Strætó Fjöldi ábendinga berst árlega vegna ýmissa atvika í vögnum.
Strætó Fjöldi ábendinga berst árlega vegna ýmissa atvika í vögnum.
Alls bárust 3.493 ábendingar til Strætós á síðasta ári, eða nærri tíu að jafnaði á dag, samkvæmt yfirliti sem kynnt var á stjórnarfundi fyrirtækisins nú í mars. Ábendingum fjölgaði frá árinu 2022 þegar þær voru 2.369 talsins

Alls bárust 3.493 ábendingar til Strætós á síðasta ári, eða nærri tíu að jafnaði á dag, samkvæmt yfirliti sem kynnt var á stjórnarfundi fyrirtækisins nú í mars. Ábendingum fjölgaði frá árinu 2022 þegar þær voru 2.369 talsins.

Flestar voru ábendingarnar vegna framkomu vagnstjóra og aksturslags, þess að vagn hefði ekki stöðvað á biðstöð, komið of snemma, of seint eða ekki. Einnig var kvartað yfir því að vagn beið ekki eftir mætingu, vagnstjóri notaði snjallsíma og ástandi vagnsins væri ábótavant. Alls voru skráð 17 slys á farþegum á síðasta ári og samtals 152 tjón á vögnum.

Jóhannes S. Rúnarsson forstjóri Strætós segir við Morgunblaðið að ferðir strætisvagna á ári séu um 600 þúsund og því eigi ábendingarnar við um innan við eitt prósent af þeim. Hann segir að ábendingum hafi fækkað á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins en eftir því sem farþegum fjölgaði á ný hafi þessum ábendingum fjölgað. Síðasta ár var metár í fjölda svonefndra innstiga í vagna sem voru rúmlega 12 milljónir talsins.

Jóhannes segir að þegar ábendingar berist um framkomu eða aksturslag vagnstjóra sé rætt við viðkomandi og í kjölfarið tekin ákvörðun um hvernig brugðist verði við. Einnig sé efni úr myndavélakerfum skoðað til að skera úr um réttmæti ábendinganna. Samtals um 400 vagnstjórar starfa hjá Strætó og undirverktökum, þar af tæplega helmingur hjá Strætó. „Þetta er verkefni hvers dags að ná þessum tölum niður og fá menn til að vinna í anda þjónustustefnunnar,“ segir Jóhannes.