Jakob Þórarinsson fæddist 14. júní 1936 á Litla-Steinsvaði, Kirkjubæjarsókn, N-Múl. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 14. mars 2024.

Jakob var sonur hjónanna Þórarins Jóels Bjarnasonar, f. 2. júní 1891, og Valgerðar Ketilsdóttur, f. 1. apríl 1901. Jakob var yngstur fimm systkina. Systur hans eru: Laufey, f. 1916, d. 1952, Lilja Hallgerður, f. 1927, d. 2020, Steinvör, f. 1929, d. 2010, og Jónína, f. 1932.

Hinn 12. júní 1960 kvæntist Jakob Erlu Sigríði Sigurðardóttur, f. 22. apríl 1939, frá Árteigi. Foreldrar hennar voru Sigurður Pálsson, f. 2. október 1914, d. 16. október 1997, og Rakel Steinvör Kristjánsdóttir, f. 9. júlí 1919, d. 6. febrúar 2005.

Börn Jakobs og Erlu Sigríðar eru: 1) Rakel Hulda, f. 9. janúar 1961. Hulda á tvö börn, Ágúst Snæ og Heiðrúnu Erlu, úr fyrra sambandi og er faðir þeirra Hjörtur Friðriksson. Maki Huldu er Magnús Þorbergur Þórarinsson, f. 28. júní 1957. 2) Valgeir, f. 11. ágúst 1962, kvæntur Lilju Ólöfu Þórhallsdóttur, f. 11. maí 1966. Börn þeirra eru Aron Þór, Andri og Valgeir. 3) Sigurður Hlíðar, f. 18. mars 1964, kvæntur Helgu Sturlaugsdóttur, f. 6. júlí 1967. Sigurður á tvo syni úr fyrra sambandi, Eyþór Bjarna og Kristófer Nökkva og er móðir þeirra Halla Eyþórsdóttir. Sigurður og Helga eiga saman einn son, Sturlaug. Helga á úr fyrra sambandi einn son, Óðin Snæ. 4) Laufey Steingerður, f. 29. ágúst 1967. Laufey á þrjú börn úr fyrra sambandi, Jakob Loga, Sigvalda Helga og Dagnýju Erlu, og er faðir þeirra Gunnar Rögnvaldsson. 5) Þórarinn Hróar, f. 13. ágúst 1968, kvæntur Ragnheiði Bergdísi Bryndísardóttur, f. 18. desember 1968. Börn þeirra eru Bryndís Þóra og Jakob Jóel.

Jakob ólst upp á Hallfreðarstaðahjáleigu ásamt foreldrum sínum og systkinum en tók ungur við búskap þar. Hann starfaði sem bóndi alla tíð ásamt því að vera sjálfstætt starfandi vörubílstjóri en þar að auki sinnti hann ýmsum öðrum störfum samhliða búskapnum. Jakob og Erla fluttu búferlum frá Hallfreðarstaðahjáleigu vorið 2020 til Egilsstaða.

Útför Jakobs fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 26. mars 2024, klukkan 14.

Jakob í Hjáleigu, fyrrverandi tengdafaðir minn, var einstaklega vel gerður maður til orðs og æðis. Fremur lágvaxinn, fínlegur en samsvaraði sér vel. Öll framganga einkenndist af hógværð, svo fjarri því að trana sér fram, skoraðist þó hvergi undan ábyrgð. Málrómurinn þægilegur og hann fylgdi málum frekar eftir af festu en með hávaða og ávallt var hlustað þegar hann hafði orðið.

Eins og margra af hans kynslóð var skólaganga æskunnar stutt, vinna og skyldur kölluðu þar sem hann missti föður sinn ungur. Fágætir hæfileikar sem honum voru gefnir áttu því sannarlega eftir að nýtast á lífsleiðinni. Dugnaður og samviskusemi eru eiginleikar sem alltaf skila árangri en þegar þeir fara saman við fádæma handlagni, útsjónarsemi og áreiðanleika, verður til afburðafólk eins og Jakob. Þessum mannkostum hefur hann svo sannarlega skilað áfram til afkomendanna.

Stór fjölskylda kallaði á vinnu af bæ með búskapnum og lengst af var Jakob við akstur eða á vinnuvélum þar sem vinnuveitendur gátu gengið að því vísu að hlutirnir væru í lagi enda Jakob mikið snyrtimenni bæði innan- og utanhúss og í umgengni við tæki.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna var búið ekki stórt og um líkt leyti var farið í niðurskurð vegna riðu í Hróarstungunni. Nýr stofn kom úr Reykhólasveit, ljómandi hópur sem Jakob ræktaði fram af alúð, hárglöggur og natinn skepnumaður.

Þegar fór að hægjast um í vinnu utan heimilis þá fengu þau Erla tíma til að sinna hugðarefnum sínum, keyptu sér húsbíl og nutu þess að ferðast. Oft dvöldu þau um hríð hjá okkur í Skagafirði og leystu m.a. af í búskapnum á Miklabæ vetrarpart auk þess sem Erla var ráðskona hér á Löngumýri tvö sumur. Um líkt leyti spurði ég hestaferðafélaga mína hvort ég mætti bjóða Jakobi með í ferð sem fyrirhuguð var um sumarið, það var auðsótt. Þar með hófst nýr kafli hjá Jakobi. Í nánast áratug var hann með okkur í ferðum yfir Kjöl, á Melrakkasléttuna, Löngufjörur og víðar. Eftirminnileg er ferð á hestum um Hróarstungu og Hérað þar sem við nutum einstakrar gestrisni í Háleigu og leiðsagnar heimamanna. Jakob hafði auðvitað alist upp með hestum en útreiðar af þessu tagi voru honum nýlunda. Það sem annað reyndist honum auðvelt að tileinka sér, mjög hestfær og frábær ferðafélagi. Kannski ekki að undra þar sem hann bar nafn séra Jakobs Benediktssonar sem var kunnur hestamaður.

Ég mun aldrei geta fullþakkað þá gæfu að kynnast þeim Jakobi og Erlu og fjölskyldu þeirra, svo vel hafa þau reynst mér og börnunum mínum. Eftir að við Laufey skildum og þær mæðgur voru búsettar fyrir austan hafði Dagný ávallt innhlaup hjá afa sínum og ömmu þar sem hún naut þeirrar hlýju, barngæsku og tíma sem eru svo mikilvægt veganesti á mótunarárum. Síðustu misseri voru Jakobi og fjölskyldunni erfið. Hann var tilbúinn að kveðja og nú er hann leystur frá þrautum.

Elsku Erla, Laufey, Hulda, Siggi, Valgeir, Tóti og fjölskyldur. Í gullakistunum eigum við bjartar myndir og leiftur frá liðinni tíð sem halda munu minningu heiðursmannsins Jakobs í Hjáleigu á lofti. Guð blessi hann og ykkur öll.

Gunnar Rögnvaldsson.