöfðinginn sem öllum þótti gott að leita til. Djúpvitur, ráðagóður, glaðlyndur og hlýr. En það var líka lærdómsríkt fyrir menntaskólastrák að koma á skrifstofu hans til að slá sitt fyrsta bankalán: „Nei, Kiddi minn. Ég hef þá reglu að lána ekki frændum mínum. Þú verður að fara í annan banka.“

Það er þó ekki myndin af virðulegum bankastjóranum sem er efst í huga heldur glaðvær fjölskyldufaðirinn, í strákaafmælum á Einimelnum eða í jólaboðum í húsi Kristjáns Sveinssonar á Öldugötunni. Að dansa í kringum jólatréð á aðfangadagskvöld, með eiginkonu sinni, Þorgerði, og sonunum þremur. Dynjandi hlátrasköll hans við spilaborðið á annan í jólum. Bráðskemmtilegar rökræður um pólitíkina þar sem Gunna frænka lagði sig fram um að tala niður íhaldið án þess að fá honum haggað. Rökin á báða bóga flutt með bröndurum. Þá var mikið hlegið.

En það voru einnig dimmir tímar. Hann missti Þorgerði aðeins 55 ára gamla. Svo kom Ingibjörg inn í líf hans og það birti á ný. Annað áfall fyrir fimm árum þegar elsti sonurinn, Þorvarður, lést. Fyrir þremur árum þurfti hann svo að kveðja Ingibjörgu.

Í starfi ættarmótsnefndar afkomenda prestshjónanna í Árnesi á Ströndum, séra Sveins og Ingibjargar, var Höskuldur lykilmaður. Þar nutum við þess að hann hafði ungur verið sendur í fóstur til afa síns og ömmu á prestssetrinu og alist þar upp. Með sínu stálminni og frásagnarlist gat hann því miðlað sögum af lífi forfeðra í Trékyllisvík á fyrri hluta síðustu aldar og af síldarævintýri í Ingólfsfirði.

Um leið og við söknum og syrgjum fögnum við innihaldsríkum æviferli og þeim stundum sem við fengum að njóta með þessum merka höfðingja, sem kveður saddur lífdaga.

Kristján Már Unnarsson.

Heiðursmanninum Höskuldi Ólafssyni kynntist ég ekki fyrr en fyrir u.þ.b. þremur árum þegar við Þurý fluttum í það góða hús Breiðablik í Efstaleiti og urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast þar afar gott sambýlisfólk, þ. á m. Höskuld. Þeir vita sem reynt hafa að ekki er sjálfsagt þegar aldur færist yfir, gamla húsið kvatt og flutt í fjölbýli á ný, að þar gangi allt upp, því oft þarf ekki nema einn gikk í veiðistöð til sæluhvarfs við vistaskipti. Sú aldeilis ekki raunin hvað okkur varðar.

Heppnin okkar að í næstu íbúð við okkar bjó einn af frumbyggjum Breiðabliks, reyndar sá eini úr þeim hópi sem enn bjó í húsinu, bankastjórinn aldni, Höskuldur í Verslunarbankanum. Þar hafði ég reyndar hitt hann í Bankastræti 5, eins og margir húsbyggjendur fyrri tíma, yfirvegaðan, ákveðinn en skilningsríkan, og átti eingöngu góðar minningar af samskiptum við hann.

En nú þegar við hittumst mörgum áratugum síðar hér á glæsigöngum Breiðabliks bauð hann okkur velkomin í húsið, og ég fann strax streyma frá honum hlýju og langaði að kynnast honum betur. Höskuldur hélt sig að mestu inni í fallegri íbúð sinni, og þar hittumst við alloft, og ræddum málin, og hann kom til okkar Þurýjar í kaffi. Hún fann þessa sömu tilfinningu og ég, og við höfðum oft orð á því hve gefandi og ánægjulegt væri að spjalla við hann. Þrátt fyrir að Höskuldur væri að ná 97 ára aldri var hann svo með á nótum á öllum sviðum að unun var við hann að ræða. Spyrði ég hann um eitthvað frá liðinni tíð stóð aldrei á svari og oft mundi hann fólk og fyrirbæri mun betur en ég. Fróðari fór ég ætíð úr sérhverri heimsókn til hans.

Við leiðarlok finn ég til mikils saknaðar, finn hvað mér þótti hreinlega vænt um þennan sómamann, og skynja hve mikið við höfum misst. Heyri reyndar á öllum þeim sem ég hef rætt við hér í húsinu eftir fráfall Höskuldar að allir bera honum vel söguna og sakna hans.

En nú er íbúð hans myrkvuð. Við Þurý sendum Ólafi, Höskuldi yngra og allri fjölskyldu Höskuldar Ólafssonar hugheilar samhryggðarkveðjur – minning um hann sveipuð heiðríkju í okkar huga.

Óli H. Þórðarson.