[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný íbúð sem kostaði 35 milljónir kr. árið 2015 hefði átt að kosta 54 milljónir kr. í dag samkvæmt byggingarvísitölunni, en ekki 82 milljónir kr.

Sigurður Ingólfsson

Á árinu 2022 fjölgaði íbúum hér á landi um 11.520 samkvæmt Hagstofu Íslands og samkvæmt níu mánaða talningu stofunnar fyrir árið 2023 fer íbúafjölgunin á árinu 2023 yfir 12.000.

Meðaltal fjölda íbúa í hverri íbúð í landinu er 2,44 einstaklingar og samkvæmt því hefði þurft tæplega 5.000 viðbótaríbúðir hvort árið til að mæta þeirri fjölgun, eða alls um 10.000 íbúðir.

Samkvæmt HMS fjölgaði íbúðum um 4.722 árið 2022 og 3.079 árið 2023.

Nýjustu upplýsingar HMS segja að til viðbótar þurfi að klára um 33% fleiri íbúðir til að mæta förgun á íbúðum í landinu.

Alls hefði því þurft að byggja um 13.300 íbúðir á þessum tveimur árum til að mæta íbúafjölguninni í landinu. Fullbúnum (skráðum) íbúðum fjölgaði hins vegar um 7.801 á þessum árum. Íbúðaskorturinn jókst því í staðinn um 5.500 íbúðir á tímabilinu.

Mat Hannars var að það hefði skort um 3.000 íbúðir í ársbyrjun 2022 og er skorturinn því nú alls um 8.500 íbúðir.

Bæta má við þennan fjölda íbúðum fyrir íbúa Grindavíkur sem óvænt þurfa á nýju húsnæði að halda og þar bætast við 1.000 til 1.500 íbúðir.

Til að mæta þessari aukningu setti Seðlabankinn á okurvesti sem hann nefnir stýrivexti. Þeim er beint gegn þeim sem skulduðu peninga í ársbyrjun 2022 m.a. vegna íbúðakaupa. Með því náði bankinn þeim árangri m.a. að hirða peninga þeirra sem höfðu keypt íbúð árin á undan og áttu að fara í vexti og afborganir af lánum fyrir íbúðakaupunum. Og til viðbótar annað eins vegna okurvaxta Seðlabankans. Þessir aðilar áttu þannig ekki um annað að velja en að færa sig yfir í verðtryggð lán sem lækkuðu mánaðargreiðslurnar. Með því er vaxtakostnaði (kallað verðbætur og vextir) bætt við höfuðstól lána þeirra og mun koma í veg fyrir að þeir eignist nokkuð í íbúð sinni næsta áratuginn og kosta þá tvöfalt eða þrefalt verð íbúðarinnar í viðbót. Þetta er eignaupptaka sem gerð er í þágu lánveitenda og bitnar harðast á þeim sem þurftu að taka hæstu lánin við íbúðakaup sín, þ.e. þeim sem minnst eiga.

Þetta er ljótur leikur.

Að auki sendi Seðlabankinn unga fólkið okkar, sem hafði ætlað að kaupa sér íbúð, heim til mömmu og pabba, þar sem það gat ekki fjárfest í húsnæði á þessum okurvöxtum.

Þetta fólk mun mæta á markaðinn síðar til að kaupa sér húsnæði og þá verður aftur veisla hjá seljendum íbúða, veisla sem kaupendurnir hafa ekki beðið um og er engum til góða, allra síst þjóðfélaginu í heild.

Ótrúlegur hagnaður við sölu íbúða – ótrúlegt stjórnleysi

Á meðfylgjandi línuriti sést hvernig verð á íbúðum hefur breyst árlega sl. níu ár og hvernig byggingarkostnaður hefur breyst samkvæmt upplýsingum Hannars ehf. og hvernig byggingarvísitalan hefur breyst á sama tíma.

Til samanburðar eru líka launavísitalan og neysluverðsvísitalan.

Þarna blasir við ótrúleg mynd af því sem hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi á þessu níu ára tímabili. Fólk hlýtur að spyrja sig af hverju þetta hefur verið látið viðgangast og hvort þetta hafi verið með ásetningi eða að þeir sem stjórna þessum málum hafi ekki áttað sig á þróuninni.

Ef borin er saman þróun íbúðaverðs og byggingarvísitölu þá hefur íbúðaverð hækkað um 135% á þessum níu árum á meðan byggingarvísitalan hækkaði um 55%.

Það þýðir að sá sem þurfti að leggja út 35 milljónir til að kaupa sér íbúð árið 2015 hefði átt að geta keypt sér íbúð fyrir 54 milljónir í dag samkvæmt byggingarvísitölunni. Hann þyrfti hins vegar að leggja út 82 milljónir í dag samkvæmt þessum breytingum.

Sé byggingarvísitalan marktæk í þessum samanburði þá hafa þeir sem stóðu að byggingu og sölu sams konar íbúðar árið 2024 hagnast um 28 milljónir króna aukalega.

Miðað við 5.000 íbúðir á ári þessi upphæð alls 140 milljarðar kr.

Í samræmi við upplýsingar Hannars ehf. (módel 11) er þessi upphæð þó nær 70 milljörðum króna á ári sem gerir yfir 200 milljarða króna þau þrjú ár sem þetta ástand hefur viðgengist. Sé miðað við byggingarvísitöluna eru þetta ekki 200 milljarðar heldur 400 milljarðar.

Það hefði verið betra fyrir þjóðfélagið að verja þessari fjárhæð á annan hátt.

Með aðstoð þeirra sem stjórna þessum málum í þjóðfélaginu hafa ákveðnir aðilar þannig getað náð til sín þessum verðmætum á kostnað þeirra sem vilja eða þurfa að koma þaki yfir höfuðið. Þessir aðilar hafa ekki þurft að stofna til verkfalla til þess að ná til sín þessum verðmætum eða að mæta til ríkissáttasemjara til að semja um þau.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hannars ehf.