Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Það getur ekki verið eðlilegt lánaumhverfi að óviðráðanlegir skuldaklafar hlaðist ítrekað á herðar fólks.

Ómar G. Jónsson

Nú þurfa framsýnir stjórnmálamenn, aðilar í samninganefndum og víðar að taka höndum saman og koma hér á raunstefnu til stöðugleika. Góð sýn til verka og aðhalds á ýmsum sviðum er þungamiðja í þeim verkefnapakka.

Þeirri kenningu, sem hefur verið haldið á lofti að háir vextir bæti hag almennings, svipar til umhverfisins fyrir hrun. Margir eru hissa á þessari kenningu, að sjálfsögðu bæta háir vextir hag banka og sterkra sparifjáreigenda en valda eignamissi hjá öðrum. Það getur ekki verið eðlilegt lánaumhverfi að óviðráðanlegir skuldaklafar hlaðist aftur og aftur á herðar fólks þótt með hófsöm lán sé. Vextir hafa verið hækkaðir heldur rösklega sl. ár til að sporna við þenslu í þjóðfélaginu. Væntanlega hefði verið æskilegra að hafa lánahlutfallið lægra til almennra íbúðakaupa og fleiri þátta við lækkun vaxta á sínum tíma. Vaxtalækkunin gaf almennu launafólki bjartsýni til íbúðakaupa, en því miður hækkaði húsnæði samhliða og það verulega. Þegar grynnka fór á óseldu húsnæði var vaxtalækkunin dregin til baka og nú standa margir uppi í miklum greiðsluvanda. Nauðsynlegt er að lækka vexti á ný samhliða gerð kjarasamninga og breyta uppfærslustaðli verðtryggðra lána sem soga til sín allar verðhækkanir hverju nafni sem þær nefnast. Sömu kenningu er haldið á lofti sem fyrr að ekki megi hækka laun láglauna- og millitekjuhópa því þá fari hér allt á hliðina. Á sama tíma heyrist að laun hálaunahópa hafi víða verið hækkuð verulega með ýmsum útfærslum frá síðustu samningum.

Marga undrar að eldri borgarar með lágan lífeyri séu í sama gjalda- og skattastaðli og fólk á besta aldra á háum launum. Eldri námslán þarf að niðurfæra eða afskrifa, t.d. lán sem fengu enga niðurfærslu við hrunið heldur hækkuðu upp úr öllu valdi. Skerpa þarf aðhald á ýmsum sviðum, t.d. varðandi skattskil til samfélagsins og á fleiri sviðum og koma hér á meiri launajöfnuði svo meiri sátt megi ríkja í þjóðfélaginu, ekki að himinn og haf sé á milli launahópa og framfærslugetu fólks.

Margir fengu aðstoð, hundruð milljarða frá ríkinu í covidinu til reksturs og fleiri þátta, en samt eru gjaldþrot nú tíð með þekktum fylgifiskum. Eyddi landinn ekki um 400 milljörðum hér á sama tíma í stað eyðslu erlendis, sem hlýtur að hafa komið mörgum rekstrareiningum til góða.

Auka þarf byggingu hjúkrunarheimila og hagkvæmra íbúða fyrir eldri borgara, þ.e. ríkið, sveitarfélög og lífeyrissjóðir, og losa þannig um íbúðir fyrir yngra fólk í uppbyggðum hverfum. Hraðbygging íbúða jafnvel í ýmsu ástandi er ekki lausn gegn almennum húsnæðisvanda, heldur gott lóðaframboð og jöfn uppbygging samhliða stöðugleika í landinu.

Allt á að rafvæða á sama tíma og ekki fæst heimild til að reisa vistvænar vatnsaflsvirkjanir, jafnvel lögð áhersla á vindmyllugarða á ósnortnum svæðum í þess stað. Nauðsynlegt er að efla orkudreifingu um landið, sagt skapa ígildi á við meðalstóra virkjun og mikla verðmætaaukningu. Orkuskipti á vélaflota landsmanna, bifreiðar sem annað, kallar á víðtækt orkuöryggi, annað er óábyrgt loftbólutal. Varðandi styrki frá ríkinu til rafbílakaupa, þá væri æskilegra að hafa km-gjaldið frekar hóflegt og huga einnig að eyðslugrönnum og sjálfhlaðandi bifreiðum.

Gæta þarf meira raunsæis í mengunar- og loftslagsmálum og bæta úr þar sem þörf er á, t.d. í frárennslismálum í ár, vötn, höf og víðar. Grænir skattar og gjöld hér og þar sem lítið er vitað í hvað fara í reynd sem og sala á aflátskvótum jafnvel til kolakyndinga ytra er varla lausn gegn mengun og loftslagsvá. Lítið er minnst á mengun frá hernaði víða um heim og fleiri mengunarpotta sem og eyðingu mengunarefna við ætluð orkuskipti.

Leggja þarf áherslu á þarfa uppbyggingu gatna, vega og brúa í stað kostnaðarsamra framkvæmda sem virka ekki til umferðarflæðis og öryggis.

Efla þarf nýsköpun, framleiðni, menntun, heilsugæslu o.fl. og stórefla forvarnir gegn fíkniefnavánni og ýmsu fleiru sem og öryggi í landinu á ýmsum sviðum. Það sama er með matvælaöryggi í landinu með okkar hágæða framleiðslu. Ýmis vá getur stoppað hingað innflutning á matvælum á einni nóttu.

Ljóst er að opin landamæri ráðum við ekki við. Gæta þarf hófsemi varðandi ferðamannafjölda, þ.e. álag á land, innviði o.fl. Einbeita okkur frekar að toppferðaþjónustu eins og víða er og meira öryggi í stað áherslu á 4 milljónir ferðamanna.

Það er ekki til framfara og stöðugleika að afhenda að hluta erlendu bákni sjálfstæði okkar og auðlindir til lands og sjávar með hækkandi orkuverði o.fl. Eignarhald á auðlindum landsmanna má með engu móti skerða. Sala jarða og fleiri þátta til erlendra aðila er opin sem fyrr án þarfra skilyrða/kvaða. Skilar erlend eignaraðild/rekstur sem og sala erlendis á þjónustu hér sér til samfélagsins sem skyldi?

Standa þarf vel að málefnum Grindvíkinga varðandi eignir sem annað sem og að hinni mikilvægu starfsemi sem þar hefur verið. Þakka ber bjargvættum á svæðinu fyrir þrekvirki og vasklega framgöngu til verka í viðureign við ægivald náttúrunnar.

Full þörf er á að hvetja umheiminn til friðar og meiri samvinnu og huga betur að raunumhverfinu hér í stað tyllidagatals sem litlu/engu skilar.

Höfundur er fv. fulltrúi og deildarstjóri.