Samningur Theódór Ragnar Gíslason og Benedikt Gíslason.
Samningur Theódór Ragnar Gíslason og Benedikt Gíslason.
Arion banki hefur gert samning við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland sem felur í sér aðgang að hugbúnaði villuveiðigáttar fyrirtækisins. Samningurinn kveður á um að öryggissérfræðingar Defend Iceland hermi netárásir hakkara og árásarhópa í því…

Arion banki hefur gert samning við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland sem felur í sér aðgang að hugbúnaði villuveiðigáttar fyrirtækisins. Samningurinn kveður á um að öryggissérfræðingar Defend Iceland hermi netárásir hakkara og árásarhópa í því skyni að finna veikleika í kerfum bankans, svo að hægt sé að lagfæra þá áður en þeir valda alvarlegum skaða. Greint var frá þessu á heimasíðu bankans í gær.

Þá segir að nýleg dæmi sýni að hart sé sótt að fyrirtækjum á netinu. Tölvuafbrotamenn finni veikleika eða villu í net-, tölvu- og hugbúnaðarkerfum og nýti sér þá til að brjótast inn og ná stjórn á kerfunum. Markmiðið sé að ná stjórn á hugbúnaði kerfanna, taka niður vefi eða komast yfir stafræn gögn og halda þeim í gíslingu þar til fórnarlömb árásanna greiða lausnargjald fyrir gögnin. Með þátttöku sinni vilji bankinn leggja sitt af mörkum til að styðja almennt við netöryggi á Íslandi.

„Öryggismál eru einn mikilvægasti þátturinn í okkar starfsemi og þjónustu. Til að tryggja öryggi gagna viðskiptavina okkar og verjast netárásum nýtum við meðal annars forvirkar öryggisráðstafanir. Það er því einstaklega ánægjulegt að stofna til samstarfs við Defend Iceland sem býður upp á slíkar ráðstafanir og mun efla þann þátt í okkar öryggisráðstöfunum. Defend Iceland gegnir mikilvægu hlutverki hér á landi þegar kemur að netöryggisþjónustu og auknu viðnámi fyrirtækja almennt gegn netárásum,“ segir Benedikt Gíslason forstjóri Arion banka á vef bankans.