Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, segir að það sé stórt áfall að áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði hætt eftir 1. apríl en Vegagerðin hefur ákveðið að framlengja ekki samning við Flugfélagið Erni um flugið

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, segir að það sé stórt áfall að áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði hætt eftir 1. apríl en Vegagerðin hefur ákveðið að framlengja ekki samning við Flugfélagið Erni um flugið. Í gærmorgun komu Aðalsteinn sem formaður stéttarfélagsins og fleiri hagsmunaaðilar norðan heiða saman á fundi með fulltrúum flugfélagsins til að leita leiða fyrir áframhaldandi flugsamgöngur.

„Við hittumst á fundi fyrir hádegi í dag, fórum yfir stöðuna og erum að kanna ákveðna möguleika en eins og staðan er núna þá verður flugi hætt eftir páska,“ sagði Aðalsteinn í gær.

Hann segir að Framsýn hafi allt frá 2012 komið að því með Flugfélaginu Erni að byggja upp þessa flugleið í góðu samstafi, sem hafi skilað því að farþegum hafi fjölgað jafnt og þétt. „Auðvitað hafa komið upp sérstakar aðstæður eins og þegar var verið að byggja upp PCC á Bakka og á Þeistareykjum. Auðvitað rauk farþegafjöldinn þá upp og eftir covid hefur hann verið að ná sér aftur upp en eftir ákveðnar breytingar hjá flugfélaginu hefur verið dregið úr tíðni og ekki verið sami flugvélakostur og verið hefur,“ segir hann.

Þessi flugleið standi þó ekki undir sér ein og óstudd og nú þurfi á ríkisstuðningi að halda rétt eins og á stöðum á borð við Höfn, Gjögur, Bíldudal, Vopnafjörð, Þórshöfn og Grímsey. Eftir mikinn þrýsting frá heimamönnum sl. haust fékkst stuðningur við flugleiðina til Húsavíkur en heimamenn hafi í mörg ár barist fyrir því að fá sæti við sama borð og aðrar flugleiðir.

Aðalsteinn segir áætlunarflugið milli Húsavíkur og Reykjavíkur mjög stórt hagsmunamál og ekki séu allir í þeirri stöðu að geta ekið landshorna á milli. „Við erum líka að vinna fyrir fólk sem er veikt og fyrir aldraða, sem hafa fagnað sérstaklega þeim lífsgæðum sem fylgja því að hafa flug hér á Húsavík sem er með fyrsta flokks flugvöll,“ segir hann. „Það er búið að segja að þetta sé búið en við erum ekki búin að gefast upp,“ segir hann. omfr@mbl.is