Sumarbústaður Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson í hlutverkum sínum í Nokkur augnablik um nótt eftir Adolf Smára Unnarsson. Auk þeirra leika í sjónvarpsmyndinni þau Björn Thors og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.
Sumarbústaður Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson í hlutverkum sínum í Nokkur augnablik um nótt eftir Adolf Smára Unnarsson. Auk þeirra leika í sjónvarpsmyndinni þau Björn Thors og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska sjónvarpsmyndin Nokkur augnablik um nótt verður frumsýnd á RÚV á páskadag. Ólafur Egill Egilsson leikstýrir myndinni, sem gerist á fullkomnu sumarkvöldi í fullkomnum sumarbústað. Þar kynnir Björk nýja kærastann fyrir Ragnhildi, stóru systur …

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Íslenska sjónvarpsmyndin Nokkur augnablik um nótt verður frumsýnd á RÚV á páskadag. Ólafur Egill Egilsson leikstýrir myndinni, sem gerist á fullkomnu sumarkvöldi í fullkomnum sumarbústað. Þar kynnir Björk nýja kærastann fyrir Ragnhildi, stóru systur sinni, og manninum hennar en þær systur hafa farið ólíkar leiðir í lífinu. Það stefnir allt í afslappaða og fullkomna kvöldstund en stundum þarf ekki nema nokkur augnablik og allt breytist. Myndin er byggð á samnefndu leikriti eftir Adolf Smára Unnarsson sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu haustið 2022.

Verkið er fyrsta leikstjórnarverkefni Ólafs Egils á kvikmyndasviðinu. Hann hefur áður verið aðstoðarleikstjóri, komið að handritsgerð og auðvitað leikið. Aðspurður hvernig hafi verið að fóta sig á nýjum vettvangi segir Ólafur Egill það hafa verið frábæra upplifun.

„Ég er auðvitað með frábæra leikara, við þekkjum efnið og vorum búin að vinna það með aðferðum leikhússins. Myndin gengur ekki mikið út á einhverjar sprengjur í bílum eða flókna kvikmyndagerð en það reynir þeim mun meira á leikinn, samleik og undirtexta og svoleiðis. Mín vinna í þessu tilviki var því alls ekkert ólík því sem ég geri í leikhúsinu.“

Byggist á vinnu í leikhúsinu

Hann bætir þá við að ákveðin áskorun hafi verið fólgin í því hvernig unnið er á mismunandi hátt á sviðunum tveimur. Við gerð kvikmyndarinnar var tímaröðin brotin upp og sagan unnin aftur á bak, þar sem endirinn var tekinn upp fyrstur. Það er ólíkt því sem gerist í leikhúsinu þar sem sagan fer í gang og allt er leikið í tímaröð. Ólafur Egill segir leikstjórann því þurfa að vera öðruvísi vakandi fyrir því hvernig hlutunum vindur fram.

Ferlið við að færa verkið af leiksviðinu á kvikmyndasviðið var ekki mjög flókið segir hann. „Það var fyrst og fremst hægt vegna þess við bjuggum að þeirri vinnu sem við höfðum unnið í leikhúsinu.“ Myndin var gerð á stuttum tíma og með litlum tilkostnaði. Litla aðlögun þurfti þar sem verkið byggist að mestu á samskiptum milli sögupersóna.

Eins og áður hefur komið fram er kvikmyndin sú fyrsta sem Ólafur Egill leikstýrir. Spurður segist hann vel geta hugsað sér að gera meira af bíó og sjónvarpi. Hann bætir þá við að eðli verkefnisins og form þess sé mikilvægt. „Mér finnst mikilvægt að við gerum líka minni myndir fyrir sjónvarpið okkar, sem þá er hægt að blása til með stuttum fyrirvara og taka fyrir það efni sem efst er á baugi.“

Hann segir kosti við að búa til kvikmyndir með minna sniði. Það sé langt ferli að búa til stóra bíómynd, ferli sem er mælt í árum frekar en mánuðum. Með minni myndum sé hægt að hafa styttri fyrirvara og þær geti verið meira núgildandi.

Þverskurður af samfélaginu

Ólafur Egill segir verkefni lík þessu nokkuð sem hann væri til í að gera meira af. „Myndir sem fjalla um okkur, okkar samfélag og raunveruleika, nánast í rauntíma,“ segir hann. Þá segir hann samfélagið, sem hefur verið tiltölulega einsleitt, vera að breytast. Það sé að myndast meiri skipting á milli fólks og Adolf Smára hafi tekist vel að fjalla um það í þessu verki.

„Sagan er á einhvern hátt þverskurður af okkar samfélagi og þeim breytingum sem við erum að upplifa. Hún kemur inn á þá gjá sem er að myndast á milli fólks í okkar samfélagi, milli þeirra sem eiga eitthvað og þeirra sem vilja eiga.“

Kostur að þekkja verkið

Ólafur Egill segir það ótvíræðan kost að hafa fengið að setja verkið upp í leikhúsi og þekkja það inn og út þegar komið var að tökum. Oft sé erfiðara í kvikmyndagerð að finna tíma til að æfa almennilega en hópurinn gat tekið það úr í kvikmyndagerðina.

„Það eru einmitt svona verkefni sem heilla mig. Þar sem maður vinnur náið með litlum hópi leikara og sögusviðið er afmarkað og þétt. Fókusinn færist þá meira á persónusköpunina og leikinn frekar en frásaganaraðferðir kvikmyndavélarinnar.“