Bæjarlistamaður Frá útnefningunni. Nele Marie Beitelstein fjölmenningarfulltrúi Norðurþings, Einar Óli og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri.
Bæjarlistamaður Frá útnefningunni. Nele Marie Beitelstein fjölmenningarfulltrúi Norðurþings, Einar Óli og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Einar Óli Ólafsson, bæjarlistamaður Norðurþings 2023, hefur skipulagt tónlistarhátíðina Hnoðra, sem verður á Húsavík laugardaginn 30. mars nk. Fyrirmyndina sækir hann til Aldrei fór ég suður, árlegrar páskahátíðar á Ísafirði, og er frítt inn

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Einar Óli Ólafsson, bæjarlistamaður Norðurþings 2023, hefur skipulagt tónlistarhátíðina Hnoðra, sem verður á Húsavík laugardaginn 30. mars nk. Fyrirmyndina sækir hann til Aldrei fór ég suður, árlegrar páskahátíðar á Ísafirði, og er frítt inn. „Fyrirtæki á Húsavík styrkja hátíðina og í raun væri ekki hægt að halda hana án framlags þeirra,“ segir Einar Óli.

Útnefningunni bæjarlistamaður Norðurþings fylgir sú skylda að halda að minnsta kosti eina tónleika. Einar Óli segist hafa viljað sýna þakklæti með því að gera eitthvað meira. „Í stað þess að vera sjálfur með tónleika langaði mig til að gera eitthvað sem lifir áfram en planið er að Hnoðri verði árviss viðburður um páskana.“

Stemning

Einar Óli er ættaður frá Ísafirði og bjó þar sem unglingur. „Ég elska hátíðina Aldrei fór ég suður en ég hef ekki komist vestur um páska í mörg ár og auðveldara var að búa til eitthvað nýtt hérna.“ Hann er í sambúð með Helgu Gunnarsdóttur og eiga þau Rafnar Nóa, tæplega átta mánaða son.

Hátíðin hefst klukkan 18 á laugardag og stendur til miðnættis. Hún verður í skemmu við hliðina á Heimamönnum ehf. á Vallholtsvegi og Einar Óli hefur engar áhyggjur af veðri. „Þó að það sé brjálað veður fylgir því ákveðin stemning eins og menn þekkja frá Ísafirði en við spilum auðvitað inni.“

Fram koma listamennirnir KUSK & Óviti, Hinrik Hólmfríðarson, Rúnar Eff, Einar Óli, Ari Orra, Stefán Elí, Tonnatak, Davíð Helgi og Haffi Hjálmars. Kynnar verða Jónas Þór og Arnþór.

„Ég legg áherslu á að vera með listamenn frá Norðurlandi og frumsamið efni með einhverjum undantekningum,“ segir Einar Óli um valið. Listamennirnir flytji eigið efni og kynnarnir sprelli inn á milli.

Einar Óli verður 31 árs í næsta mánuði. Hann er í hlutastarfi í Tónlistarskóla Húsavíkur og kennir þar upptökutækni og lagasmíðar. Hann vinnur jafnframt mikið með fötluðum í Félagsþjónustu Norðurþings. Hann spilar jöfnun höndum á píanó og gítar og byrjaði að semja lög fyrir alvöru þegar hann var um tvítugt en kom fyrst fram opinberlega 24 ára. „Fyrsta giggið var mjög stórt skref og þá varð ég háður tónlistinni, en áður var ég feiminn og leið ekki vel með að sýna öðrum hvað ég væri að gera.“

Einar Óli gaf út fyrstu plötu sína, Mind Like a Maze, 2021, nokkur lög hafa komið frá honum síðan og hann gerir ráð fyrir að senda frá sér tvær smáskífur á árinu. Hann tók þátt í Idol-keppninni á Stöð 2 í fyrra og segir það hafa verið ákveðna reynslu. „Það var skemmtilegt ævintýri, þótt það hafi endað eins og það endaði, en miklu meira gott en slæmt kom út úr þátttökunni.“ Í því sambandi nefnir hann meðal annars keppni sem hann skipulagði með Idol-ívafi á Instragram eftir að hann féll úr hinni keppninni. „Ég fór reyndar aðeins fram úr mér en þetta var mjög skemmtilegt.“