Áfram er barist en ekki til úrslita

Rússar urðu fyrir miklu áfalli um helgina þegar um 140 féllu í hryðjuverkaárás Íslamska ríkisins í Moskvu.

Þrátt fyrir að bandaríska leyniþjónustan hafi varað við að árás kynni að vera yfirvofandi virtust rússnesk yfirvöld kæra sig kollótt. Viðbrögðin svo léleg að varnarviðbúnaður virðist í molum og leyniþjónusturnar allar lítils virði.

Vladímír Pútín gefur til kynna að Úkraína hafi verið með í ráðum, þó ekkert bendi til þess. Það er tvíeggjað sverð, því þá virðist innrásin í Úkraínu misráðin og stendur harði maðurinn í Kreml undir nafni ef sjálf Moskva er ekki öruggari en þetta?

Hryðjuverkið í Moskvu er þó ekki síður óþægileg áminning – fyrir fleiri en Rússa – um að ógn íslamismans er engan veginn úr sögunni.

Í Vestur-Evrópu virðast menn taka ógnina alvarlega, en viðbrögðin eru blendnari vestanhafs. Hugsanlega af því að ríkisstjórn Bidens veit upp á sig skömmina, jafnvel Joe Biden sjálfur, hver veit?

Það var nefnilega með einhliða brotthvarfi Bandaríkjastjórnar frá Afganistan, sem talibanar og Íslamska ríkið fengu svigrúm til þess að vakna og vaxa á ný til nýrra ódæða.

Hér er um að ræða víðtæka þróun í heimsmálum, þar sem kalt stríð er aftur hafið milli stórvelda. Vantar þó ekki heitu stríðin, en stórveldin virðast orðin áhugalaus um að útkljá þau; að annar hafi sigur og hinn játi sig sigraðan. Er það þó forsenda friðar og þess að hafist sé handa við nýja framtíð. Því ella lýkur stríðunum aldrei og menn halda dauðahaldi í fortíðina.

Bandaríkjastjórn hvetur Ísrael til þess að leggja niður vopnin og sigrast ekki á hryðjuverkahreyfingunni Hamas. Eins styður hún Úkraínu en þó ekki þannig að úrslitum valdi og kvartar undan því að árásir Úkraínu hækki heimsmarkaðsverð á olíu! Og Rússum er fyrir sitt leyti sama hvernig gengur í Úkraínu, hratt eða hægt.

Það eru stríð á ís í nýju köldu stríði, sem kannski hentar að sinni harðstjóranum í Moskvu og frambjóðandanum í Washington. En þau henta ekki heimsfriðnum til lengdar og kjötkvarnirnar hætta ekki að mala.