Plastpokar Innsetning Sæmundar Þórs vakti athygli en hann notaði m.a. Bónuspoka sem hann festi í alla glugga.
Plastpokar Innsetning Sæmundar Þórs vakti athygli en hann notaði m.a. Bónuspoka sem hann festi í alla glugga. — Morgunblaðið/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlistasafnið Af hverju er Ísland svona fátækt? ★★★★½ Sæmundur Þór Helgason sýndi ný verk í samtali við verk úr safneign eftir Ástu Ólafsdóttur, Bjarka Bragason, Daða Guðbjörnsson, Erling Klingenberg, Geoffrey Hendricks, G.Erlu, Hildi Hákonardóttur, Írisi Elfu Friðriksdóttur, John Cage, Níels Hafstein, Rúnu Þorkelsdóttur, Snorra Ásmundsson, Steingrím Eyfjörð og Wiolu Ujazdowska. Sýningarstjóri: Odda Júlía Snorradóttir. Sýningunni er lokið, en hún var opin frá 19. janúar til 3. mars 2024.

Myndlist

María Margrét

Jóhannsdóttir

Segja má að nýtt ár hafi farið af stað með krafti í Nýlistasafni Íslands, Nýló. Á sýningunni Af hverju er Ísland svona fátækt? er íslenskt samfélag tekið til skoðunar út frá fátækt og neyslumenningu.

Listamaðurinn Sæmundur Þór Helgason setur sig í spor rannsóknarblaðamanns. Hann fer í Kringluna í aðdraganda jóla og spyr fólk sem valið er af handahófi þriggja spurninga: Hvað er fátækt? Er fátækt á Íslandi? og loks Hvernig getur Ísland risið upp úr fátækt? Sýningunni er þar með skipt í þrjá kafla með flatskjáum þar sem svörin fá að hljóma í sífellu um sýningarsalinn.

Bleika svínið í öllu sínu veldi

Umgjörð sýningarinnar er lágvöruverðsverslunin Bónus. Verslunin sem kom á sínum tíma eins og stormsveipur í íslenskt verslunarlíf með því að bjóða alltaf lægsta verðið og stillti sér þar með upp sem vini lítilmagnans. Gluggar sýningarsalarins, sem eru fjölmargir og stórir, voru þaktir plastpokum frá Bónus þar sem bleika svínið birtist í öllu sínu veldi. Pokarnir skapa bæði margbreytilega birtu inni í rýminu sem tekur breytingum eftir tíma dags og búa til ákveðinn ramma utan um þema sýningarinnar. Þá hafa skjáirnir verið festir upp á bleikum rörum sem eru einnig í anda verslunarinnar. Það hversu veigamikið hlutverk Bónus fær á sýningunni fær fólk til þess að hugleiða stöðu verslunarinnar í dag. Hefur Bónus villst af leið eða er verslunin enn að veita sama aðhald á markaðnum og áður?

Fátæktin reyndist kærkomin hvíld

Listheimurinn er jafnmóttækilegur fyrir straumum og stefnum líkt og aðrir kimar samfélagsins og undanfarin misseri hafa loftslagsmál og inngilding átt hug og hjörtu allra. Hér blésu því ferskir vindar og var það kærkomin hvíld að fá í þetta sinn að takast á við fátæktina í sinni fjölbreyttu mynd. Málefnið er síður en svo nýtt af nálinni og hefur ef til vill ekki þótt mjög heitt síðustu árin en hér tekst þó að gæða það nýju lífi á frumlegan hátt.

Sæmundur Þór valdi Kringluna sem vettvang rannsóknar sinnar þar sem hún þykir ákveðin táknmynd þeirrar fegruðu ímyndar sem við Íslendingar viljum sýna út á við um velferð og ríkidæmi. Í sýningartextanum segir að með sýningunni sé þetta dregið í efa. Varpað er ljósi á ólíka upplifun fólksins í landinu og mótsagnakenndum skoðunum og raunverulegum vandamálum hversdagsins veitt vægi.

Listaverk sem endurspegla áherslur

Í svörum fólks mátti heyra ýmsar útskýringar á fátækt og upplifun þess. Vissulega væri fátækt til staðar á Íslandi en hún er kannski ekki jafnsýnileg og annars staðar í heiminum. Minnst var á húsnæðismál, stéttaskiptingu og aðrar birtingarmyndir fátæktar. Einn nefndi til dæmis hversu dýrt það er að versla í matinn á Íslandi og tók dæmi um vínber sem kosta um þúsund krónur en þegar betur er að gáð eru þau að mestu leyti mygluð. Þetta svar tónaði síðan við listaverk Írisar Elfu Friðriksdóttur sem sýndi röð vínberjaklasa í ryðgaðri hillu en vínberin hafa í listasögunni verið táknmynd allsnægta og veisluhalda og vínguðinn Bakkus oftar en ekki prýddur vínberjaklösum.

Öll listaverkin á sýningunni endurspegla vel áherslur sýningarinnar. Í þriðja kaflanum sem ber heitið Hvernig getur Ísland risið upp úr fátækt? eru tvö málverk verk eftir Geoffrey Hendricks sem sýna stórbrotinn himin. Annað málverkið er í augnhæð en hitt er staðsett á gagnstæðum vegg efst uppi, gestir þurfa því beinlínis að horfa til himins til að sjá það og tengir það vel við upprisuna sem kaflaheitið vísar í. Er þetta góð leið til þess að nýta sýningarplássið til þess að undirstrika skilaboð sýningar.

Dæmi um töfraheim safneignar

Safneign Nýló er ákaflega áhugaverð og þar leynast ýmsir dýrgripir úr íslenskri samtímalist sem safnað hefur verið af miklum eldmóði í gegnum árin. Hér fáum við að sjá listaverk úr safneign sem Sæmundur Þór og Odda Júlía Snorradóttir sýningarstjóri hafa valið af kostgæfni. Hér fengum við að sjá listaverk eftir Ástu Ólafsdóttur, Bjarka Bragason, Daða Guðbjörnsson, Erling Klingenberg, Geoffrey Hendricks, G.Erlu, Hildi Hákonardóttur, Írisi Elfu Friðriksdóttur, John Cage, Níels Hafstein, Rúnu Þorkelsdóttur, Snorra Ásmundsson, Steingrím Eyfjörð og Wiolu Ujazdowska. Listaverk þeirra voru ekki endilega gerð með fátækt í huga en hafa engu að síður sterka vísun í samhengið. Þetta er glöggt dæmi um galdur listaverka. Listaverkin hafa engan endapunkt og taka stöðugt nýjum merkingum. Góð listaverk, gömul og ný, geta því alltaf talað inn í okkar samtíma með áleitnum og áhrifamiklum hætti.

Það er því síður en svo merki um andvaraleysi að draga fram einhver gömul verk úr safneign listasafna heldur einmitt fágætt tækifæri fyrir listunnendur að upplifa verkin á nýjan hátt. Sæmundur Þór og Odda Júlía sýndu okkur þessa töfra listarinnar með því að grafa upp gamlar og nýjar gersemar í geymslum Nýló og blása í þau nýju lífi, fyrir það eiga þau hrós skilið.

Í heild má segja að sýningin hafi verið einstaklega vel heppnuð og áhugaverð innsýn í fjölbreytta safneign Nýlistasafns Íslands á sama tíma og tekist er á við áleitnar spurningar um íslenskt samfélag.