Þorsteinn Óli Sigurðsson rekstrartæknifræðingur fæddist í Reykjavík 9. janúar 1957. Hann lést á heimili sínu, í faðmi fjölskyldunnar, 18. mars 2024.

Foreldrar hans voru Freyja Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 1916, d. 1990, og Sigurður Hjartarson múrari, f. 1926, d. 1996. Þorsteinn Óli var yngstur þriggja systkina sem eru auk hans Kristrún, f. 1950, og Hjörtur, f. 1953.

Eftirlifandi eiginkona er Ingileif Sigfúsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 14. október 1958. Foreldrar hennar voru Guðrún Aðalsteinsdóttir húsfreyja, f. 1924, d. 1977, og Sigfús Jónsson skrifstofumaður, f. 1917, d. 1979.

Ingileif og Þorsteinn Óli hófu búskap árið 1979 og giftu sig 31.12. 1981. Börn þeirra eru: 1) Arnar, f. 4. desember 1980, maki Hrund Sigurðardóttir, f. 1983. Dætur þeirra eru: Dagbjört, f. 2004, Kolbrún, f. 2012, og Freyja, f. 2016. 2) Bjarki, f. 4. janúar 1985, maki Laura Carolina Acosta Gomez, f. 1982. Börn þeirra eru: Paulo Mateo, f. 2007, Baltasar Óli, f. 2012, Aron Breki, f. 2016, og Maríanna Sól, f. 2021. 3) Árni Freyr, f. 3. ágúst 1991, maki Chanté Sherese Sandiford, f. 1990. 4) Rakel, f. 21. janúar 1994, unnusti Viktor Ómarsson, f. 1990.

Þorsteinn Óli lauk 2. stigi í vélstjórn frá Vélskóla Íslands og tæknifræði frá Tækniskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í rekstrartæknifræði í Noregi á árunum 1982 til 1984. Að loknu námi helgaði hann sig fyrst og fremst verkefnum tengdum sjávarútvegi, þá helst við hönnun, tæknilausnir og sölu á tæknibúnaði tengdum fiskvinnslu.

Hann var framkvæmdastjóri Jökuls á Raufarhöfn frá 1992 til 1994. Frá 1994 starfaði hann hjá Borgarplasti í nokkur ár, þá hjá Traust hf. Frá 2014 starfaði hann hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum ásamt því að starfa hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar frá 2019.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 26. mars 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn. Ég er búin að sitja fyrir framan skjáinn tímunum saman að reyna að koma orðunum frá mér en ekkert gengur. Í hvert skipti sem ég byrja að skrifa byrja tárin að leka. Það eru engin orð sem geta lýst því hversu mikið ég sakna þín og ég myndi gera allt til þess að fá þig aftur til mín. Hjartað mitt er í þúsund molum og ég veit ekki hvernig ég á að púsla því aftur saman. Þessi dagur kom alltof fljótt, þú áttir að fá miklu fleiri ár en þú fékkst. Þú barðist eins og hetja svo lengi og ég verð ætíð bæði þakklát og stolt af þér fyrir það elsku pabbi minn.

Við áttum svo einstakt samband. Ég var alltaf mikil pabbastelpa og mun alltaf vera það. Ég á svo dýrmætar minningar. Öll skiptin sem við vorum ein heima og þú fórst með mér að leigja spólu og leyfðir mér að kaupa allt nammið sem ég vildi. Þegar við keyrðum fyrir utan Laugardalshöll, stoppuðum bílinn og skrúfuðum niður rúðurnar til að hlusta á tónleika sem þig langaði að fara á. Þegar þú fórst með mig í bíó að sjá Línu Langsokk og keyptir handa mér bingókúlur. Allir bíltúrarnir sem fólu í sér að hlusta á Shakiru, Anastasiu, Deep Purple, Eric Clapton og fleiri tónlistarmenn sem við héldum upp á. Best fannst mér samt að sitja með þér inni í sjónvarpsherbergi að horfa á sjónvarpið saman því mér fannst nærveran þín alltaf best. Við þurftum ekki að segja neitt, við skildum alltaf hvort annað. Ég er að reyna að finna öll réttu orðin til þess að segja hversu mikið ég elska þig og hvernig ég gæti lýst þessu einstaka sambandi sem við áttum en ég virðist ekki geta komið því í orð því það er ólýsanlegt, þú veist hvað ég er að tala um.

Þú varst kletturinn minn, mín stoð og stytta. Ég vissi að ég gat alltaf leitað til þín með hvað sem var. Þú þerraðir tárin mín og fékkst mig alltaf til að brosa sama hvað. Þú varst svo góður, einlægur, með fallegt hjarta og einstaklega fyndinn. Þú ert manneskjan sem ég mun alltaf líta upp til og fyrirmyndin mín í lífinu. Ég er heppin að hafa fengið að kalla þig pabba og ég er stolt að segja að ég sé Þorsteinsdóttir. Ég elska þig svo mikið og mun sakna þín á hverjum einasta degi það sem eftir er.

Rakel Þorsteinsdóttir.

Elsku pabbi.

Ég á svo margar minningar um þig að ég gæti eflaust skrifað heila bók. Í mínum huga eru ákveðin orð sem lýsa þér, hjálpsamur, fyndinn, þrjóskur, heiðarlegur og svo varstu að sjálfsögðu góður pabbi og kunnir að hlusta.

Það var alltaf stutt í húmorinn. Áður en þú kvaddir okkur áttum við samtal þar sem við ræddum um dauðann og hvernig þú myndir vilja hafa jarðarförina þína. Ég spurði þig m.a. hvaða tónlist þú myndir vilja hafa í athöfninni. Þú hafðir mjög gaman af Led Zepplin og lagðir til lagið Stairway to Heaven, en svo eftir smá umhugsun sagðir þú: „Æi, mér er alveg sama, ég á hvort eð er ekki eftir að heyra neitt. Þið megið bara ráða þessu.“ Meira að segja daginn áður en þú fórst vorum við öll inni í svefnherbergi hjá þér að segja þér að loka augunum og reyna að hvílast. Þá allt í einu glenntir þú upp augun og sagðir „Hvernig á ég að geta sofnað með ykkur gónandi á mig?“

Þú varst alltaf til staðar ef ég þurfti aðstoð. Þegar ég eignaðist fyrsta bílinn minn, Mözdu 84 sem ég fékk upp í sumarvinnu, fékk ég aðstoð frá þér við að sprauta hann og gera upp. Þetta verkefni tók marga mánuði. Síðan fór ég að vinna hjá Dominos og bíllinn entist í mánuð þar sem við gleymdum að ryðbæta hann að framan og hjólastellið öðrum megin rifnaði af. Þar með var sá bíll búinn.

Ég er elstur okkar systkina og gat oft verið erfiður og óþekkur og það þurfti að hafa ansi mikið fyrir mér hef ég heyrt. Þegar við vorum að flytja í Logafoldina varst þú eitt sinn að vinna með Adda frænda inni í eldhúsinu að setja upp plötur í loftið. Ég var eins og vanalega að suða um eitthvað og þú máttir ekkert vera að því að aðstoða mig. Ég tók því til minna ráða ca. fimm ára gamall og náði í kúbein sem ég rogaðist svo með inni í eldhús og byrjaði að sveifla því í áttina að þér. Þá runnu á þig tvær grímur og þú byrjaðir að negla plöturnar eins hratt og þú gast. Því næst sveiflaði ég kúbeininu beint í sköflunginn á þér og þú hentist niður af stólnum og á eftir krakkafíflinu. Svo heyrðist bara: „Fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu.“ Þar með var það fyrirgefið. Ef ég hefði gert þetta við Adda frænda þá stæði ég sennilega ekki hér í dag.

Þann örlagaríka dag, 18. mars, daginn sem þú lést mætti ég til ykkar mömmu kl. 9 um morguninn og mamma sagði að það væri gott að ég skyldi hafa komið þar sem hún væri búin að vera að reyna að burðast með þig fram og til baka þar sem þú gast lítið hreyft þig sjálfur. Þér tókst síðan einhvern veginn að fá okkur mömmu og systkinin til að færa þig úr rúminu þínu og fram í stofu þar sem þú vildir leggjast í sófann. Þar lagðist þú og kvaddir okkur stuttu seinna. Ég er sannfærður um að þú vildir draga þinn síðasta andardrátt í sófanum frammi í stað þess að vera inni í svefnherbergi. Hversu þrjóskur getur maður verið ef maður getur frestað dauðanum? Það gerðir þú.

Elsku pabbi, þín verður sárt saknað og eftir situr stórt skarð í fjölskyldunni sem mun taka langan tíma að gróa. Bless elsku pabbi minn, vonandi sjáumst við einhvern tímann aftur.

Þinn

Arnar.

Elsku Þorsteinn Óli tengdafaðir minn er látinn, einungis 67 ára að aldri. Hann háði hetjulega en erfiða baráttu við veikindi síðustu árin sem að lokum höfðu yfirhöndina. Lífið getur verið svo ósanngjarnt og óvægið en aldrei heyrði maður Óla kvarta. Hann tæklaði veikindin eins vel og hann mögulega gat, fór í gegnum alls konar erfiðar hindranir en stóð alltaf keikur.

Ég var 18 ára þegar ég kynntist honum Arnari mínum og kom því snemma inn í fjölskylduna. Ingileif og Óli tóku mér strax opnum örmum og við Arnar bjuggum saman í Logafoldinni í þrjú ár, og þar af eitt ár með hana Dagbjörtu, elstu dóttur okkar. Óli var alltaf mikill afa-kall og það var augljóst hversu vænt honum þótti um allan hópinn sinn. Mér eru mjög minnisstæð skilaboðin sem hann sendi mér þegar Freyja, yngsta dóttir okkar, var nýkomin í heiminn. Þá var hann í burtu vegna vinnu og komst ekki til að sjá hana strax. Hann vildi láta mig vita hversu vænt honum þætti um að líf hans væri fyllt með yndislegum barnabörnum og hversu mikið hann hlakkaði til að koma og hitta litlu fallegu snótina.

Óli var handlagnasti maður sem ég hef kynnst, það virtist ekkert verkefni vera of stórt fyrir hann. Hvort sem það var að endurgera heilu herbergin, hanna og smíða innréttingar, smíða nýjan pall, skipta um alla glugga í húsinu eða múra tröppur fyrir utan húsið, allt virtist leika í höndunum á honum. Hann var líka alltaf til í að aðstoða okkur Arnar þegar á þurfti að halda. Það var t.d. einstaklega traustvekjandi og gott að hafa Óla með okkur þegar við vorum að skoða möguleg kaup á fasteignum hér áður fyrr. Þá kom hann alltaf með gagnlegar ábendingar og góð ráð.

Eitt skipti þegar Ingileif og Óli komu í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn rak Óli augun í nýtt borð sem við vorum með á ganginum hjá okkur. Þetta borð vorum við með í láni frá húsgagnaverslun til að máta og ákveða hvort við vildum kaupa það. Óli sagði strax að hann gæti smíðað svona borð handa okkur, það væri nú lítið mál. Úr varð að við skiluðum borðinu og jólagjöfin það árið var síðan þetta fallega borð sem hefur staðið á ganginum hjá okkur síðan. Það vita allir á heimilinu að þetta er afa-borð og það á að passa sérstaklega vel upp á það. Fyrir ofan borðið hangir svo eitt af listaverkum Óla því ekki nóg með að hann væri einstaklega handlaginn heldur var hann líka góður listmálari. Hann málaði mjög fallegar myndir sem prýða marga veggina hjá fjölskyldumeðlimum og eins í fjölskyldufyrirtækinu okkar, AÞ-Þrif.

Minningarnar eru margar, ferðin saman til New York, Tenerife-ferðirnar og fjölskylduferðin til Flórída árið 2018. Fjölmargar útilegur og sumarbústaðaferðir, öll matarboðin í gegnum árin, samverustundir um hátíðir og margt fleira. Ingileif og Óli náðu að vera hjá okkur um síðustu jól sem var okkur mjög dýrmætt og það munum við Arnar og stelpurnar alltaf vera þakklát fyrir.

Elsku Óli, takk fyrir allt saman.

Þín tengdadóttir,

Hrund.

Elsku afi.

Þú þurftir að fara í gegnum erfitt krabbamein sem þú náðir ekki að læknast af. Við vildum óska að þú hefðir fengið að lifa lengur en til 67 ára, þá hefðum við náð að gera meira skemmtilegt saman. Þrátt fyrir öll veikindin varstu alltaf glaður og alltaf tilbúinn með brandara til að slá á létta strengi. Við eigum margar skemmtilegar minningar saman, eins og þegar við fórum saman til Flórída og Tenerife. Þegar við fengum að gista þá sendi amma þig oft með okkur út í búð að kaupa nammi fyrir kósíkvöld, þú sagðir sko alltaf já við öllu sem við báðum um. Við fórum oft með ykkur ömmu í fjallgöngur, sund, útilegur og sumarbústaðaferðir. Á einu ættarmótinu var ball í íþróttasalnum þar sem við sáum þig í svakalegum gír að dilla þér við tónlistina. Þá var mikið hlegið.

Elsku afi okkar, takk fyrir allar góðu samverustundirnar, við eigum fullt af skemmtilegum minningum sem við geymum í hjarta okkar. Við munum alltaf sakna þín.

Bless elsku afi eða eins og þú sagðir alltaf þegar við vorum litlar:

Bless kex, klukkan sex, kornflex!

Þínar afastelpur,

Dagbjört, Kolbrún og Freyja.

Genginn er góður drengur, en þannig minnist ég Óla eins og hann var ætið nefndur innan fjölskyldu okkar. Traustur, heiðarlegur og hjálpsamur. Óli kom inn í líf okkar systkina á haustmánuðum 1979 þegar Ingileif systir og hann byrjuðu að vera saman. Það samband þróaðist og síðan var gifting og barneignir, en fyrst kom Arnar árið eftir. Alls urðu börnin fjögur, hin Bjarki, Árni Freyr og Rakel.

Óli var afar vinnusamur og féll aldrei verk úr hendi. Hann hafði yndi af smíðum og var alla tíð að bæta og breyta og ber Logafold 129 þess merki að þar hafi hagur maður lagt hönd á plóg. Ef hann var ekki við smíðar þá var hann að mála myndir. Myndir hans eru afar vel gerðar og prýða veggi fólks víða.

Óli átti mikið af verkfærum, tólum og tækjum, og vantaði mann eitthvað var bara að ræða við Óla og fá þau lánuð, eða að Óli reddaði þessu. Óli var afar greiðvikinn.

Óli hafði yndi af útivist og þar nutu hann og Ingileif sín. Ég held að hann hafi gengið á alla fjallstinda í nágrenninu. Þá var hann félagi í gönguklúbbum sem bæði fóru í lengri og styttri ferðir innan- sem utanlands og gengið var á fjallstinda í góðra vina hópi.

Síðustu þrjú árin hafa verið erfið fyrir Óla og aðstandendur, en þá greindist Óli með hvítblæði. Meðferðin og mergskipti í Svíþjóð gengu verulega nærri heilsu Óla og þar hefur Ingileif staðið þétt með manni sínum. Óli virtist aldrei glata lífsviljanum, en einangrun vegna smithættu var honum erfið þar sem fjölskyldan mátti ekki viðhafa mikil og náin samskipti.

Óla verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum.

Kærar kveðjur til systur, barna og barnabarna.

Ríkharður (Rikki) og María.

Ekkert minna en straumhvörf urðu í lífi okkar fyrir rúmum áratug, þegar við hittum góða félaga í 52-fjalla verkefni Ferðafélags Íslands. Úr varð galdur útivistar og fjallamennsku. Í framhaldinu varð til hópur sem haldið hefur vel saman, tengst vinaböndum og gengið hátt og lágt um landið okkar fagra og víðar. Við nefnum okkur Sófista, Samtök óháðra fjallamanna en erum í fjölskyldutengslum við Ferðafélagið og berum mikinn hlýhug til þess. Flest vorum við komin um og yfir fimmtugt, höfum vissulega elst á þeim árum sem liðið hafa en við teljum að andinn hafi yngst ef eitthvað er! Andinn, útivistin og við hvert með öðru, allt þetta mun halda áfram að létta okkur lífið og sporin í óþrjótandi og töfrandi óunnum verkefnum.

Þorsteinn Óli, sem kvaddi okkur fyrir nokkrum dögum, og Ingileif voru og eru hluti af burðarvirki okkar góða hóps; viljug til og rösk í göngu, hvort sem kallið kom frá Sófistum eða litla Öskjuhlíðarhópnum okkar sem stundað hefur heilsuæfingar innanbæjar, ekkert síður eftir krabbameinsgreiningu Þorsteins Óla og erfiða meðferð. Gleði hans og hugur báru okkur líka áfram og eftirminnilegt var þegar við þveruðum Eyjafjallajökul í einmuna veður- og jökulblíðu fyrir frekar stuttu. Enn styttra er síðan við gengum um franska og svissneska Alpa, ægifagra og nálægt guðdóminum eins og Eyjafjallajökull er líka á góðum degi. Auðvitað létu þau sig vanta stöku sinnum; þá helst ef samvistir með fjölskyldu voru á dagskrá, enda fór ekki fram hjá neinum að afa- og ömmuhlutverk voru þessum samhentu hjónum kærkomin og mikilvæg.

Þorsteinn Óli málaði myndir og bauð okkur á myndlistarsýningu. Hann hafði ekki alltaf mörg orð um hlutina, framganga hans einkenndist af lágværð, látleysi, lipurð, húmor og auðmýkt; góð og geislandi áhrif. Við gátum alveg gleymt okkur á göngu með þessum góða manni, hvort sem það var náttúran eða spjall um tónlist og kvikmyndir frá okkar yngri árum; horfðum í kringum okkur, hlustuðum í núinu.

Gegnumheill maður er fallinn frá, vinur og göngufélagi. Ó, hvað við söknum Þorsteins Óla, við Sófistar, félagar og vinir; skarðið er stórt en við göngum áfram á toppa himneskra ævintýra og minnumst hans með Ingileif með okkur.

Haukur og Þóra.

Með söknuði og trega minnumst við Óla sem hefur nú kvatt okkur eftir langa baráttu við illvígan sjúkdóm.

Óli var hugljúfur maður, hæverskur og traustur, hafði góða kímnigáfu, var orðheppinn, ekki endilega margorður, kunni betur við að hlusta og vanda orðræðu sína.

Hann var að auki afar laghentur maður og góður smiður ásamt því að vera prýðis listmálari. Hefur hann málað margar fallegar myndir sem prýða veggi margra heimila. Hann var hagur á tré, smíðaði m.a. hljóðfæri ásamt öðrum nytsömum hlutum. Óli var einnig með eindæmum hjálpsamur og greiðvikinn og það voru ófá verk í gegnum tíðina sem hann gekk í, okkur til aðstoðar.

Við kynntumst Óla fyrir 45 árum er Ingileif kynnti okkur fyrir þessum unga dreng sem hún hafði fallið fyrir. Við sáum strax að valið var virkilega gott, þar fór góður drengur. Mikill samgangur var síðan alla tíð milli okkar og þeirra hjóna. Það voru því margar skemmtilegar stundirnar þar sem setið var yfir kaffi og meðlæti og mál krufin til mergjar, málefni stórfjölskyldunnar rædd og drög voru lögð að ferðalögum, en þau voru Ingileif og Óla afar hugleikin. Ber þar m.a. að nefna ófáar og skemmtilegar útilegurnar með börnin þar sem við hossuðumst um móa og mela í fjölbreyttu veðurfari með fellihýsin í eftirdragi. Þá var gott að geta reitt sig á handlagni Óla ef eitthvað þurfti að lagfæra. Síðar tóku öðru hverju við ferðir til útlanda bæði með og án barna. Ein ferðin var skíðaferð til Ítalíu. Óli var frekar tregur til ferðarinnar, fannst þó gaman, en var fremur óstöðugur í brekkunum þrátt fyrir hetjulega framgöngu. Nei, skíðaíþróttin var ekki fyrir hann. En fyrir allnokkrum árum fengu Óli og Ingileif óbilandi áhuga á að skoða land okkar enn frekar og urðu þátttakendur í gönguhópi sem vílaði ekki fyrir sér fjallgöngur um allt land svo og erlendis. Þau töluðu oft um hópinn sinn og var greinilegt að þar hafði myndast góð vinátta.

Óli og Ingileif voru einstaklega samhent hjón. Þau voru kornung er þau réðust í að byggja sér hús í Grafarvogi. Þau smíðuðu húsið svo að segja frá grunni og óhætt er að segja að þar hafi Óli átt hvern nagla, umhugað um að gera allt sjálfur, enda hörkuduglegur og laghentur. Og börnin urðu fjögur, mannvænleg og dugleg, og barnabörnin orðin sjö. Eftirtektarvert var hversu góður og umburðarlyndur faðir og afi Óli var; ávallt hlýlegur og hvetjandi og þeim góð fyrirmynd. Þau sjá nú eftir föður sínum með harm í hjarta.

Fyrir ríflega þremur árum greindist Óli með hvítblæði og við tók erfið meðferð og ferð til Svíþjóðar, en bróðir hans var merggjafi. Meðferðin gekk vel til að byrja með og sneri Óli til vinnu á tímabilum. En um síðir hófst mikil þrautaganga sem að lokum dró allan mátt úr Óla. Hann kvartaði aldrei. Hann tók veikindum sínum af eðlislægri rósemi og stappaði stáli í aðstandendur. Það er ekki ofsögum sagt að Ingileif stóð eins og klettur við hlið Óla síns og studdi með aðdáunarverðum hætti. Með fráfalli Óla er skarð fyrir skildi. Við kveðjum þig með þakklæti í huga og minnumst þín.

Aðalsteinn og Sólveig.

Það eru nánast 10 ár upp á dag síðan mér barst tölvupóstur frá Þorsteini Óla. Þorvarður Gunnlaugsson, sameiginlegur vinur okkar, hafði þá kynnt Þorstein Óla sem mögulegan verkefnisstjóra við uppbyggingu Vinnslustöðvarinnar á uppsjávarvinnslu sinni. Við hittumst strax í kjölfarið og mánuði seinna var hann farinn að leggja á ráðin um uppbygginguna. Það er skemmst frá að segja að Þorsteinn Óli reyndist okkur frábær liðsmaður í alla staði í þeim verkefnum sem Vinnslustöðin var að leggja í. Hann hafði mikla reynslu frá fyrri störfum sínum sem flest tengdust sjávarútveginum. Hann var sérstaklega hugmyndaríkur, úrræðagóður og hiklaus að stinga upp á nýjum leiðum og lausnum. „Eigum við kannski að gera þetta svona. Ég veit það ekki!“ sagði hann og þar með dúkkaði upp ný hugmynd eða lausn sem honum hafði dottið í hug. Hann var gjörsamlega laus við að vera „besservisser“ eða að hans hugmyndir væru verðmætari en annarra. Hann var einstaklega lausnamiðaður og engin hugmynd var svo vitlaus að hún væri ekki rædd. Það gátu einfaldlega verið nýir góðir vinklar á henni eða að hún setti áður ákveðnar lausnir í nýtt ljós. Þannig var Þorsteinn Óli, einstaklega fær maður, glaðlyndur og þægilegur sem ávann sér traust þeirra sem hann vann með. En hann var ekki bara þægilegur maður heldur úrræðagóður og útsjónarsamur og hafði líka nef fyrir kostnaði og hagkvæmni. Með öllum sínum kostum laðaði hann fram bestu lausnirnar fyrir Vinnslustöðina sem stendur í ævarandi þakkarskuld fyrir vel unnin verk.

Starfsmenn og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar sakna góðs samstarfsmanns og fyrir hönd þeirra færi ég fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurgeir B. Kristgeirsson.

Mig langar til að skrifa nokkur orð um hann Óla, æskuvin minn. Ég ætla að byrja á segja frá síðustu samskiptum okkar Óla en þá gaf hann mér dýrmæta gjöf. Við vorum að tala saman í síma skömmu áður en hann dó. Samtalið gekk vel en svo fór ég að missa hausinn og draga samtalið niður, þá sagði Óli: „Maggi, ég þarf á samtali að halda sem gefur mér jákvæða orku.“ Óli vildi jákvæða orku en það er akkúrat sú orka sem hann gaf alltaf frá sér, jákvæða orku og ró. Ég ætla að hafa þessi orð hans í huga í framtíðinni, leggja áherslu á það jákvæða.

Við Óli kynntumst þegar við vorum fjögra ára, nýfluttir með fjölskyldum okkar í Hvassaleitið sem þá var að byggjast upp. Það mynduðust strax sterk vinabönd enda jafnaldrar og aðeins eitt hús á milli okkar húsa í lengjunni. Óli lýsti reyndar upphafi þessarar vináttu í skemmtilegum pistli á Facebook en hann fór að skrifa mjög skemmtilega pistla þar í veikindunum. Í ljós kom að Óli var góður penni og er gott að eiga þessi skrif hans.

Barndómurinn var skemmtilegur hjá okkur vinunum, við lékum okkur endalaust í „kallaleik“. Ég man þó eins og það hafi gerst í gær þegar þessu tímabili lauk því Óli þroskaðist hratt, bæði andlega og líkamlega. Einn daginn hafði hann ekki gaman af þessum leikjum, hann var kominn á næsta stig, unglingsárin tóku við. Óli fór í skátana og var fljótur að draga mig þangað inn. Það var gott að lifa unglingsárin í skátunum en við höfðum báðir mikið gaman af útvist. Við gengum mikið og fórum í ferðalög, bæði með skátunum og einir. Skátastarfið átti mjög vel við Óla og forystuhæfileikar hans komu vel í ljós þar, hann hafði svo jákvæð og róandi áhrif á fólk. Þarna var Óli farinn að mála og teikna en fljótlega kom í ljós að hann hafði mikla hæfileka á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Næsta tímabil hjá okkur var bílprófið og bílar. Óli hafði reyndar tekið forskot á sæluna og fengið sér skellinöðru þegar hann hafði aldur til, ég var ekki alveg þangað enda hræddur við hávaða. Skömmu fyrir bílpróf vorum við báðir komnir með bíla, Óli með Volvo PV sem var að hans sögn besti bíll sem hafði verið búinn til. Ég var kominn með Volkswagen-bjöllu. Það var sláttur á okkur strákunum þarna. Fljótlega kom í ljós að það átti vel við Óla að gera við bíla og hafði hann gaman af því. Á þessum árum kom Jón Ásgeir inn í líf okkar og gaf sambandinu svolítið nýja vídd.

Svo tóku fullorðinsárin við. Báðir fórum við út í nám, hann fyrr enda þroskaðist hann fyrr. Það er gaman að hugsa til þess að við skrifuðumst á þegar annar hvor okkar var úti í námi. Þarna vorum við búnir að stofna fjölskyldur, báðir giftir hjúkrunarfræðingum. Fórum svo að koma okkur þaki yfir höfuðið og taka virkan þátt í atvinnulífinu. Sambandið var ekki mikið en við héldum alltaf þeim sið að hringja hvor í annan á afmælisdögum okkar.

Hin síðari ár vorum við Óli og Jón búnir að hressa upp á sambandið og farnir að hittast meira. Það voru góðar stundir þar sem Óli var límið í sambandinu með sinni jákvæðni og ró.

Sjáumst síðar, kæri vinur.

Magnús (Maggi).